þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Stundum er ekki hægt að átta sig á þeim sem kalla sig fréttamenn. Allt síðan lögreglan á Keflavíkurflugvelli sýndi af sér virðingarverða staðfestu og rak útsendara Hells Angles til sína heima þá hefur staðið síbyljan í fréttum um að einhver sé að hugsa um að leggja fram kæru um vegna þess að þeim var vísað frá landinu. Þetta éta þessir svokölluðu fréttamenn upp aftur og aftur gagnrýnislaust. Í fyrsta lagi getur það ekki verið frétt að einhver sé að hugsa um að gera eitthvað. Það verður í eðli sínu fyrst frétt og kannski fréttnæmt þegar ákvörðun um að gera eitthvað hefur verið tekin en fyrst er það þó alvöru frétt þegar niðurstaðan úr hugsanlegu kæruferli liggur fyrir. Í öðru lagi er það með ólíkindum hvað s.k. fréttamenn láta menn komast upp með að bulla án þess að svo mikið sem depla auga. Einhver lögfræðingur hélt því fram í fréttatíma RÚV að lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli tæki geðþáttaákvarðanir að vild eða á þann hátt að það væri hægt að búast við því að hann myndi stöðva mann í að koma til landsins ef honum þætti hann leiðinlegur. Fréttamaðurinn virtist standa gapandi eða alla vega datt honum ekki í hug að bregðast við þessum fullyrðingum á einn eða annan hátt. Í þriðja lagi hefur afar fáum ef nokkrum dottið í hug að kanna aðeins hvað Hells Angles félagsskapurinn snýst í raun og sannleika um. Það er ekki mikil fyrirhöfn, bara að taka upp símann og hringja á einhvert danska blaðið en það er kannski betra að kunna dönsku við slíka rannsóknablaðamennsku.

Ég sá umræðu um jafnréttisfrumvarpið í Silfri Egils á sunnudaginn. Þar tókust á rök og klisjur. Að fullyrða það að konur komi yfirleitt með brotna sjálfmynd út úr skólakerfinu er með ólíkindum. Menn laga slíkt ástand alla vega ekki með lagasetningu en ef það er rétt að sjálfsmynd kvenna sé ekki nægjanleg þá á að grafast fyrir um orsök þess og leita leið til að bæta þar úr. Þó að ekki sé rétt að alhæfa mína reynslu yfir allt og allt þá er ekki langt síðan ég var í námi og þar var hver hörku námsmaðurinn á fætur öðrum af kvenkyni og maður var ekki var við að þær væru með neina minnimáttarkennd enda engin ástæða til þess. Magnaðar, þrælklárar og vissu alveg hvað þær vildu.

Það er einnig í hæsta máta réttmætt að efast um að það sé rétt fyrirkomulag að setja þá aðila í eftirlitshlutverk sem hafa persónulegan hag af því að halda eftirlitinu áfram. Þannig tekur það aldrei enda. Það er svipað eins og þegar herinn kom hingað. Í upphafi var sagð að hann yrði hér aðeins á ófriðartímum. Á meðan það var USA hagfellt að hafa herinn hér gat hann alltaf bent á að það væri einhversstaðar ófriður í heiminum og því þyrfti herinn að vera áfram. Á sama hátt getur eftirlitsiðnaðurinn vafalaust alltaf bent á að það sé einhversstaðar að finna meint ójafnrétti og því þurfi að keyra iðnaðinn áfram undir fullum seglum. Mín skoðun er sú að það sé full þörf á því að efast um að jafnréttisiðnaðurinn gæti hagsmuna beggja kynja jafnt. Hann hefur allavega ekki sýnt það fram til þessa.
Ég minni á í því sambandi að jafnréttisiðnaðurinn hefur í engu fjallað um stöðu feðra við skilnaðarmál og hve erfitt þeir eiga í mörgum tilvikum með að fá umgengnisrétt við börn sín og hvað kerfið metur hlut feðra lítils. Því hefur í engu verið mótmælt að feður greiða móðurinni ætíð 100% meðlag enda þótt barnið dvelji langtímum saman á heimili föðurins. Sem betur fer hefur Dögg Pálsdóttir tekið þetta mál upp á Alþingi og er það löngu tímabært.
Ég minni á að karlmenn njóta ekki skipulagðar krabbameinsskoðunar eins og konur gera. Ekki ætla ég að draga úr mikilvægi þess að konur fái reglubundna krabbameinsskoðun en ég get ómögulega skilið afhverju karlar njóta hennar ekki einnig. Blöðruhálskrabbamein verður æ algengara hjá körlum og uppgötvast ærið oft alltof seint. Jafnrétti hvað?
Jafnréttisiðnaðurinn hefur í engu rannsakað hvað veldur sívaxandi brottfalli stráka úr framhaldsskólum. Það er bara eins og mönnum þyki það fínt að konur sé sístækkandi meirihluti þeirra sem útskrifast úr framhaldsskólum. Það er mjög fínt að konur afli sér staðgóðrar menntunar en ég vil fá að vita hvers vegna brottfall hjá strákum eikst sífellt. Af hverju líður alltof mörgum strákum svo illa í grunnskólanum að árangur af skólastarfinu verður lítill sem enginn og það gerist miklu frekar hjá strákum en stelpum? Við þessari spurningu og hinum fyrri fást engin svör enda þykja þau vafalaust óáhugaverð þar sem þær varða hagsmuni karlkynsins. Það sem virðist skipta mestu máli er að telja reglulega kynjahlutfallið í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi.

Engin ummæli: