þriðjudagur, apríl 10, 2007

Ekkert hlaupið á páskadag. Taldi réttara að hvíla eftir laugardagshlaupið. Fór út í dag í hálfgerðum slydduéljum og tók hefðbundinn 16 km hring. Fínt. Það lítur út fyrir að æfingar í svona veðri muni skila sér fyrir Boston því samkvæmt veðurspánni verður 9 stiga hiti og væta þar á mánudaginn 16. apríl. Það er kannski ekkert lakara en að hafa yfir 20 stiga hita eins og getur verið á þarnam á þessum árstíma. Það er bara að taka síðbuxur og stakk með.

Horfði á þrjár fínar myndir í sjónvarpinu í gærkvöldi. Það er kosturinn við svona frí að það eru bæði oft góðar myndir á dagskránni og síðan gefur maður sér tíma til að stija aðeins uppi frameftir. Ég hafði séð tvær áður en það er altaf gaman að horfa á góðar myndir. "I walk the line" stendur alltaf fyrir sínu. Eftirminnilegasta senan finnst mér vera frá konssertinum í Folsom Prison þegar dynurinn í stappinu og klappinu heyrist langar leiðir og vörðurinn biður Cash um að spila sálma eða eitthvað sem rói þá niður. Cash slær hins vegar strax í Cocane blus og stemmingin er gríðarleg.
Síðan var mynd um Gasoline, þá gömlu dönsku hljómsveit. Gaman að sjá að Kim Larsen var álitinn hálfgreður trúður sem vildi bara spila rútubílasöngva eftir því sem hinum í bandinu fannst sem vildu taka 10 mínútna löng sólo í það minnsta. Kim stendur síðan uppi sem grand old man danskrar tónlistar á meðan sólókallarnir eru týndir og tröllum gefnir. Kim hefur aldrei flutt úr blokkinni og heldur kontakt við gömlu ræturnar. Honum fannst hann hafa glatað jarðsambandinu þegar ekki var lengur talið við hæfi að hann klæddi sig upp á einhverjum flóamarkaði eins og hann hafði alltaf gert. Eftirminnileg var frásögnin af USA túrnum þegar þeir ætluðu að sigra heiminn eftir að hafa lagt Danmörku að fótum sér. Á koncertinn í San Francisko komu einungis sex danskir sjóarar af fraktara. Þeir æptu "Sung for helvede noget pa dansk" þegar Gasolin söng enska teksta við lögin sem höfðu hljómað vel á dönsku heima. Stundum er betra að vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn.
Síðast voru Hliðargötur (Sideways) sem gerist í Kaliforníu. Skemmtileg mynd. Hún vakti upp góðar minningar frá því í hitteðfyrra þegar við Ágúst keyrðum eftir Kaliforníudalnum upp til Squaw Valley til móts við WSER. Ég var heldur þreyttari á leiðinni til baka frá Auburn með Kristni og athyglin ekki eins uppnumin af umhverfinu.
Páskarnir eru ágætis frí. Ég hef hins vegar ekki orðið mikið var við andlegheit eða kristilega iðkan. Það truflar mig lítið.

Engin ummæli: