laugardagur, nóvember 17, 2007

Fór út klukkan 7 í morgun í góðu veðri. Tók Poweratehringinn og hitti síðan Neil, Jóa og Halldór við brúna um kl. 8.30. Fórun síðan fyrir Kársnes, tókum brekkuspretti, tröppurnar og síðan til baka. Losaði 30 km.

Ég hef tekið vænan vítamínskammt tvisvar á dag síðan í haust. Einnig er ég farinn að nota Herbalive reglulega fyrir og eftir langar æfingar. Ekki ætla ég að fullyrða um að þetta sé lykill að framförum en ég finn mikinn mun á hvað ég er fljótari að jafna mig eftir svona langar æfingar miðað við fyrir einu til tveimur árum síðan. Fyrir tveimur árum varmaður stirður fram á dag eftir löng og erfið hlaup en nú finnur maður varla fyrir þessu eftir að maður er búinn að fara í sturtu. Fríða Rún sendi mér góðar ábendingar um praktiskar viðbætur sem ég ætla að nýta mér. Glútamín, undanrennuduft og liðamín.

Neil sótti nýlega um að komast í Western States. Börkur sömuleiðis. Nú eru reglurnar orðnar svoleiðis að einungis 25 fyrstu útlendingarnir sem sækja um komast beint inn, hinir lenda í lottóinu. Ef einhver hefur tekið þátt í lottóinu tvisvar án þes að vera dreginn út þá kemst hann með í þriðja sinn. Nú er hinsvegar nauðsynlegt að sækja snemma um til að sleppa við svona lagað. Þegar ég hljóp WS fyrir tveimur árum þá voru útlendingarnir 32 en þeim hefur fjölgað verulega síðan sem vilja komast í hlaupið.

Fór á Silfurmót ÍR í dag. Þar voru nær fimm hundruð litlir og stórir krakkar að keppa. Þátttaka í frjálsum hefur sprúngið út með tilkomu nýju frjálsíþróttahallarinnar. Það verður gaman að sjá stöðuna eftir 5 - 10 ár.

Það var gert mikið úr því nýlega að það hefðu aldrei sent fleiri inn mótmæli en við nýjum virkjunaráformum á Hellsiheiði. Rúmlega 600 manns sendu inn athugasemdir. Mér finnst það í raun og sann ekki vera mikill fjöldi þar sem staðlaður texti að mótmælunum var birtur á netinu. Annað hvort þurfti að ýta þar á "send" takka eða kópíera textann og peista hann síðan á tölvupóst. Einfaldara er ekki hægt að hafa það. Síðan er öllum sem hugsast getur sendur tölvupóstur þar sem vakinn er athygli á þessum möguleika. T.d. öllum félagsmönnum VG trúi ég. Alla vega myndi ég hafa gert það ef ég hefði verið að vinna í þessum málum. Samt sem áður sáu einungis um 600 manns ástæðu til að bregðast við þessu. Ef að 10 eða 20 þúsund hefðu sent inn mótmæli sem hægt var að vinna á þennan hátt hefði mér fundist það vera nokkuð sem mark var á takandi en rétt um sex hundruð. Það er ekki mikill fjöldi.

Í þessu sambandi er rétt að velta fyrir sér einu. Hvar á landinu ætli að sé það ljótt að það verði óumdeilanlegt að þar megi virkja?

Ég hef stundum tuðað um hallann í jafnréttisumræðunni. Harðsnúið lið klifar sífellt á því óréttlæti sem felst í því að það séu færri konur en karlar í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi eins og það sé mál málanna um jafnrétti kynjanna.

Pétur Tyrfingsson heitir maður nokkur sem er ansi vitur. Hann er menntaður sem sálfræðingur og starfar sem slíkur. Hann var að hlusta nýlega á niðurstöður könnunar um líðan barna í grunnskólum og hjó eins og ýmsir aðrir eftir því hvað hallaði þar á stráka á ýmsum sviðum. Hann leiðir síðan út frá því í ágætum pistli á eyjan.is að það sé náttúrulega ekki allt í lagi þegar miklu hærra hlutfall stráka fellur út úr skólum, strákum líður mun verr en stelpum sí skólum, hlutfall stráka í framhaldsskólum minnkar sífellt og þeir eru í orðnir miklum minnihluta þar og að síðustu þegar sjálfsmorð eru orðin ein hæsta dánarorsök ungra karlmanna o.s.frv. Hann varpar fram þeirri eðlilegu spurningu hvers vegna jafnréttisiðnaðurinn hafi ekkert skoðað þessi mál. Það er mjög athylgisvert að skoða hin mörgu viðbrögð sem hann fær við pistli sínum. Það er ráðist á hann af allnokkrum ákafa af sjálfskipuðum varðhundum jafnréttisiðnaðarins með allskonar orðaleppum og fjasi út og suður. Þessi viðbrögð segja manni mikið um hugarheim þess fólks sem titlar sig handhafa hinnar einu sönnu skilgreiningar á hugtakinu jafnrétti.

Sem betur fer hefur verið fjallað nokkuð í fjölmiðlum hér um hinn grimmilega dóm yfir ungri stúlku í Sádí Arabíu sem var felldur rétt nýverið. Henni var raðnauðgað af einhverjum óþokkum. Hún var dæmd til að þola 200 vandarhögg og sex mánaða fangelsi fyrir að hafa farið upp í bíl með sér óviðkomandi manni sem undanfara nauðgunarinnar. Menn eiga að athuga það að vandarhögg í íslömskum heimi eru ekkert dangl með handklæði á afturendann. Böðlarnir eru fullorðnir karlmenn með langar leðurólar. Högg með slíkum ólum fletta skinninu af bakinu. Ég hef ekki trú á að fangelsisyfirvöld í Sádí Arabíu þurfi að hafa áhyggjur af því að þurfa að taka frá pláss fyrir stúlkuna eftir að hún hefur fengið 200 svipuhögg. Þessi skilaboð frá dómskerfinu þar í landi eru mjög skýr. Ef konur voga sér að gera eitthvað það í þessu landi sem karlarnir hafa ekki kontroll yfir þá er refsingin eins grimmúðleg og hugsast getur. Kvenþjóðin þar er kúguð og undirokuð eins og frekast er mögulegt að ímynda sér. Það er ekki hægt annað en að rifja upp í þessu sambandi þegar myndir birtust í blöðum í vor þegar nokkrar þingkonur höfðu farið í opinbera heimsókn til Sádí Arabíu. Þeim var troðið í þarlendan kúgunarklæðnað kvenna og þeim fannst þetta bara fyndið samkvæmt myndinni í Mogganum.

Ég þekki konu sem fór á sl. ári til lands í austurlöndum nær sem er leitt af álíka stjórnarfari og í Sádí Arabíu. Hún var þar á vegum alþjóðlegra hjálparsamtaka. Það var gert að skilyrði fyrir heimsókninni að konur hyldu líkama sinn með kuflum og höfuðdúk til að geta sinnt starfi sínu. Það var gengist inn á það. Hún sagði að eftir nokkra daga var henni farið að líða verulega illa í þessum klæðnaði þegar hún fór að skilja betur það sem honum býr að baki.

Nýlega var ung stúlka grýtt opinberlega til bana á torgi bæjar í Íran vegna þess að hún hafði sýnt strák áhuga sem hafði ekki hina réttu trú. Það var ekki flóknara en þetta að klára málið.

Heiðursmorð hafa verið bönnuð með lögum í Pakistan. Þá bregður svo við að sjálfsmorðum ungra kvenna fjölgar verulega.

Í þessu sambandi er einnig rétt að hugsa um að þeir sem tala mest um jafnrétti kynjanna hérlendis bregða gjarna skildi fyrir hina öfgafullu múhameðstrúarmenn í arabaheiminum með því að fara að tala um að þar sé annar annan menningarheimur, það verði að sýna þeirra menningu og hefðum skilning og svo framvegis. Afsakiði meðan ég æli.

Engin ummæli: