þriðjudagur, maí 20, 2008

Ég er svo sem ekkert sérstakur íslenskumaður en maður reynir þó yfirleitt að tala þokkalegt mál. Alla vega reynir maður að vanda sig þar sem það á við svo sem þegar maður sendir frá sem texta sem ætlast er til að tekið sé mark á. Ég undanskil bloggið í því sambandi. Það er oft á tíðum hroðvirknislega skrifað enda iðulega gert í fljótheitum. Þegar maður vill svo virkilega vanda sig þá fær maður yfirlestur manna sem hafa gott auga fyrir íslensku máli því betur sjá augu en auga.

Í dag barst hingað inn auglýsing um háklassa veislu sem Hótel Holt stendur fyrir í byrjun júní. Þegar ég las hana þá fékk maður hroll af ákveðinni tegund. Dæmi hver fyrir sig.

Ágæti Ingibjörg Hinriksdóttir

Hotel Holt í samvinnu við Globus hf boðar til einstakrar
Winemaker´s veislu að frönskum eðalshætti

Chateau Cheval Blanc St Emilion
og
Chateau d´Yquem Sauternes

Hr. Pierre Lurton hinn aðlaðandi víngerðarmaður og stjórnandi
hvað virtustu vínhúsa heims, Chateau Cheval Blanc í St Emilion og Chateau d’Yquem í Sauternes verður sérstakur heiðursgestur og leiðir gesti í gegnum leyndadóma vínanna.

Friðgeir Ingi Eiríksson,matreiðslumeistari Gallerys og
fulltrúi Íslands í matreiðslumeistarakeppninni Bocuse d’Or árið 2007 ætlar ásamt
lærisveinum sínum að bjóða upp á magnaðan matseðil
er hæfir hinum fágætu vínum þessara stórkostlegu vínhúsa.

Þessi einstaka veisla fer fram að Hótel Holti, Gallery restaurant
fimmtudagskvöldið 5. júní og hefst kl. 19.30

Fyrstir koma fyrsti fá – pláss er takmarkað.

Frekari upplýsingar og borðapantanir
eru í síma 5525700 eða á gallery@holt.is

Verð kr. 35.000 á mann

Innifalið í verði:
Kampavín og canapé
4ja rétta hátíðarkvöldverður
Eðalvín þessara stórkostlegu vínhúsa
Kaffi og koníak/líkjör

Við vonum að þú sjáir þér fært að njóta stundar með okkur
að frönskum eðalshætti og fagna komu sumars.

Með kveðju
Hótel Holt

Ég renndi yfir þennan matseðil og setti niður eftirfarandi athugasemdir:

1. Ágæti Ingibjörg Hinriksdóttir (Svona senda veitingahús með klassa bara ekki frá sér).
2. .. að frönskum eðalshætti (Hvað er franskur „eðalsháttur“? Eðalsháttur er orðskrípi sem segir ekki neitt. Maður getur t.d. sagt .. að hætti franska aðalsins).
3. .. og stjórnandi hvað virtustu vínhúsa heims ( Hvað er þetta „hvað“ að gera þarna?).)
4. .. gegnum leyndadóma vínanna (Leyndardómar eru með „erri“).
5. .. þessara stórkostlegu vínhúsa (Maður segir ".. þessa stórkostlegu" eða "..frá þessum stórkostlegu vínhúsum" en ekki "þessara").
6. .. Fyrstir koma fyrsti fá (Þetta er eftir öðru).
7. .. 4ja rétta hátíðarkvöldverður (Hvað þýðir 4ja? Maður segir fjögurra rétta).
8. .. og fagna komu sumars. (Það er svo sem ágætt að fagna komu sumars rétt áður en sól fer að lækka á lofti ).

Miðað við þessa yfirferð um matseðilinn þá læðist að manni efi um að þarna sé á ferðinni vara sem sé 35 þúsund króna virði. Þegar verið er að bjóða hágæða vöru þá verður allt að vara af klassa sem nálægt henni kemur svo upplifunin sé peninganna virði.
Ergo. Hef ekki áhuga.

2 ummæli:

Ingibjorg sagði...

Takk fyrir að setja nafnið mitt við þessa vitleysu.
kv. IH

Nafnlaus sagði...

Nú þú sendir mér þetta. Hvað átti ég að gera???