fimmtudagur, mars 19, 2009

Ég fór á bókamarkaðinn í Perlunni um daginn eins og lög gera ráð fyrir á vetri hverjum. Yfirleitt fer maður inn með góðum ásetningi um að kaupa ekki margar bækur og vanda valið vel en alltaf verður freistingin góðum áformum yfirsterkari. Sumt reynist vera góð kaup en annað miður eins og gengur. Ég hef verið að lesa eina síðustu daga sem ég hafði heyrt um en alldrei komist yfir fyrr en nú. Það er Fiskileysisguðinn eftir Ásgeir Jakobsson. Ásgeir var mjög gagnrýninn á vísindamennsku Hafrannsóknarstofnunar og með hvaða aðferðum þeir vinna. Stofnunin beitti fyrst og fremst þeirri aðferð við andsvör að þegja. Nú er ég ekki fiskifræðingur og hef verið mjög takmarkað til sjós. Ég þekki hins vegar vel til búfærði og almennrar skynsemi við fóðrun dýra. Það má vel vera að Hafró rökstyðji aðferðafræði sína með öllum þeim dýpstu rökum sem fyrir finnast og svari gagnrýni þannig með mikilli vísindamennsku. Engu að síður er það staðreynd að hafið skilaði okkur kringum 400 þúsund tonn af þorskafla áratugum saman. Var þorskkvótinn ekki kominn nipður í 130 þúsund tonn í fyrra eftir 25 ára uppbyggingarstarf? Ég man ekki betur. Mér finnst að í tilefni tuttugu og fimm ára afmælis veiðistjórnunar á Íslandsmiðum væri ekki úr vegi að Hafró héldi upp á afmælið með því að skýra út hvað hefði valdið þessari þróun. AÐ sama skapi væri gott að fá mat á hvort stofnunin legði mat á hvort hún teldi sig vera á réttri leið.

Það segir sig sjálft að þetta gengur ekki upp. Kunnugir menn segja manni að togararallið sé alltaf tekið á sömu slóðinni þrátt fyrir að miklar breytingar hafi átt sér stað í hita sjávar. Þorskurinn er einfaldlega ekki á sömu slóðum og áður. Niðurstöður togararallsins eru hins vegar ásamt fleiru lagðar til grundvallar kvóta hvers árs. Það er þekkt að ef fiskivötn eru ekki veidd hæfilega þá verða vötnin ofsetin. Næringin dugar ekki til og fiskurinn fær ekki nóg að éta. Til að hámarka afköst vatnsins verður alltaf að veiða ákveðið lágmarksmagn í því svo fiskurinn vaxi eðlilega. Það sama gildir með búfé á landi. Ef bithagar eru ofsetnir og lömbin léttast eða drepast úr hungri þá þýðir lítið að hætta að slátra og friða stofninn svo hann nái sér á strik aftur.

Ég ætla ekki að fella dóma yfir aðferðafræði Hafró, til þess skortir mig þekkingu. Á hinn bóginn er það mjög undarlegt að það skuli ekki vera nein umræða um að niðurstaða friðunarinnar skili minni og minni uppskeru. Ég hélt að markmiðið með öllu bramboltinu væri hið gagnstæða.

Engin ummæli: