miðvikudagur, mars 11, 2009

Þetta var dagur hinna stóru atburða. Í fyrsta lagi féll Baugur og í öðru lagi féll formaður VR.

Baugur skuldar 150 milljarða umfram eignir. Slíkt fyrirtæki er margfaldlega fallítt. Það er annaðhvort dæmi um að viðkomandi hafi ekkert skynbragð á samhengi milli reksturs og efnahags ef það er talið mögulegt að bjarga slíku fyrirtæki. Í öðru lagi getur það verið inni í dæminu að framlenging á greiðslustöðvun geti gefið eigendum tækifæri til að taka enn frekari eignir út úr fyrir tækinu en þegar hefur verið gert. Fyrirtæki sem byggir útþenslustefnu sína og gríðarlegar fjárfestingar eingöngu á lántöku spennir bogann svo svakalega að það má ekkert út af bera. Kúlulán eru voðalega skemmtileg þar til kemur að gjalddaganum. Þá var módelið að taka nýtt kúlulán til að greiða hið eldra. Þetta gekk á meðan aðgangur að lánsfé var lítt takmarkaður en svo fór að versna í því. Lán til að greiða þau gömlu fengust ekki lengur. Þá hrundi spilaborgin. Nú leiggur ekkert annað fyrir en að ná í þau fyrirtæki sem hafa verið seld út úr Baugi innan þess tíma sem slíkir samningar eru riftanlegir. Í annan stað þarf að brjóta upp þau heljartök sem Baugsliðið hefur á íslenska smásölumarkaðnum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt að hægt hafi verið að steypa saman milli 60 og 70% af smásölumarkaðnum undir einn hatt og kerfið hafi ekkis éð neina meinbugi á slíku gimmikki. Meir að segja Microsoft var skipt upp vegna markaðsráðandi stöðu á markaðnum. Hérlendis eru menn bara eins og vitleysingar.

VR, hið óvinnandi vígi, féll í dag. Sitjandi formaður fékk einungis um 28% atkvæða þegar félagsmenn greiddu atkvæði í formannskjöri. Þrátt fyrir að hann fengi tvo á móti sér með tilheyrandi dreifingu atkvæða þá varð fráfarandi formaður neðstur í kosningunni. Það segir sína sögu um viðhorf félagsmanna til forystunnar. Í stjórn voru einnig kjörnir menn sem hafa haft uppi harða gagnrýni á framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs VR. Þrátt fyrir að hann hafi um 30 milljónir í laun á ári þá þurfa þeir sem greiða í lífeyrissjóð VR að greiða bensínið á bílinn sem VR leggur honum til eftir því sem maður heyrir. Mér segir svo hugur um að fleiri en einn innan þessara raða þurfi að fara að svipast um eftir pappakössum á næstunni.

Lífeyriskerfið er náttúrulega kapítuli út af fyrir sig. Ætli séu ekki starfandi nú yfir 30 lífeyrisjóðir á landinu. Þó hefur þeim fækkað verulega. Bara svo það sé á hreinu þá búa ekki nema rúmlega 300.000 einstaklingar í landinu. Vinnandi einstaklingar voru um 180.000 þegar allir höfðu vinnu. Það eru þá um 6.000 vinnandi einstaklingar að jafnaði á bak við hvern lífeyrissjóð. Ruglið í lífeyrissjóðunum var svo gengdarlaust hér áður að það er varla hægt að tala um það. Sem dæmi má nefna að vörubílstjórar í rúmlega 2000 manna þorpi stóðu fyrir eigin lífeyrissjóð með framkvæmdastjóra, skrifstofu og alles. Yfir 30% af iðgjöldum fóru í rekstrarkostnað. Þetta lét fólk yfir sig ganga annað hvort vegna afskiptaleysis eða fáfræði.

Eitt er maður að heyra sem er vægast sagt diskútabelt ef satt er. Ég hef ekki kynnt mér það frá fyrstu hendi en heyri að verðbætur á peningalegar eignir (inneign í banka) verði dregnar frá greiðslu tryggingarbóta Tryggingastofnunar hjá ellilífeyrisþegum og öðrum sem slíkar greiðslur fá. Verðbætur er trygging fyrir því að maður fái sama verðmæti til baka og maður lét af hendi til lánþega. Í 18% verðbólgu fær maður sama verðmæti tilbaka ef 18% verðbætur reiknast ofan á höfuðstólinn. Ef vextir eru hærri en verðbólga þá er mismunurinn raunvextir. Ef verðbólga er 0 þá fær maður engar verðbætur. Ég trúi því ekki að verðbólgan sé orðin tekjustofn fyrir ríkisvaldið að þessu leyti. Sama er ef fjármagnstekjuskattur reiknast ofan á verðbótaþáttinn. Ef að þetta er rétt þá lækka útgreiðslur Tryggingastofnunar eftir því sem verðbólgan er hærri. Það á vitaskuld einungis að reikna raunvexti sem tekjur til frádráttar tryggingabótum og sem stofn að útreikningi fjármagnstekjuskatts. Þarf að skoða þetta til hlýtar.

Við fórum fjögur í ljósmyndaferð með Pálma Guðmundssyni um þar síðustu helgi. Tekinn var rúntur um Reykjanesið í frábæru veðri. Við stoppuðum við Kleifarvatn, í Krísuvík, á Þórkötlustöðum og í Bláa Lóninu. Þegar heim var komið tók Pálmi myndirnar og gangrýndi þær. Fínt upplegg. Manni fannst heldur leiðinlegt að koma í Krísuvík. Krísuvíkin er mjög fjölsóttur staður af ferðamönnum, erlendum sem innlendum. Engu að síður var ásýndin heldur draslaraleg. Drasl úr úr borholu lá út í læk, rafgeymir gægðist út úr moldarbarði, margir plankar í göngubrautum voru brotnir og þannig mætti áfram telja. Hver ætli beri ábyrgð á Krísuvíkinni?

Engin ummæli: