föstudagur, apríl 17, 2009

Trans Europe Footrace 2009 hlaupið byrjar á sunnudaginn. Hlaupið hefst í Bari á suður Ítalíu og endar tveimur mánuðum seinna á Nordkalotten sem er nyrsti oddi Noregs. Samtals er leiðin um 4500 km og eru því hlaupnir um 70 km á dag að meðaltali. Það er aldrei tekinn hvíldardagur. Það hafa komið upp ýmis vandkvæði á síðustu metrunum áður en lagt er af stað. Lögreglan hefur afturkallað leyfi til að hlaupa um ákveðnar leiðir sem ætlað var að fara um og síðan þarf að útvega nýja gististaði í framhaldi af því. Einhversstaðar þarf að sofa í tjöldum. Keppendur mega að hámarki hafa með sér farangur sem nemur 30 kílóum. Það er ekki mikið fyrir tveggja mánaða úthald. Á leiðinni slíta hlaupararnir upp ca sex skópörum.
Samtals taka 69 einstaklingar þátt í hlaupinu í ár, 57 karlar og 12 konur. Þrír kunningjar mínir frá Skandivaníu taka þátt í hlaupinu í ár, þeir félagar frá Mjösen í Noregi, Eiolf og Trond og svo Mattias Bramstång frá Svíþjóð. Félagi hans úr sænska hernum, Andreas Falk, tekur einnig þátt í hlaupinu. Ég hef hins vegar aldrei hitt hann. Á vefnum www.jogg.se er hægt að fylgjast með hvernig gengur hjá þeim félögum. Blogg Mattiasar er www.bramstang.se/ og blogg Andrasar er www.andreasfalk.se/
Það var gott viðtal við þá félaga í sænska morgunsjónvarpinu nýlega. Slóðin á það er hér: http://svtplay.se/v/1518251/gomorron_sverige
Andreas hefur stúderað sérstaklega hvernig á að bregðast við blöðrum og sárum fótum. Það gefur að skilja að það er lykilatriði í svona löngu hlaupi að halda fótunum eins góðum og frekast er mögulegt.
Heimasíða hlaupsins er www.transeuropalauf.de/tel_09/
Trond Sjövik heldur einnig úr bloggsíðu. Hún er www.europaloper.blogspot.com/ Hann er kominn til Bari og Eiolf líklega sömuleiðis.
Þessir kappar hafa lagt að baki ýmsar þolraunir á leiðinni að þessu mikla verkefni. Trond hefur hlaupið þrisvar sinnum þvert yfir Frakkland og einu sinni yfir Þýskaland. Eiolf hefur lokið Spartathlon hlaupinu sex sinnum í sjö tilraunum. Hann hljóp 345 km í 48 tíma hlaupinu á Borgunarhólmi í fyrra. Mattias hefur lokið Spartathlonhlaupinu tvisvar sinnum. Hann hljóp einnig Frakklandshlaupið í fyrra og tók þátt í 48 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi með 302 km uppskeru. Andreas hljóp milli Gautaborgar og Stokkhólms á fimm dögum án nokkurs stuðnings og einnig hefur hann hlaupið 48 klst hlaup á hlaupabretti svo annað dæmi sé nefnt. Það verður gaman að fylgjast með þeim félögum næstu tvo mánuðina. Þetta er alvöru.

1 ummæli:

BreoganGal sagði...

hi
1-new section in English.
will be expanded shortly.
2 - Do I want to exchange links between our blogs?
greetings