þriðjudagur, apríl 07, 2009

Ég hef ekki enn skilið pointið í 20% niðurfellingu skulda á línuna. Ég get vel skilið að í einhverjum tilvikum þurfi að við hafa sértækar aðgerðir en í öðrum tilvikum er það bara tómt bull. Ég get bara best tekið mið af sjálfum mér. Ég skulda dálitla fjárhæð hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna (LSR). Ég get borgað hana til baka miðað við þær forsendur sem lánið er tekið við. Ég hef ekki beðið um neina niðurfellingu. Lífeyrissjóðurinn lánar mér þessa peninga því hann þarf að láta lífeyri fólksins vinna. Hann hagnast því eitthvað á því að lána mér. Á sínum tíma eru þessir peningar notaðir til að greiða einhverju fólki lífeyri. Ef ég þyrfti ekki að borga 20% lánsins til baka þá yrði lífeyrissjóðurinn fyrir fjárhagstapi að óþörfu. Hvaðan fengi hann þann skaða uppiborinn? Líklega úr ríkissjóði. Það yrði ekki gert annað með þá peninga? Þarna myndi LSR tapa peningum að ósekju ef þessi niðurfærsluleið yrði viðtekin. Svo er sagt að hún kosti ekki neitt? Það er grundvallaratriði í þessu tilviki eins og öðrum álíka að flatar aðgerðir eru yfirleitt þær óskynsamlegustu. Það þarf að viðhafa sértækar aðgerðir sem beinast að þeim sem hægt er að bjarga en ekki flatar aðgerðir sem beinast bæði að þeim sem þurfa á þeim að halda og einnig þeim sem þurfa ekkert á þeim að halda.

Ég sá þann misskilning koma upp í stjórnmálaumræðum í gær að Ísland gæti ekki fengið inngöngu í Evrópusambandið vegna þess að það uppfyllti ekki nauðsynleg skilyrði. Það er grundvallarmisskiliningur. Ísland gæti gegnið í Evrópusambandið á morgun ef samningar næðust. Á hinn bóginn getur Ísland ekki fengið inngöngu í myntbandalagið nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er frumskilyrði að þeir sem ætla sér að vera leiðbeinandi fyrir aðra um hvaða leið á að velja í þessu sambandi hafi lágmarksþekkingu á því sem þeir eru að tala um.

Engin ummæli: