mánudagur, apríl 13, 2009

Ég frétti af Neil í Parísarmaraþoninu í byrjun apríl. Hann hljóp á 2.42 sem er frábær tími af Ironman sérfræðingi eins og hann er. Hann ætlar að fara í Comerades í Suður Afríku í maí lok. Hann ætlar náttúrulega ekki að gera neitt venjulegt þar frekar en hann er vanur. Hann ætlar að hlaupa Comerades fram og til baka (180 km) sem er svona 30 klst prógram fyrir venjulegan mann. Hann ætlar að fylgja breskri konu spölinn en hún stefnir að því að verða fyrsta breska konan sem fer fram og til baka. Ég er farinn að hugsa um Comerades á næsta ári en það yrði þá vonandi síðasta af hinum fjórum klassísku ultrahlaupum í heiminum.

Þetta er flott að hlaupa klassískt maraþon á um 2.40 en að hlaupa trailmaraþon á undir 3 klst eins og sá gerði sem vann síðasta legginn í Maraþon De Sables um daginn, það er náttúrulega magnað. Leiðin var að sögn ekki mjög mishæðótt en hlaupið í sandi, grjóti, árfarvegum og annarskonar eyðimerkurlandslagi. Því er það magnað að klára maraþonið undir 3 klst.

Tími og árangur í ultrahlaupum er mjög afstæður. Það er erfitt að bera saman styrkleikastig hlaupa af sömu vegalengd og þar af leiðandi árangur. Einnig er erfitt að bera árangur í sömu hlaupum milli ára. Í löngum hlaupum sem eru 100 km, 100 mílur eða þaðan af lengra ræður veðrið svo gríðarlega miklu um árangur. Hitastig, vindur og úrkoma geta verið afgerandi þættir. Mér finnast tveir mælikvarðar gefa hvað skásta hugmynd um árangur í löngum hlaupum. Erfiðleikastuðul hlaupa má meta af því hve hátt hlutfall af heildartíma hlaups það tekur fyrsta mann að ljúka hlaupinu.
Nefna má nokkur dæmi:

Þegar ég hljóp Western States hlaupið árið 2005 þá tók það Scott Jurek 16 klst og 40 mín að ljúka hlaupinu. Hámarkstími er 30 klst. Hann notaði því um 55% af heildartíma hlaupsins. Í Grikklandi í haust sigraði Scott Jurek á 22 klst og 20 mín. Hámarkstími til að ljúka hlaupinu er 36 klst. Hann notaði því um 62% af heildartíma hlaupsins til að ljúka því. Maður getur því dregið þá ályktun að tímamörkin í Spartathlon hlaupinu sé mun erfiðari en í Western States.

Hver frammistaða manns sjálfs er hægt að marka af því hve maður er hlutfallslega lengri tíma að ljúka hlaupinu en sigurvegarinn.
Í Western States lauk ég hlaupinu á 26 klst og 14 mín. Ég notaði 59% meiri tíma til að ljúka hlaupinu en Scott Jurek. Í Grikklandi lauk ég hlaupinu á 34 klst og 12 mín. Ég notaði þar 54% meiri tíma til að ljúka hlaupinu en sigurvegarinn Scott Jurek. Ég hef því staðið mig heldur betur í Grikklandi en í Western States.

Svona er hægt að setja upp einfaldan mælikvarða erfiðleikastuðul hlaupa á annars vegar og hins vegar á eigin frammistöðu.

Í tímahlaupum er útreikningnum snúið við. Þá er reiknað út hve sú vegalengd sem maður hleypur á ákveðnum tíma (6 klst, 12 klst, 24 klst eða 48 klst) er í hlutfalli við vegalengd sigurvegarans.

Myndin sem var gerð um Spartathlonhlaupið er komin á vefinn. Ég læt link á hana hér með. Hún er rúmlega klukkutíma löng. http://video.google.com/videoplay?docid=-1348724694600406809 Ef áhugasamir hafa tíma til að renna yfir myndina þá lýsir hún ágætlega andrúmsloftinu dagana fyrir hlaupið, í hlaupinu og eftir það. Gaman að rifja þetta upp.

Engin ummæli: