föstudagur, ágúst 15, 2008

Hef verið í tvo daga á Mostereyju rétt fyrir utan Stavanger. Hagdeildir norrænu sveitarfélagasambandanna hittast einu sinni á ári og í ár er það Noregur sem stendur fyrir vertskabet. Hef hlaupið túra um eyjuna morgna og kvöld. Það er fyrir utan að hreyfa sig, ágæt aðferð til að skoða umhverfið. Hér eru myndarlegir bóndabæir í nágrenninu. Rollugreyjunum er reyndar haldið í girðingum allt sumarið og er dálítið annað að sjá þær en stöllur þeirra heima sem geta gengið uppi á fjöllum sumarlangt. Að maður tali nú ekki um hvað lambakjötið er betra af frjálsum lömbum.

Norðmenn sýna frá Ólympíuleikunum í Kína allan sólarhringinn. Gaman að geta kíkt á ýmislegt þegar maður kemur inn á herbergið og á kvöldin. Náði að sjá leikinn við S-Kóreu í gær. Þar voru Íslendingar óheppnir að jafna ekki. Lukkan lék aftur á móti við Dani sem náðu að vinna Rússa í svakalegustu lokamínútum sem maður hefur séð. Það hefði tekið tíma að jafna sig ef íslenska liðið hefði átt í hlut, hvort sem það hefði sigrað eða takað. Norsku þulirnir halda rækilega með nágrönnum sínum þegar þeir lýsa handboltaleikjunum.

Eiður er búinn að græja öllu og kemur með til Grikklands. Það verður fínt að hafa fleiri með í þessari Bjarmalandsför. Nú fer næstsíðasta langa æfingin að nálgast en RM verður um aðra helgi. Þá verður að gera eitthvað af viti. Síðan stefni ég að því að fara helgina þar á eftir vestur á firði og hlaupa milli Flókalundar og Bjarkalundar á laugardegi og sunnudegi. Það er þó háð því að veðrið verði sæmilegt. Maður nennir ekki að þrælast þarna á milli í rigningu og roki.

Þegar fundinum er lokið nú um hádegið tek ég ferju frá Stavanger og fer með henni inn í Lysefjorden og verð tvær nætur í Predikstolhyttan. Predikstolen er yfir 600 m hár klettaveggur sem er eitt af mestu náttúruvættum Noregs. Mig hefur lengi langað til að sjá hann og taka myndir og nota tækifærið fyrst maður er á fundi í nágrenninu. Ég ætla að ganga og hlaupa þarna um fjöllin á laugardaginn. Fer síðan til Stavanger um miðjan dag á sunnudag og kem síðan heim á sunnudagskvöld.

Engin ummæli: