þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Ég hef ekkert minnst á handboltalandliðið og frábæran árangur þess að undanförnu. Betra er seint en aldrei. Það var stjórnarfundur hjá sambandinu þegar Pólverjaleikurinn stóð yfir og menn horfðu á hann með hljóðið lágt stillt og gengdu störfum sínum jafnhliða því að hafa annað augað á leiknum. En þegar korter var eftir geklk þetta ekki lengur og hljóðið var sett á fullt. Ótrúlegustu menn misstu sig í spenningnum og var ekki laust við að manni vöknaði um augu þegar lá ljóst fyrir að leikurinn um gullið væri klár. Nokkuð sem fæstir höfðu reiknað með fyrirfram. Það eru engar smá þjóðir sem skildar voru eftir. Enda þótt úrslitaleikurinn tapaðist fyrir firnasterku liði Frakka þá er árangurinn stórkostlegur. Tilfinningin er sú að andlegi þátturinn hafi ekki verið sístur í að fleyta liðinu svona langt. "Þú stekkur ekki lengra en þú hugsar" sagði vestfirska vinnukonan. Ef þú trúir ekki á að settu marki verði náð þá er eins gott að hætta strax.

Nú fylgist maður með veðurspánni á helginni. Á planinu er að hlaupa milli Flókalundar og Bjarkalundar á laugardag og sunnudag. Það verður bara gert ef veður er bærilegt. Maður getur notað tímann betur en að þrælast þarna um í rigningu og kulda. Gaman verður hins vegar ef þetta gengur upp. Þetta á að vera síðasta langa helgin fyrir Spartathlon. Næstu tvær vikur verða síðan notaðar fyrir svitahlaup inni, sánuæfingar og fleiri fíniseringar sem munu vonandi skila sér.

Fór til Daníels Smára í gær til að kaupa mér hlaupaföt. Þarf að merkja sum þeirra. Ætla að hlaupa í hvítum langerma bol ef verður mjög heitt til að verja skrokkinn fyrir hitanum eins og hægt er. Daníel veitti ríflegan afslátt í styrktarskyni og er honum hér með þakkað enn og aftur. Bæði skiptir svona lagað máli peningalega en hugarfarið skiptir ekki minna máli. Daníel Smári hefur styrkt hlauparasamfélagið á margan hátt betur með sínu litla fyrirtæki en ýmis önnur þótt stærri og öflugari séu.

Engin ummæli: