mánudagur, janúar 22, 2007

Það var kalt á mæli á laugardagsmorguninn þegar ég fór út upp úr kl. 8.00. Þrettán stig í mínus voru á mælinum í Víkinni. Engu að síður var þetta fínn túr. Ég fór út í Fossvog, fyrir Kársnesið, tók tröppurnar og svo heim. Samtals um 17 km. Hafði ekki tíma itl að vera langur en í stafalogni eins og var á laugardaginn skipta mínusgraðurnar ekki máli. Fór eftir hádegið austur á Þingvöll, Gullfoss og Geysi að taka myndir í frostinu og sólinni. Ég hef ekki komið að Gullfossi fyrr í klakaböndum. María var að keppa í Laugardalnum á stórmóti ÍR. Henni gekk vel, vann hástökkið og var 4. í 60 m. hlaupi. Sunnudagurinn var undirlagður af íþróttum frá morgni til kvölds. Um morguninn var haldið niður í Laugardal en María byrjaði að keppa um kl. 9.30. Hún vann 60 m. grind, var 3ja í langstökki og 4. í 200 m. Þetta var fín helgi hjá henni og er greinilegt að Natalia, rússneski þjálfarinn sem kom til Ármanns í haust, hefur skilað góðu verki. Þegar þessu var lokið fann ég góðan klukkutíma til að fara í World Class til að hlaupa og taka styrktaraæfingar. Ég er farinn að vinna skipulega í að styrkja bak og færur, vonum seinna. Svo var haldið á ÍR mótið sem byrjaði kl. 14.00. Þar bar það hæst að Kári Steinn setti glæsilegt ísandsmet í 3000 m. halupi innanhúss og sló þar með 26 ára gamalt með Jóns Diðrikssonar. Jón Dikk var enginn smá kall í hlaupunum og það er því frábært hjá Kára að stimpla sig svona inn. Fleiri met voru sett s.s. sigraði Einar Daði á glæsilegum endaspretti í 400 m. hlaupi á nýju drengjameti, Stefanía setti stúlknamet í sömu grein og svo setti vinokna maríu Stefanía Valdemarsdóttir glæsilegt telpnamet með í 800 m hlaupi. Fleiri met voru einnig slegin sem ég man ekki alveg eftir. Gaman að sjá framfarirnar hjá þessu unga fólki öllu sem leggur hart að sér og uppsker samkvæmt því.

Eins og dagurinn hafði verið góður fram að þessu þá fór hann heldur versnandi því Man. Udt. tapaði fyrir Arsenal á útivelli fetir að hafa verið yfir fram á 83. mín. Sömuleiðis tapaði landsliðið í handbolta illa fyrir Úkraníu. Eftir mat var svo haldið suður í Hafnarfjörð þar sem Víkingur/Fjölnir spilaði við Hauka 2 og sigraði. Jói var á bekknum en kom ekki inná.

Sá upphafið að Kompásþættinum í gærkvöldi. Það leyndi sér ekki að það var andlit sem maður hafði séð áður í fjölmiðlum sem birtist þegar Kompásmenn lokkuðu þrælinn fram í dagljósið. Dæmdur glæpamaður sem hafði fengið dóm fyrir afbrot gegn fjölda ungra drengja var kominn á götuna og tekinn við sína fyrri iðju þar sem frá var horfið. Fram kom að hann hafði ekki lokið við að afplána nema um helmingi dómsins. Það kemur manni enn og aftur til að hugsa um því það sé við lýði tvöfalt dómskerfi hérlendis. Annars vegar það sem snýr opinberlega að almenningi og heitir Héraðsdómur og Hæstiréttur en svo er hitt sem heitir eitthvað allt annað (Úrskurðarnefnd um náðanir eða eitthvað svoleiðis) og tekur ákvarðanir um að skera dóma niður og hleypa dæmdum glæpamönnum út eftir aðeins um helming af þeim tíma sem hin dómsstigin ákváðu. Það er alltaf talað um dóma sem refsingu fyrir hinn dæmda. Ég lít á dóma á þann hátt að í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að vernda samfélagið gagnvart ákveðnum einstaklingum og því sé nauðsynlegt að taka þá úr umferð. Þá á ekki eitthvert apparat að taka ákvörðun um að breyta því bara si svona, kannski bara vegna þess að það er plásslítið á Hrauninu.

Engin ummæli: