sunnudagur, mars 22, 2009

SPRON og Sparisjóðabankinn fóru endanlega yfirum í gær. Þeirra saga var í sjálfu sér búin nokkru fyrr enda þótt loka höggið félli fyrst í gær. Það er svakalegt hvernig er búið að fara með gróið fyrirtæki eins og Spron. Spron var tilmargra ára vel rekinn og solid sparisjóður. Svo komust hrægammarnir þar innfyrir. það va rallrar athygli vert að heyra það að lang mest af útistandandi kröfu SPRON væri á hendur þrotabúi Baugs. Krimmarnir sem stýrðu því fyrirtæki virðast geta hafa gengið í banka og sparisjóði eins og þeir vildu og þurftu og tæmt þá. Þau fjármálafyrirtæki sem glæptust á að taka þá í viðskipti hafa lánað og lánað án nokkurrar yfirsýnar. Menn virðast hafa trúað því að Baugsliðið væri eins og konungurinn Mídas. Allt sem hann snerti varð að gulli. Það var gaman fyrst en endaði heldur illa þegar hann ætlaði t.d. að fá sér að borða.

Sparisjóðabankinn fór yfirum af áþekkum ástæðum. Þegar Seðlabankinn fór að draga við sig að lána stóru bönknum beint þá var litlu bönkunum beitt fyrir ækið. Þeir tóku lán hjá Seðlabankanum og lánupu það síðan áfram til fjárvana risanna. Þegar þeir hrundu sl. haust þá stóðu litlu bankarnir uppi með verðlaus veð. Spilaborgin hrundi með það sama.
Á íslenska ríkið og þar með skattgreiðendur lenda um 160 ma. kr vegna hruns þessara tveggja banka. Ég held að það hljóti að fara að draga að því að það verði farið að byggja nýtt fangelsi hér einhversstaðar. Það má svo sem spara flatskjáina.

Ég var eitt sinn staddur úti í Helsingfors á árunum 1992-1993 á fundi. Þá sá ég símanúmer félagsmálastofnunar auglýst á ljósaskiltum. Það hef ég aldrei sér fyrr né síðar. Ég man eftir því að ég sá í fréttum eitt hvöldið að það var verið að segja frá því að það var verið að loka bankaútibúi einhversstaðar í Finnlandi. Það var talað við grátandi fólk sem hafði unnið í útibúinu. Maður fékk á tilfinninguna að fólkið sæi fram á að fá jafnvel aldrei vinnu framar. Hver veit nema það hafi verið rétt mat. Maður getur ímyndað sér að það hafi verið álika stemming á starfsmannafundi SPRON í dag. Hver veit? Á þessum árum var um 18% atvinnuleysi í Fuinnlandi. Í sumum norðurhéraðanna voru starfsmenn sveitarfélagsins og barþjónar þeir einu sem höfðu vinnu.

Á laugardaginn þegasr ég var að hlaupa með Jakobi og Gauta þá stoppaði ég í strætóskýli vestur við Eiðistorg til að fækka fötum. Þá rak ég augun í risastórt plakat með arabiskum og íslenskum texta. Í íslenska textanum var verið að þakka því fólki sem skildi arabíska textann fyrir að hafa flutt til landsins og með því auðgað innlenda menningu, matargerð og ég veit ekki hvað og hvað. Þær er vafalaust að finna víðar og á öðrum tungumálum. Sú hugsun sem mér fannst liggja að baki þessari auglýsingu sló mig mjög illa. Hvað er verið að þakka erlendu fólki kærlega fyrir að hafa látið svo lítið að flytja hingað til lands? Hvaða hugsun liggur þarna að baki. Er íslenskt samfélag svo lítilsiglt að það þurfi að þakka kærlega fyrir ef einhver af erlendu bergi brotinn lætur svo lítið að setjast hér að. Ég hef búið erlendis. Svo er einnig um fjölmarga aðra. Fólk flytur milli landa í mörgum tilvikum í leit að einhverju betra en þeir búa við heima við. Oft er það námsframboð, í öðrum tilvikum er það vinna og betri möguleikar á að framfleyta sér. Ég hef litið svo á að það sé ekkert um það að segja að fólk setji sig niður í öðrum löndum en sínu heimalandi ef það getur framfleytt sér og samsamað sig siðum búsetulands. Ég hef hvergi séð það fyrr að móttökulandið eða aðilar sem eru fjármagnaðir af opinberu fé séu opinberlega að þakka aðfluttu fólki kærlega fyrir að hafa látið svo lítið að setja sig niður í landinu. Hvaða hugsun á bak við þetta og hvaða sjálfsvirðingu hafa þeir sem standa að svona auglýsingum? Hún hlýtur að vera ákaflega meðvituð. Ég ætla rétt að vona að peningar skattgreiðenda verði ekki settir framar í svona nokkuð. Nóg er nú samt.

Ég sat í smá starfshóp í janúar sem undirbjó frjálsíþróttamótið Reykjavík International. Þá var leitað eftir því við RÚV að þeir sýndu beint frá mótinu eins og þeir gerðu með sóma í fyrra. Þrátt fyrir miklar tilraunir þá var það ekki hægt. Viðbáran var niðurskurður og minni peningar. Allt gott um það. Í dag sá maður að það er ekki sama Jón og Séra Jóns. Það var bein útsending frá landsleik í fótbolta þar sem B landslið Íslands tapaði fyrir B landsliði Færeyja. Hverjum dettur í hug að hafa beina útsendingu frá vináttulandsleik B liða þegar lögð er áhersla á aðhald og niðurskurð í kostnaði hjá RÚV? Í Færeyjum búa um 50 þúsund manns eða eins og í Kópavogi og Hafnarfirði. Tveir þeirra leika erlendis og þar af annar á Íslandi. Það eina góða við beinu útsendinguna var að sjá sjálfumglaða stráktitti tekna í bakaríið af baráttuglöðum Færeyingum sem unnu verðskuldaðan sigur.

Vikan var fín. Hún endaði næstum óvart sem ein af þeim lengri. Mánuðurinn er orðinn sá þriðji lengsti ever og samt 10 dagar eftir. Allt er fínt og hlaupin létt og auðveld. Fór stærstan hluta gærsagsins með Gauta. Það eru alltaf krefjandi hlaup því Gauti hefur góða yfirferð. Fínt að fá pressu á sig.

48 tíma hlaupið í Brno í Tékkóslóvakíu var um helgina. Ég var fyrr í vetur að velta fyrir mér að fara á það en fannst það of snemma. Kosturinn við það er að það er inni en ókosturinn er að það er hlaupið á steypu. Tékkinn Dan Oralek vann hlaupið í ár á 366 km sem er ein stysta vegalengdin frá upphafi. Í fyrra vann Kurosis það á 406 km. Þarna voru nokrir sem ég kannast við. K.G. Petterson, Kjell Ove Skoglund, Cristian Ritella og Geir Frykholm voru þarna meðal annarra. Þeim gekk ekkert sérstaklega vel í ár. Cristian Ritella, sem var besti norðurlandabúinn í ár, hljóp 202 km fyrri sólarhringinn en 108 þann seinni. Steypan er hörð og tekur í. Kosturinn við Borgundarholm að þar er hálfur hringurinn á möl en ókosturinn er að þetta er útihlaup. Það getur nefnilega rignt. Ég er mikið að velta fyrir mér hvernig ég á að leggja upp hlaupið. Það er hægt á tvo vegu. Vera rólegur fyrri sólarhringinn og taka kannski 160-170 og vera svo í 130-140 seinni daginn. Hinn valkosturinn er að taka grimmt fyrri daginn með yfir 200 km og taka svo slaginn seinni sólarhringinn og böðlast áfram með það að markmiði að fara yfir 300 km að lágmarki.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú þakkar mér iðulega fyrir innlitið þegar ég skrifa athugasemdir á síðuna þína. Amma mín þakkar mér undantekningarlaust fyrir komuna þegar ég kíki til hennar.

Ég hef aldrei talið þetta til marks um lélega sjálfvirðingu. Frekar dæmigerða íslenska kurteisi eða gestrisni. Íslendingar vilja jú að fólki finnist það velkomið þegar það stoppar við. Hvort sem það staldrar stutt eða lengi við. Tala nú ekki um ef gesturinn tekur til hendinni á meðan dvölinni stendur.

Einhvers staðar kom fram að auglýsingarnar, sem lögðust svona illa í þig, hefðu mestan part verið unnar í sjálfboðavinnu af fólki sem er ánægt með þá breytingu sem orðið hefur á íslensku samfélagi síðustu ár, að hér gæti áhrifa fjölbreyttari menningar en áður.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Mér finnst alltaf þakkarvert þegar fólk vill diskútera eitthvað á málefnalegum nótum. Nóg er nú um allskonar hýenur sem gjamma nafnlausar úr felum en þora ekki að koma fram í dagsljósið.
Skilaboðin á þessum plakötum virkuðu afar heimóttarlega á mig og sýna að mínu mati mjög vel útnesjamennskuna sem virðist vera mjög rótgróin hérlendis. Það má t.d. ekki svo erlendur maður stíga hér á land svo hann sé ekki orðinn sérstakur Íslandsvinur. Þetta er svipað eins og vinnuveitandi sé sífellt að þakka starfsfólkinu alveg sérstaklega fyrir að vilja láta svo lítið að vilja vinna hjá sér. Ef maður flytur erlendis frá upprunalandi til annars lands er það væntanlega vegna þess að manni líður betur þar en í sínu gamla landi. Ef einhver ætti að þakka einhverjum þá ætti þakklætið þannig ekki síður að vera öndvert. Best er vitalaust að það ríki gagnkvæm virðing milli aðila. Sá tónn er hins vegar ekki sleginn með svona uppslætti og mér er nákvæmlega sama hvort handverkið er unnið í sjálfboðavinnu eða ekki. Gaman væri síðan að vita hver kostar sjónvarpsauglýsingar í sama dúr.
Gunnlaugur