Borgundarhólmur 2008
Það sat nokkur spenna í mér fyrir hlaupið á Borgundarhólmi. Ég taldi mig betur undirbúinn en í fyrra og hafði sett mér það markmið að sprengja 200 kílómetra múrinn. Hvort það tækist myndi svo bara koma í ljós. Reynslan af því að hafa farið áður í gegnum svona hlaup er einnig gott innlegg í þann banka sem þarf að vera tiltölulega vel birgur af innistæðum til að ljúka verkefninu með nokkrum sóma. Til að geta hlaupið á ákveðnum hraða í heilan sólarhring þá þarf maður að leggja upp ákveðna taktik, skipuleggja ýmsa hluti svo sem föt, skó og mataræði og síðast en ekki síst að vera viss um að það vanti ekkert af nauðsynlegum búnaði. Það væri pirrandi að vera kominn á hólminn og hafa gleymt einhverju heima sem myndi setja allt á annan endann.
Um morguninn áður en hlaupið byrjaði þá fór ég í bæinn og keypti mér staðgóðan mat. Ég hafði góða reynslu af því í fyrra að troða í mig miklum mat í aðdraganda hlaupsins og gerði það aftur nú sem best ég gat. Það var ekki eins hlýtt og í fyrra og dálítill gustur. Ég taldi samt sem áður rétt að vara í stuttbuxum. Það var nú einu sinni sumar. Hefðbundin smurning og ítarleg yfirferð yfir allt sem maður taldi sig þurfa á að halda er það síðasta sem maður gerir áður en lagt er af stað. Dótið í mismunandi pokum eftir því hvað er um að ræða. Næringu í einum poka, steinefni og vítamín í öðrum, föt í þeim þriðja og batterí og græjur í þeim fjórða. Maður má ekki sólunda tímanum í að fara að grafa eftir því sem vantar í pokum út um allt.
Þegar ég kom niður að markinu, sem var örstutt frá bústaðnum sem ég bjó í, ríkti þar mikil stemming. Það leit allt út fyrir að Grikkinn Kourosis myndi setja heimsmet í 24 tíma hlaupi í aldursflokknum 50 – 54 ára. Hann þeyttist áfram lokahringina á jöfnum hraða og náði settu marki við mikinn fögnuð nærstaddra. Þátttaka hans í hlaupinu gerði það að verkum að hlaupið fékk mun meiri athygli en ella og fjölmiðlamenn fjölmenntu á staðinn. Hann náði settu marki glæsilega og kláraði 266 km á 24 tímum en þá biðu aðrir 24 tímar því hann tók þátt í 48 tíma hlaupinu. Það hlytur að hafa verið erfitt að hafa farið í gegnum heilan sólarhring, ná þessum glæsilega árangri en eiga engu að síður eftir að þrælast í gegnum annan sólarhring. Margir hlauparanna voru með aðstoðarmenn með sér. Þar sem karlarnir voru í miklum meirihluta hlauparanna þá höfðu eiginkonur margra axlað það hlutverk að hafa allt klárt, elda mat, græja hlutum, búa um auma fætur og svo framvegis því að mörgu þarf að hyggja á langri leið. Vitaskuld er það kostur að hafa einhvern til aðstoðar á staðnum en þegar það er ekki fyrir hendi er bara að mæta með töskuna, telja í og gera sitt besta.
24 tíma hlaupið var ræst kl. 12.00 á laugardeginum. Ég hafði lagt hlaupið út þannig að ég ætlaði að leggja út með um eða yfir 10 km á klst og reyna að halda því eins lengi og ég gæti. Ef það gegni upp þá ætti ég að vera nokkuð öruggur með að sprengja 200 km múrinn. Það er hins vegar nokkuð varasamt að fara of hratt út á svona langri leið því ef maður dettur niður þá getur hægt það mikið á manni að öll plön fari út um þúfur. Þetta var nokkuð hraðara en í fyrra en þá fór ég rétt rúma 100 km á fyrri 12 tímunum. Það er hlaupið í skógargöngum sem eru ca 700 metra löng hvora leið og svo örstuttur spotti á milli þeirra. Skógurinn bæði skýlir manni fyrir vindi og eins fyrir sólinni ef hún er of sterk þannig að aðstæður eru góðar á margan hátt. Annar hluti stígsins er asfalteraður en hinn hlutinn er mjúkur skógarstígur þannig að það er góð fjölbreytni í undirlaginu. Skipt var um hlaupastefnu á sex tíma fresti til að minnka álagið á mjaðmir í hringnum.
Ég ákvað að hlaupa fyrstu 30 km án þess að stoppa en fara þá að ganga smáspöl á hverjum hring til að brjóta upp álagið. Ég var ekki alveg sáttur með líðanina til að byrja með. Mér fannst ég vera stirður og fann fljótt fyrir stífleika í lærunum. Ég skipti því fljótt í síðari stuttbuxur til að halda hita á lærunum því það var ekki sérstaklega hlýtt þó að það væri sól. Blásturinn kældi mann nokkuð niður. Eftir þrjá klukkutíma ákvað ég að fara í síðbuxur því mér leist ekki á hvað mér fannst ég stirðna fljótt. Þá fór mér strax að líða betur. Lærin mýktust og strengjavotturinn hvarf. Þá fór ég að ganga svona 100 metra á hverjum hring til að brjóta upp álagið. Það er innlegg inn á seinni hluta hlaupsins. Ég hafði ákveðið að brjóta eina meginreglu langhlaupara í þessu hlaupi sem er að vera ekki með tilraunastarfsemi í löngum hlaupum sem maður vill ná árangri í. Það var boðið upp á nóg af allskonar næringu í markinu en ég vildi láta reyna á hvernig Herbalife duftið kæmi út sem orkugjafi í svona hlaupi. Þetta á maður náttúrulega alls ekki að gera en ég ætlaði að láta á þetta reyna fyrir Spartathlon í haust, minnugur frammistöðu Grikkjanna á næringarsviðinu í fyrra. Ef Herbalifið klikkaði þá var það niðurstaða sem ég myndi ganga út frá í haust en ef það dygði þá var það gott. Ég hafði blandað á fjórar flöskur og ætlaði að láta hvern skammt duga í ca 5 klst.
Eftir ca fimm klst var ég farinn að lýjast ögn í fótunum og fékk mér fyrsta skammtinn af Herbalifeblöndunni. Það var dálítið merkileg upplifun að finna hvernig þreytan hvarf úr lærunum eftir smá stund og fæturnir mýktust allir upp. Lærin voru síðan eins góð og hægt var það sem eftir var hlaupsins. Ég fann hins vegar að 5 klst var of langur tími á milli þess að fá sér næringu svo ég stytti þann tíma niður í 3 klst. Annað borðaði ég ekki á meðan á hlaupinu stóð, nema ég maulaði í mig kartöfluflögur af og til til að fá smá salt. Ég tók electrolites töflur, C vítamín, Magnesíum og steinefnafreyðitöflurnar sem ég fékk frá Berki með reglulegu millibili. Ég fann aldrei fyrir votti af krampa eða sinadrætti, þrátt fyrir að saltútfellingin væri hreint svakaleg. Maður var allur hvítkrímóttur eins og saltstólpi.
Ég hlustaði á á útvarpið allan sólarhringinn. Það voru tvö mikil event á döfinni í Danmörku þennan sólarhring. Það voru úrslitakeppni Eurovision og konunglegt brúðkaup, þegar Jóakim prins giftist franskri kærustu sinni. Jörgen Mylius (sem er svona nokkursskonar Gestur Einar Jónasson þeirra dana) hafði ekki upplifað annan eins dag. Hann hélt út einu sex tíma löngu Eldorado þar sem vandlega var farið yfir þessa atburði og lýsti þeim eins og dönum er einum lagið.
Svo hélt hlaupið áfram, hring eftir hring. Nú voru hengdar upp upplýsingar um hlaupna vegalengd hvers og eins um það bil hálftíma eftir hvern heilan tíma. Þá hafði maður alveg kontrol á hvernig miðaði áfram. Í fyrra var tíminn uppfærður á tveggja tíma fresti sem var verra. Í markinu var einn kallari sem kallaði upp númer hvers og eins sem fór í gegn og svo sátu þar þrjár manneskjur sem krossuðu við á blöðum. Allt undir kontrol. Eftir þrjá klukkutíma hætti ég að fylgjast með stöðu annarra hlaupara en einbeitti mér að mínu verkefni, að ná yfir 200 km. Það að fara að miða sig við aðra gat ruglað mann þannig að ég sleppti því alveg. Einnig talaði ég ekki við neinn allt hlaupið á brautinni, nema rabbaði aðeins við félaga Eiolf einum tvisvar sinnum. Ef maður fer að tala við aðra þá fer maður oft að labba og það getur einnig ruglað taktinum í hlaupinu og maður getur freistast til að ganga meir en áætlað er. Svona rúllaði ég áfram á svipuðum takti, svona 13 hringi á hverjum tveimur tímum. Maraþonið kláraði ég á svona 4.10, á sex tímum fór ég 63 km, 100 km kláraði ég á svona 9.40. Ég skipti um skó og sokka kl. 21.30. Á tólf tímum fór ég 120 km. Allir þessir tímar voru betri en ég hafði náð áður nema í maraþoni. Það er ekki að marka í þessu samhengi. Manni finnst það vera nokkurskonar spretthlaup (eða þannig). Alla þessa tíma hefði ég getað bætt verulega því maður hleypur allt öðruvísi ef maður tekur allt innanúr sér á ákveðinni vegnalengd eða ef maður á eftir að hlaupa tvö til þrefalda þá vegnalengd sem maður klárar í hvert sinn. Ég sá þegar um 100 km að ég ætti að geta klárað 200 km markið ef ekkert sérstakt kæmi upp á og fór þá að hlaupa taktisk til að vera nokkuð öruggur með að ná settu marki. Fyrst maður gat farið 100 km á ca 10 klst þá hlyti ég að geta klárað aðra 100 km á 14 klst. Þegar ég var búinn að fara 130 km á 13 klst þá var ég nokkuð viss. 70 km á 11 klst á að vera nokkuð öruggt (7 – 9 – 13). Um þetta leyti fór að dimma og var orðið aldimmt uppúr kl. 21.00. Þá var brautin lýst upp. Maður sá á þessum tíma að það voru ýmsir sem höfðu tekið þátt í 48 tíma hlaupinu sem höfðu í raun ekkert að gera í seinni sólarhringinn. Menn röltu eða skjögruðu áfram og einstaka hálfmeðvitundarlausir að sjá. Það var ekki sérstaklega upplífgandi að hafa það fyrir augunum klukkutímum saman. Einn dani gekk allan tímann eða í 48 tíma. Hann var ansi röskur á ganginum en hann seig meir og meir út í hægri hliðina eftir því sem leið á hlaupið. Þarna voru eiginkonurnar betri en engar því þær gengu með körlunum klukkutímum saman og virtust ganga undir eiginmanninum í vissum tilvikum í þess orðs fyllstu merkingu. Tíminn frá miðnætti fram undir birtingu var nokkuð langur. Það birti um kl. 4.00 og þá tóku fuglarnir heldur betur við sér. Kl. 6.00 um morguninn fóru sex tíma hlaupararnir af stað og það er svolítið yfirþyrmandi eftir 18 klst hlaup að fá það framan í sig að nú séu sex tímar efir því það eitt er nógu langt út af fyrir sig. Ég þurfti að hlaupa heim í bústaðinn um kl. 5.00 til að sækja meira Herbalife. Það skýrir smá niðurfall í vegalengdinni þann klukkutímann. Annars taldi maður bara niður og klukkan tuttugu mínútur í tíu um morguninn var settu marki náð. Það var verulegur léttir svo þá fór ég það sem var eftir án þess að velta mikið fyrir mér heildarvegalengdinni. Ég var orðinn smá aumur í hægri kálfanum og vildi ekki þrælast mikið á honum ef það væri að gera um sig tognun. Lærin voru aftur á móti í fínu standi. Ég fann það einnig að ég hefði átt að vera með þrjú skópör því seinni skórnir sem ég skipti yfir á voru orðnir full harðir sem gerði það að verkum að maður varð dálítið sárfættur undir það síðasta. Ég gekk síðasta hringinn til að njóta stundarinnar. Norðmaðurinn, sem sigraði 24 tíma hlaupið, hljóp enn á fullu gasi, hár og laufléttur. Að lokum hljómaði lúðurinn og 217,7 km voru í höfn.
Að hlaupi loknu hittust menn í markinu og samglöddust yfir að þessi þrekraun var á enda runnin. Vitanlega var grikkinn Kourosis maður dagsins. Hann hljóp yfir 433 km á þessum tveimur sólarhringum og setti heimsmet fyrri sólarhringinn í sínum aldursflokki. Árangur margra annarra var einnig afar góður. Eiolf setti norskt met í 48 tíma hlaupi og daninn Lars Skytte Cristoffersen setti bæði danskt met og norðurlandamet í sömu vegalengd. Hann vann 24 tíma hlaupið í fyrra á ca 226 km. Ég sá að danskur maður, Vagn að nafni, hafði sótt að mér síðustu klukkutímana og hafði hann náð mér um kl. 11.00 en fram að því hafði ég lengst af verið í 3ja sæti. Ég hafði tekið því rólega síðasta klukkutímann svo ég bjóst við að hann hefði farið framúr mér hvað og kom á daginn. Það tekur hins vegar á að keyra sig út eftir svona langan tíma. Það tók dálítið langan tíma að ganga frá endanlegum úrslitum en upp úr kl. 13.00 var farið að afhenda verðlaun. Það var rétt búið að afhenda bikara fyrir 48 tíma hlaupið þegar maður sem stendur rétt hjá mér fer að riða og steypist síðan í götuna. Kona sem stóð við hliðina á honum greip í hann og dró þannig nokkuð úr fallinu. Engu að síður skall hann á ennið í asfaltið og blæddi nokkuð úr. Það varð vitaskuld uppi fótur og fit, manninum var hagrætt og hringt á sjúkrabíl og lögreglu. Hann rankaði við sem betur fer eftir skamma stund og settist upp, fékk að drekka og náði áttum á ný. Hann var ekki fluttur burt með sjúkrabílnum heldur tók á móti verðlaunum í 24 tíma hlaupinu. Þá var þetta daninn Vagn sem hafði farið fram úr mér á síðasta klukkutímanum. Þarna var mikil mildi að ekki varð af slysi þarna því hann hefði getað fengið verulega höfuðáverka ef hann hefði skollið í götuna af fullum þunga eins og munaði mjög litlu að gerðist.
Ég get ekki verið annað en ánægður með þetta hlaup. Það gekk allt upp sem ætlað var en það er ekki sjálfgefið. Ég var til dæmis samsíða svía á brautinni þegar lúðurinn gall og gaf merki um að hlaupið væri búið. Hann tók þátt í 48 tíma hlaupi enda vel harðnaður ultrahlaupari. Hann hafði bólgnað upp framan á öðrum fætinum. Hann taldi líklegast að hann hefði hert reimina á skónum of mikið en tekið of seint eftir því. Hlaupið fór þannig í vaskinn en hann kláraði rétt yfir 200 km á 48 tímum.
Daginn eftir rigndi eins og hellt væri úr fötu. Við þær aðstæður hefði allt farið í uppnám og hlaupið líklega flosnað upp. Svona getur þetta verið.
miðvikudagur, maí 28, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til hamingju með þennan frábæra árangur! Maður á eiginlega engin orð yfir svona afrek. Ég held að fólk, og þá ekki síst fjölmiðlar, geri sér enga grein fyrir því hversu einstakt þetta er!
Skrifa ummæli