sunnudagur, nóvember 04, 2007

Ég hef verið í tölvupóstsambandi við Neil Kapoor síðan í Grikklandi og sagði honum m.a. frá löngu laugardagshlaupunum okkar. Sótti hann niður á Skólavörðustíg á laugardagsmorguninn og við lögðum upp rúmlega 7.00. Hann hafði gaman af því að kynnast nýjum hlaupaleiðum og nýjum hlaupurum. Hittum Jóa, Halldór og Pétur við brúna og mættum Jörundi skömu síðar. Þetta varð hinn besti túr í góðu verði. Ég losaði rúmlega 30 km en Neil hélt áfram og fór hátt í 40 km. Hann tók erfitt maraþon á 3.25 hálfum mánuði eftir Grikkland og varð þriðji. Svo merkileg sem það er þá var hann venjulegur slúbbert fram að þrítugu og hafði aldrei hlaupið neitt og vissi að hann gat ekki hlaupið. Um þrítugt söðlaði hann um upp úr þurru, hætti að reykja og drekka, gerðist jurtaæta og fór að hlaupa. Þetta er svona svipað eins og með Dean Karnazes, Ultramarathonman, sem byrjaði að hlaupa eftir fylleríi á 30 ára afmælisdaginn sinn. Neil komst rétt milli ljósastaura fyrst en svo fór þetta að liðkast. Fyrir utan fjölmörg maraþon (2.45 best í London í vor) hefur hann sigrast á gríðarlegum hlaupum eins og Badwater og Spartathlon og tekið þrjá triathlon (sem er þrefaldur Ironman í beit). Næsta vor stefnir hann á mikla súperironmankeppni í Bretlandi þar sem syntar eru rúmar 20 mílur, hjólaðir 1500 km og ég man ekki hvaðer hlaupið en það er eitthvað í stíl við fyrstu greinarnar tvær. Það eru skráðir þrír til keppni og ekki búist við fleirum.

Sá viðtal við Sigurð Guðmundsson fyrrv. landlækni og Sigríði konuna hans í Fréttablaðinu í morgun. Þau eru að koma frá Afríku eftir ársdvöl þar og eru mjög gagnrýnin á hvernig staðið er að þróunaraðstoð margskonar. Það vita flestir sem vilja vita og hafa eitthvað kynnt sér þessi mál að svokölluð þróunaraðstoð hefur oft verið til hins verra og betur ógerð. Víða tók hún sjálfsbjargarviðleitnina af fólki og braut niður þann struktur sem fyrir hendi var. Þeir fjármunir sem lagðir voru í þróunaraðstoð máttu helst ekki fara út úr því landi sem veitti aðstoðina og því voru þeir yfirleitt notaðir til að kaupa eitthvað af innelndum fyrirtækjums em síðan var flutt út í s.k. þróunaraðstoð. Ódýr og praktísk aðferð til að kaupa sér góða samvisku.

Öðru hjó ég eftir í viðtalinu sem er orðið svolítið dæmigert fyrir umræðuna almennt í samfélaginu. "Hún var verkefnisstjórinn og ég var undir henni" segir Sigurður og var ánægður með það hlutskipti. "Ég hefði nú ekki átt annað eftir en að fara til Afríku sem einhver undirkona eiginmanns míns" skýtur Sigríður inn í og þau hlægja bæði. Þetta þykir bara fyndið þegar kona segir svona hluti en ég get rétt ímyndað mér hvað rétttrúnaðarsamfélagið hefði sagt ef Sigurður hefði látið svona út úr sér eða hvaða annar kall sem er. Feministarnir hefðu gengið af göflunum og heimtað að viðkomandi yrði brenndur á báli. Það hefði svo sem verið hægt að kynda bálið með upplaginu um Negrastrákana tíu eins og ýmsir eru farnir að ýja að því að rétt sé að gera.

Mér fannst rétt hjá Illuga Jökulssyni að hjóla í söguna um Dimmalimm. Ég er sammála honum um að sagan er heimskuleg og myndirnar fjarri því að vera eitthvað afbragð. Hún er ekkert skárri en negrastrákabókin.

Ég horfði í dag á myndina sem danska sjónvarpið gerði nýlega um ýmsar aðstæður á Grænlandi. Niðurstaða þeirra er að ástandið á Grænlandi sé mjög alvarlegt og samfélagið víða nálægt því að falla saman. Spilling sé landlæg og Danir fjármagna samfélagið að verulegum hluta án þess að spyrja neitt að því hvað þeir fái í staðinn. Það lýsir ástandinu kannski einna best að þeir Grænlendingar sem hafa aflað sér menntunar fara burt. Þeir koma sjaldnast heim aftur og ekki síst vegna eigin barna. Við getum borið saman stöðuna hérlendis að langflestir þeirra sem leita sér menntunar erlendis koma heim aftur. Þensla bankanna, tilkoma Íslenskrar erfðagreiningar og fleiri nýsköpunarfyrirtækja hefur gert hámenntuðu fólki kleyft að flytjast hingað sem það gerir ekki síst vegna barnanna. Þetta segir ákveðna sögu.

Danirnir voru í þessari mynd fyrst og fremst að lýsa ástandinu í Nuuk sem er bær álíka að stærð og Akureyri. Þeir segja að munur mili ríkra og fátækra sé mun meiri á Grænlandi en í USA sem hefur oft verið nefnt sem vagga ójafnaðarins. Í Nuuk er 15 - 20 ára bið eftir húsnæði. Á sama tíma spandera stjórnvöld gríðarlegum fjármunum í allskonar rugl eins og selapulsuframleiðsluna sem fór svo marflatt á hausinn sem nokkurt fyrirtæki gat farið. Ég þekki persónulega dæmi um fiskirækt sem norskur lukkuriddari gabbaði þá til að leggja gríðarlega fjármuni í og aldrei varð að nokkrum hlut. Svona fara spillt stjórnvöld með almannafé án þess að þurfa nokkru sinni að axla ábyrgð. Þingmenn samþykktu lög þess efnis að þeir og æðstu embættismenn ríkisins gætu keypt húseignir ríkisins á 30 - 40% af markaðsverði. Þeir skilja síðan ekki baun í því að einhverjum þyki þetta vera aðfinnsluvert þar sem þingið hafi samþykkt lög þes efnis þ.e.a.s. þeir sjálfir. Það má segja að eftirlaunafrumvarpið sem var samþykkt 2003 sé eitthvað í áttina að svona skítadæmi. Gott hjá Valgerði Bjarna að hreyfa við því á þinginu núna. Það má segja að allt sem eitthvað kveður að á Grænlandi sé ríkisrekið. Sjávarútvegurinn, samgöngur, verslun o.s.frv. Einn sagði að þetta væri sambærilegt við það sem gerist á Kúbu og Norður Kóreu. Síðan sitja sömu stjórnmálamennirnir í öllum stjórnum þessara fyrirtækja og ráða þannig öllu í samfélaginu.

Misnotkun á börnum er gríðarlega útbreitt vandamál á Grænlandi. Í myndinni segir maður milli 30 og 40 ára gamall sögu sína en hann var misnotaður af fullorðnum karli þegar hann var 11 ára gamall. Draugurinn frá þeim atburði hefur fylgt honum allar götur síðan. Hann fullyrti að fjölmargir aðrir drengir hefðu orðið fyrir barðinu á þessum manni án þess að nokkuð hefði verið gert. Alls höfðu 11 vinir hans og jafnaldrar framið sjálfsmorð, þar af einn yngri bróðir hans. Einungis viku eftir að hann og félagi hans sátu eitt sinn saman í jarðarför vinar þeirra féll vinurinn fyrir eigin hendi. Myndinni lýkur með því að maðurinn herðir upp hugann og fer á lögreglustöðina og leggur fram kæru á hendur glæpamanninum, nokkuð sem hann hafði hugsað um árum saman en aldrei haft hugrekki til að gera fyrr en eftir að hann hafði opnað sig við sjónvarpstökuliðið.

Grunnskólinn virðist vera í algerri rúst. Agaleysið og áhugaleysið er algert hjá stórum hluta krakkanna. Þegar um helmingur barnanna skilaði heimaverkefni þá var það mjög góður árangur. Það er svo sem ekki við öðru að búast ef enginn áhugi eða hvatning er víða heima fyrir og fæstir sjá nokkra leið úr þeirri stöðu sem þeir eru í nema í gegnum brennivínið. Það er svo sem ekki á góðu von þegar stórum hluta af fólkinu fólkinu er safnað saman í gríðarstór niðurnídd blokkakomplex. Maður gæti svo sem sjálfan sig séð að alast upp við slíkar aðstæður. Það er verið að byggja háskóla í Nuuk en menn vita ekki hvaðan nemendurnir eiga að koma í hann.

Það var gaman og eftirminnilegt að koma til Tassilaq í sumar. Engu að síður sá maður að þarna voru margháttaðir erfiðleikar. Það segir sig sjálft að það er ekki allt í lagi þegar atvinnuleysið er um 25%. Aðstæður eru óskaplega erfiðar á margan hátt og einhvern vegin fannst manni það allt að því óyfirstíganlegt verkefni að yfirstíga þær. Engu að síður eru heimamenn þar magnaðir á ýmsan hátt s.s. að hafa byggt upp ATC keppnina mð þrautseigju og úthaldi.

Engin ummæli: