þriðjudagur, apríl 03, 2007

Fór ekkert út að hlaupa á sunnudaginn. Það var fermingarveisla á dagskránni, leikur í Egilshöll og fleira sem tók tímann. Fór hins vegar í góða Yasso æfingu í Laugum í gær og í dag var fyrsta hádegishlaupið á stuttbuxum á árinu.

Mikið hefur verið rætt um kosningarnar í Hafnarfirði á laugardaginn. Manni sýnist niðurstaðan helst vera sú, fyrir utan að rúmlega 50% Hafnfirðinga vildu ekki að álverið stækkaði og færðist nær íbúabyggðinni en rétt tæp 50% kjósenda vildu að það gerðist, að það þarf að setja skýrar reglur um íbúakosningar svo þær fari ekki út í tóma vitleysu. Sjálfskipaðir vörslumenn umhverfisins hafa ákveðið að túlka niðurstöðurnar á þann veg að þarna hafi orðið tímamót í umhverfisverndarumræðu á landinu. Ég sé ekki hvernig hægt er að lsa það út úr niðurstöðunni. Hvað ef 45 Hafnfirðingar hefðu greitt atkvæði á annan hátt en þeir gerðu? Hefði þá verið gefið óheft veiðileyfi á umhverfið? Ég held ekki. Íbúar í einu sveitarfélagi geta ekki með svona atkvæðagreiðslu tekið afgerandi ákvarðanir sem varað þjóðarhag. Hefðu íbúar Fjótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps einir átt að kjósa um Kárahnjúkavikjun ef sú framkvæmd hefði verið borin undir atkvæði. Ég held ekki.

Ég ber mikla virðingu fyrir Margréti Pálu leikskólastjóra. Ég var hins vegar ekki sammála málflutningi hennar í Silfri Egils á sunnudaginn. Hún hélt því fram að þær konur sem ynnu í leikskólum, grunnskólum, við ummönnun og í heilsugæslunni væru vinnukonur kerfisins. Hvaða alhæfingar og fullyrðingar eru þetta? Vinnukonur voru hér áður réttindalitlar konur sem réðu sig í vinnu vegna þess að þær áttu ekki annan kost. Þær áttu ekkert val. Nú hefur hver og einn val um hvað hann gerir. Einstaklingar taka meðvitaða ákvörðun um starfsval. Það þvingar enginn konur til að vinna við umönnun, fræðslumál eða í heilbrigðisþjónustu. Þær geta eins farið í iðnskóla og lært að vera vélvirki, trésmiður, rafvirki eða hvað veit ég ef markmiðið er að starfa sjálfstætt. Er ekki Rannveig Rist vélvirki og vélstjóri að grunnmenntun? Það er eins og mig minni það. Margrét Pála hélt því fram að karlar sem rækju eigin fyrirtæki hefðu svo sveigjanlegan vinnutíma og réðu launum sínum sjálfir. Ég veit ekki annað en gröfukarlinn verði að mæta þegar verktakinn kallar. ef hann gerir það ekki þá er bara hringt í annan. Ég hef ekki séð annað en að sjálfstæðir atvinnurekendur þurfi að vinna á við hvern annan og oft meira til að láta hlutina ganga upp og launin koma oft eftir dúk og disk. Margir velja hins vegar starf þar sem vinnutími er fyrirséður, laun þekkt og launagreiðslur öruggar. Þetta er allt til staðar hjá opinbera geiranum. Konur eru í eðli sínu varfærnari en karlar. Þeir eru áhættusæknari. Því velja konur sér frekar störf þar sem allt er á hreinu fyrir utan annað sem ég ætla ekki að telja upp. Vil þó benda á að iðnaðarmannastörf og vélamannastörf henta ekki öllum vegna þess að þau eru oft erfið, skítsæl og þar þarf að vinna utanhúss í öllum veðrum eða við alla vega aðstæður. Þannig er það nú bara. Minnist á þetta vegna þess að það var sérstaklega minnst á gröfurnar í Silfrinu.
Ég hef á tilfinningunni að Margrét hafi notað þetta orðafar til þess að fjölmiðlamenn hlustuðu á það sem hún var að segja því menn þurfa yfirleitt að tala með upphrópunum eða í ófyrirleitnum hástafafyrirsögnum til að vekja athygli eins og dæmin sanna frá Alþingi. Vil þó ítreka að það er beil´linis rangt að halda því fram að fólk hafi ekki val um starfsvettvang hérlendis. Það er á hinn bóginn mismikil samkeppni í hinum ólíku starfsgreinum.

Engin ummæli: