mánudagur, apríl 30, 2007

Maður getur ekki annað en gert þá kröfu til ríkisfjölmiðla að þeir sýni fagmennsku og yfirvegun í umfjöllun sinni um stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka. Sérstaklega á þetta við um síðustu vikurnar fyrir kosningar. Þetta er spurning um princip og lýðræðislegar leikreglur. Fréttastofa sjónvarpsins hefur farið mikinn að undanförnu í umfjöllun sinni um veitingu ríkisborgararéttar til handa væntanlegri tengdadóttur Jónínu Bjartmars. Einhverra hluta vegna hafa þeir nefndarmenn í allsherjarnefnd sem tóku ákvarðanir í þessu máli og eru alfarið ábyrgir fyrir því ekki verið teknir á hvalbeinið heldur hefur fréttastofa RÚV reynt eins og hægt er að klína því á Jónínu að hún hafi misbeitt aðstöðu sinni sem þingmaður og ráðherra. Framganga fréttastofunnar í málinu varð enn skýrari í gærkvöldi þegar þingflokksformaður eins stjórnarandstöðuflokksins var orðinn helsti álitsgjafi fréttastofunnar í málinu. Vitnað var til orða hans sem sérstaks umsagnaraðila í fréttayfirliti. Það kom ekki fram hjá fréttastofunni að fréttamaðurinn sem fór mikinn gegn Jónínu í Kastljósþættinum fyrir helgina var kosningastjóri hjá sama stjórnarandstöðuflokki fyrir fjórum árum. Þetta er náttúrulega einstök tilviljun sem tekur ekki að tala um.

Ég las eitt sinn viðtal við sænskan ultrahlaupara sem hafði þá nýlokið við að hlaupa 100 km hlaup í Belgíu. Það kom honum á óvart að upplifa viðhorf Belganna gagnvart ultrahlaupurum miðað við það umhverfi sem hann þekkti frá heimalandinu. Í Belgíu voru hlaupararnir meðhöndlaðir sem hetjur eftir hlaupið á meðan hann sagði að í Svíþjóð voru þeir hlauparar álitnir heldur skrítnir sem hlupu lengra en maraþon. Nú ætla ég ekki að mælast til þess að ultrahlauparar séu hylltir sem hetjur en það er þó eitt sem ég geri kröfu til að ultrahlaup sé metið sem íþrótt eins og önnur hlaup. Af hverju er frétt af ultrahlaupum ekki íþróttafrétt heldur sett sem frétt undir „Ferðir“, „Fólk“ eða eitthvað annað álíka. Í morgun skýrði Mogginn frá því að Eiður Sigmar hefði lokið 100 km hlaupi í Amsterdam. Frétt af afreki Eiðs var sett milli tveggja frétta um eldsvoða. Annar bruninn var sinueldur í Eyjafirði en hin fréttin var af húsbruna. Enda þótt það hafi verið heitt hjá Eið laugardaginn þá sé ég ekki ástæðu til að tengja afrek hans við eldsvoða. Svona staðsetning frétta er dæmi um afar einkennilegt fréttamat fjölmiðla. Það er talin íþróttafrétt þegar það er rakið hverjir hafi setið á tréverkinu í þessum eða hinum leiknum og ekki fengið að koma inn á en það er ekki íþróttafrétt þegar maður hleypur 100 km eða þaðan af lengra. Hvaða rugl er þetta?

Engin ummæli: