föstudagur, ágúst 29, 2008

Æfingar inni í Laugum í dag og í gær. Ívar í 40 mín. Hraði upp í 6.6 í dag. Auðveldara í dag en í gær. Síðan er setið í sánu á eftir. Tek allnokkrar svona æfingar þar til verður farið út eftir rúmar 3 vikur. Vigtaði mig í dag á löggilda vikt í Laugum. Var slétt 79 kíló. Hef lést um nær 5 kíló síðan á vordögum og ekki verið svona léttur síðan ég man ekki hvenær. Vona að það skipti einhverju máli þegar á hólminn er komið.

Við Ingólfur leggjum í hann upp úr miðjum degi á morgun og hittum Stefán Viðar í Búðardal. Við gistum í Rauðsdal á Barðaströnd og leggjum svo upp kl. 9.00 frá Flókalundi. Það er gaman að því að þessi litla hugmynd sem ég fékk einhvern tíma í sumar skuli verða að veruleika. Kannski þróast hún áfram í annað og meira. Fyrri dagleiðin verður að Kletti í Kollafirði en þá er hún svona cirka hálfnuð. Þá klárum við Klettsháls sem er ansi drjúgur. Við fáum svo gistingu í Djúpadal en þar er bæði bændagisting og sundlaug. Samúel heitinn í Djúpadal náði því fram að fá borað niður á heitt vatn í hlíðarfætinum á móti bænum en þar vellur vatnið fram. Sagan segir að bormenn hafi verið orðið vonlitlir um árangur og sagst ætla að hætta að bora upp úr hádegi einhvern daginn. Hitinn var nægur en ekkert vatn. Samúel var þrjóskur og bað þá að bora fram yfir kaffi, hann skyldi borga það sem það kostaði. Um kaffileitið braust síðan 60 - 70 gráðu heitur lækur fram úr holunni og málið var í höfn.

Ég skoðaði heimsskrána í 24 tíma hlaupi í gær. Ég er í 47 sæti af 1353 körlum sem hafa hlaupið 24 tíma hlaup í ár og síðan hafa 5 konur hlaupið lengra. Alls hafa 276 konur hafa hlaupið 24 tíma hlaup í ár. Er sem sagt í 52 sæti á heimsskránni af 1629 hlaupurum þegar allt er talið. Ég sá einn pólverja sem var eldri en ég (fæddur 1950) sem hafði hlaupið lengra eða rúma 220 km. Hann er í 18 sæti á listanum. Næst koma Tékki í 72 sæti og Rússi í 76 sæti sem eru jafnaldrar mínir. Svo er Frakki í 120 sæti sem einnig er jafngamall mér. Við erum sem sagt fimm í heiminum sem höfum hlaupið yfir 200 km í 24 tíma hlaupi í ár og eru fæddir 1952 og fyrr. Annars voru þetta yfirleitt mun yngri menn sem voru í kringum mig á listanum. Það eru nokkur hlaup eftir í ár svo ég færist örugglega neðar en sama er, ég er ágætlega ánægður með stöðuna.

Slóðin er hér fyrir áhugasama:

http://statistik.d-u-v.org/overview_intbestlist.php

Mig langar til að komast til Osló í byrjun desember og hlaupa 24 tíma hlaup á Bislet. Þar er hlaupið innandyra og hringurinn er 540 km. Allt undir kontrol og engar áhyggjur af veðrinu. Þar er yfirleitt hlaupið nokkuð langt. Síðan freistar Brno í Tékkóslóvakíu í mars með sína 48 tíma. Svo er heimsmeistaramót í 24 tíma hlaupi haldið í Evrópu á næsta ári. Þarf að skoða það og sjá hvernig það passar inn í ýmis plön. Kemur allt í ljós 7 - 9 - 13.

2 ummæli:

Steinn Jóhannsson sagði...

Sé að undirbúningur gengur vel hjá þér Gunnlaugur. Varðandi þyngdina þá mun hún skipta máli í svona löngu hlaupi og það munar svo sannarlega um nokkur kg. Annars er staða þín á heimsafrekaskránni glæsileg og ég efast ekki um að þú getir farið enn ofar þar sem aukin reynsla skilar alltaf sínu.

Nafnlaus sagði...

Þú ert náttúrulega bara snillingur, dálítið klikkaður, en snillingur engu að síður. kv. IH