miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Maður veit varla hvar á að byrja eftir þær umræður sem hafa verið efst á baugi í dag. Nú vill tölfræðideild Feminstafélagsins ritskoða Silfur Egils og hafa 50/50 kynjahlutfall í öllum þáttum. Þær heimta einnig að það sé 50/50 kynjahlutfall í fréttum, öðrum umræðuþáttum og sérhverri umfjöllun hjá ríkisútvarpinu. Ef kynjahlutfall er skakkt s.s. í ráðherra hópi og þingmannahópi þá eigi að jafna það upp á annan hátt, sama hvernig en jafnt skal kynjahlutfallið vera. Hér er á ferðinni óvanalega grímulaus atlaga að málfrelsi í landinu. Ég hef staðið í þeirri trú að Silfur Egils nyti þeirra vinsælda sem raun ber vitni vegna þess að stórum hluta þjoðarinnar þyki áhugavert að horfa á hann. Þá skiptir nákvæm greining á kynjahlutfalli, aldurshlutfalli, tekjustigi, búsetu og öðrum atriðum sem hafa áhrif á skoðanir og aftöðu fólks ekki máli. Umræðan er áhugaverð. Ef þátturinn væri leiðinlegur, einstrengingslegur, hlutdrægur og svo framvegis myndi hann renna sitt skeið hraðar en hratt. Litlum hluta feminista sem telur að hann hafi einkarétt á að skilgreina hvað er jafnrétti þykir sinn hlutur hins vegar ekki góður í þættinum og skiptir þá ekki máli þótt talað sé við aðrar konur. Þær vilja ráða við hverja verður talað í Silfrinu. Fróðlegt verður að sjá framvindu þessa máls. Ég geri ráð fyrir að ef látið verður undan þessum litla hópi þá rísi upp alleslags hagsmunahópar í landinu og fari að mæla á reislu og vog hlutdeild sína í Silfri Egils. Það er ekkert annað að gera en að vona að Egill standi þetta rugl af sér og haldi sínu striki ótrauður.

Sænsk kona hélt erindi í Norræna húsinu í dag um sæmdarglæpi eða heiðursmorð eins og slíkir glæpir eru einnig nefndir. Slíkir hryllingsviðburðir stað hjá strangtrúuðum múhameðstrúarmönnum eða islamistum sem telja að ættmenni (yfirleitt dætur) hafi smánað heiður ættarinnar. Á þennan hátt birtist innræti karlasamfélagsins hjá Islamistum sem halda konum í ógnargreipum með þessum og álíka þrifalegum aðferðum. Engin meðöl eru til spöruð til að sporna gegn því að konur geti lifað opnara og frjálsara lífi en karlarnir hafa ákveðið. Einn stærsti glæpurinn í augum hreintrúaðra feðra er ef dóttir tekur saman við strák sem er annarrar trúar en ætt stúlkunnar játast undir. Í verstu tilfellunum enda slík átök með morði á stúlkunni eða stráknum. Það er nefnilega svo að það verða ekki einungis konur fyrir glæpum af þessum toga heldur einnig strákar. Ég man eftir sænsku tilfelli þar sem strákurinn var leiddur í gildru og drepinn á viðurstyggilegan hátt, hellt á hann sjóðandi olíu, skorinn og stunginn áður en hann var drepinn endanlega. Vægari tilvik sæmdarglæpa er t.d. umskurður á stúlkubörnum og gifting smástelpna undir gamla karla sem viðgengst t.d. í töluverðum mæli í Svíþjóð samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. Í Svíþjóð hefur stór hópur Islamista krafist þess að Sharia lögin séu æðri sænskum lögum með þeim rökum að Sharia lögin séu komin frá spámanninum og því séu þau æðri lögum sem maðurinn hefur búið til. Þetta er ekkert grín heldur blóðug alvara. Það er einnig áhugavert að skoða viðbrögð hérlendra sjálfskipaðra jafnréttissérfræðinga þegar þessi mál ber á góma. Þá er alltof oft farið að tala um ólíka menningarheima, fjölmenningu og umburðarlyndi. Það kom glöggt fram hjá sænsku konunni að slík viðhorf eru forkastanleg í hennar augum.
Ég mæli í þessu sambandi með bókinni Islamistar og Naivistar sem bókaútgáfa Andríkis gaf út rétt fyrir skömmu. Ómissandi lesning fyrir þá sem aðhyllast raunsæja þjóðfélagsumræðu.

Stundum veltir maður fyrir sér hugarheimi þeirra sem sitja á Alþingi. Það koma þær stundir að manni finnst hann ekki alveg vera í takt við raunveruleikann eða það sem máli skiptir í samfélaginu. Nú síðast lagði einn þingmaðurinn það á sig að fara að grafast fyrir um uppruna þess að strákar eru klæddir í blá föt og stúlkur í bleik föt á fæðingardeildinni og vildi fá að vita hví þau væru ekki öll klædd í hvítt. Þetta er sem sagt mikilvægt mál í augum þingmannsins. Það hlýtur að vera mikilvægt í augum þingmannsins vegna þess að hann telur aðra skipan betri s.s. að öll börn séu í einslitum förum svo hlutgerfing kynjanna (eða hvað þetta heitir aftur) hefjist ekki strax á fæðingardeildinni. Þá spyr maður sig þeirrar spurningar hvort ekki eigi halda þessu áfram ef það er til bóta að hafa bæði kynin í eins fötum á fæðingardeildinni. Ef þetta skiptir máli á fæðingardeildinni þá hlýtur það að skipta meira máli þegar fólk er orðið fullorðið. Þjóðhagslegur sparnaður er til að mynda óumdeilanlegur. Þetta hefur svo sem verið gert svo það er komin reynsla á þetta. Í Kína Maós klæddust allir eins fötum, Maógallann græna. Karlar jafnt sem konur. Ég trúi að þar hafi bæði kynin einnig verið í eins fötum á fæðingardeildunum á meðan ógnarstjórn Maós réði ríkjum í Kína ef þau voru yfir höfuð klædd í föt við fæðingu. En hvað gerðist eftir að karlinn dó og fólk gat um frjálst höfuð strokið. Konur í Kína fóru auðvitað að klæða sig í smekkleg föt og hentu helvítis Maógallanum út í hafsauga. Af hverju ætli það sé? Ekki var þeim kennt þetta í uppeldinu þegar reynt var að steypa alla í sama mót. Það býr nefnilega í kvenlegu eðli að vilja klæðast líflegum og fallegum fötum og ég virði þá löngun þeirra heilshugar. Því verður þessi ágæti þingmaður að skýra betur út hvað hún meinar með þessum hugrenningum sínum. Vonandi verður hún í Silfri Egils á sunnudaginn og Agnes Bragadóttir blaðamaður þar með henni.

Engin ummæli: