sunnudagur, mars 15, 2009

Hlaupin á laugardaginn fóru í vaskinn að mestu leyti. Ég vaknaði snemma en þá var skítaveður og ekki fýsilegt að fara út. Ég fór því að sofa aftur. Þegar veðrið fór að skána var öðrum hnöppum að hneppa. Ég komst svo aðeins út seinnipartinn.

Strákarnir í 2. flokk hjá Víking spiluðu við kollega sína frá Akureyri undir kvöldið. Þeir byrjuðu leikinn ekki fyrr en um 10 mínútur voru liðnar af honum. Þá höfðu Akureyringar skorað 7 mörk en Víkingar aðeins 1. Akureyringar voru þrisvar í leiknum sex marka forskot en þegar korter var eftir fóru Víkingar að gera sig gildandi. Þeir náðu að jafna leikinn en vantaði herslumuninn til að landa sigri. Því töpuðu þeir með tveggja marka mun. Leikir vinnast ekki nema að þeir séu spilaðir í sextíu mínútur en ekki einungis í fimmtíu mínútum eða þaðan af minna.

Í gærkvöldi var boð hjá Ívari Ragnarssyni frá Brjánslæk og og Sesselju konunni hans. Þau söfnuðu saman barnabörnum afa og ömmu frá Melanesi. Þessi hópur sést alltof sjaldan og þá einna helst við jarðafarir og afmæli eins og gengur. Það var vel mætt og mjög gaman að hitta hópinn. Margt bar á góma og rifjaðar upp ýmsar gamlar sögur.

Ég bætti laugardaginn upp í morgun. Fór út á seinni hálftímanum í sjö og kom heim um 12 leytið. 54 km lágu. Fyrsta alvöruhlaup vetrarins.

Ég hlusta oftast á Sigurð G. og Guðmund Ólafsson á Útvarpi Sögu á sunnudagsmorgnum. Um margt er ég þeim sammála og finnst fróðlegt að heyra þá fara yfir þjóðmálin og á stundum með aðstoð gömlu konunnar í Keflavík. Ég var þó algerlega ósammála þeim í einu atriði í morgun. Þeir voru að fjargviðrast yfir því að vegabréfslausu fólki frá Eistlandi og Lettlandi skyldi vera vísað úr landi hér til síns heimalands þar sem það hefur takmörkuð réttindi.

Þetta er fólk af rússnesku bergi brotið. Það var flutt til þessara landa í stórum stíl á meðan Eystrasaltslöndin voru undir áhrifasvæði Ráðstjórnarríkjanna. Sovétmenn beittu þeim svívirðilegu aðferðum að hauga sínu fólki inn í Eystrasaltslöndin í þeim tilgangi að þurrka hinar innfæddu þjóðir út með tíð og tíma. Þegar löndin fengu sjálfstæði þá kom bakslagið. Fólk af rússnesku bergi brotið var gert að annars flokks borgurum. Rússar komu náttúrulega fram af lítilmennsku við þetta sama fólk og leyfu því ekki að flytja til baka til Rússlands. Það er því læst inni í slæmri stöðu. Það er alveg ljóst að það er í besta falli barnaskapur og í versta falli heimska að halda að íslendingar geti leyst þessi vandamál þjóða sem eru mörgum sinnum fjölmennari en við. Ef íslendingar fara að fara á svig við þau lög sem gilda og veita þessu fólki undanþágur af mannúðaraðstæðum þá mun það vitaskuld þyrpast hingað til að fá fullgild vegabréf. Málin eru einfaldlega þannig að við getum ekki leyst allt heimsins ranglæti.

Maður getur ekki annað en vorkennt sýslumanninum fyrrverandi sem situr við fjórða mann og hefur tekist það verkefni á hendur að rannsaka bankahrunið. Þegar hann óskar efir gögnum þá segir FME að yfir upplýsingum frá bönkunum hvílir bankaleynd. Common. Á ekki einmitt að rannsaka bankana? Hvað er verið að fela? Dómsmálaráðherra segir að gengið verði í málið og leyst úr þessu. Það er vonum seinna.

Skoðanakannanir segja að fjórflokkurinn muni standa föstum fótum. Fjölmiðlar hamra einnig á þessu. Tvennt segir manni að það mat geti verið rangt. Í fyrsta lagi er þátttaka í prófkjörum víða lítil og niður í mjög lítil. Það segir manni að margir sem áður tóku þátt í prófkjörum eru ekki að gera það. Í öðru lagi er þáttaka í skoðanakönnunum ekki meiri en svo að það er ljóst að margir eiga eftir að gera upp hug sinn. Það getur margt gerst á næstu vikum.

Engin ummæli: