miðvikudagur, apríl 11, 2007

Aðalfundur UMFR36 var haldinn í gærkvöldi. Vel mætt og vel setið. Það er ekki á hverjum degi sem tveir Ironman eru á sama fundinum. Þeim mun fara fjölgandi. Rætt var um viðburði fyrra árs og sérstaklega sex tíma hlaupið. Ákveðið er að hafa það árlegan viðburð og velt vöngum yfir hvernig megi bjóða upp á fleiri tegundir hlaupa til að fá sem flesta til leiks. Hægt er að bjóða uppá 3ja tíma hlaup, maraþon og sextímahlaup, allt í sama pakkanum. Verður útfært nánar þegar nær líður.
Fyrir fundinn var lögð og samþykkt stofnskrá fyrir farandbikar sem veittur verður hlaupara ársins innan UMFR36. Félagsmenn munu kjósa hlaupara ársins í framtíðinni úr hópi þeirra félagsmanna sem hafa hlaupið heilt maraþon eða lengra hlaup. Til að þurfa ekki að bíða í heilt ár eftir tilnefningu var ákveðið að hafa skemmri skírn á því þetta árið og var Elín Reed valin hlaupari ársins 2006 hjá UMFR36. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að hlaupa 100 km hlaup og lauk einnig góðri vegalengd í sex tíma hlaupinu í september. Einnig var hún fyrst íslenskra kvenna til að ljúka Þingvallavatnshlaupinu í fyrra.
Ásgeir Jónsson fjallgöngukappi og Ironman hélt síðan gott erindi um mataræði og fleira sem viðkemur því sem þeir sem leggja á sig miklar æfingar þurfa að hafa í huga. Spunnust fjörugar umræður um það mál út í frá reynslu viðstaddra. Það er stórt mál að hafa mataræðið í lagi þegar álag á sál og líkama er mikið og langvarandi.
Að lokum var farið yfir hvar er framundan hjá félagsmönnum í hinum lengri hlaupum. Eiður ætlar í 100 km í Hollandi í lok apríl, undirritaður ætlar í 24 tíma hlaup í Danmörku í byrjun maí, Höskuldur og Börkur ætla í Mt Blanc 163 km fjallahlaup í ágúst, Ásgeir og Bryndís B. ætla í Ironman í júní og Stefán Örn ætlar aftur í fjallaþolraunina á rænlandi í júlí. Mörg og spennandi maraþonhlaup eru einnig á döfinni. Einnig var mikið rætt um aðrar áskoranir sem eru farnar að freista s.s. Badwater í Dauðadalnum (231 km) , Spartathlon í Grikklandi (240 km) og Maraþon de Sables, eyðimerkurhlaupið í Marokkó. Það er 243 km langt og tekur 6 daga. Það er sem sagt ekkert verið að horfa niður á tærnar á sér.
Góðum fundi lauk á ellefta tímanum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ónei, steingleymdi fundinum. Hundfúlt!