miðvikudagur, apríl 15, 2009

Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með umræðuna á sjónvarpsfundunum sem sýnt hefur verið frá að undanförnu. Stjórnendurnir gerðu þó heiðarlega tilraun í gærkvöldi til að fá menn til að svara því sem þeir voru spurðir að en láta þá ekki komast upp með að svara allt öðru út og suður sem ýmsir hafa komist allt of auðveldlega upp með. Tíminn er ekki nýttur of vel. Mér finnst þessi fréttaskýringaþáttur í upphafi alveg mega missa sig því flestir þekkja þetta allt af fréttum. Þeir sem þekkja ekki um hvað málið snýst nú þegar átta sig varla á því úr þessu.
Gæðakröfur til þeirra sem koma með spurningar eru alltof slakar. Langlokur spyrjenda eru of margar og síðan er ekki gott að koma með spurningar til allra frambjóðenda. Það tekur einfaldlega of langan tíma að láta öll sjö framboðin koma með svar hvert fyrir sig við einni og sömu spurningunni.

Síðan hefur mér fundist vanta sárlega að það örlaði á leiðtoga meðal þeirra sem hafa komið fram til þessa. Kannski gerir maður of miklar kröfur en sama er, það sem almenningur þarf á að halda á þessum tímum er forysta, ekki lýðskrum.

Ég fór á námskeið í endurmenntun Háskólans í kvöld. Jóhann Óli Hilmarsson fuglaspecialist er með þriggja lotu námskeið í fuglaljósmyndun. Í kvöld varfarið í grunninn, á laugardaginn verður farið út á akurinn að mynda og síðan verður farið yfir afraksturinn þann 29. apríl. Það er alltaf gaman að setjast niður í hóp sem hefur áþekkt áhugamál undir leiðsögn reynslubolta eins og Jóhanns Óla. Nú er fuglatíminn að byrja fyrir alvöru.

Maður vissi ekki hvað gekk á í dag þegar lögreglan vísaði nokkrum krökkum út úr húsi í miðborginni sem þau höfðu ruðst inn í fyrir helgina og hreiðrað þar um sig. Ég sá á Vísir.is í dag að af 20 fréttum sem eru vanalega á forsíðunni voru 12 um þetta einstaka tilvik. Hvaða rugl er þetta? Var þetta einhver heimsviðburður? Maður fékk reyndar á tilfinninguna við að hlusta á óðamála fréttamenn spyrja hústakana spjörunum úr að þeim fyndist að það væri eitthvað svona "erlendis" að gerast í Reykjavík. Þeir virtust varla ráða sér fyrir spenningi.

Phil Spector var fundinn sekur um morð í gær. Hann hefur verið gufuruglaður í yfir 20 ár af brennivíni og dópi og þetta var endapunktur sem kom kannski ekki svo mikið á óvart. Engu að síður er fróðlegt að renna yfir jukebox Phils. Þar kemur ýmislegt kunnuglegt í ljós.

Engin ummæli: