þriðjudagur, apríl 14, 2009

Mér finnst ágætt að Borgaraflokkurinn sé að ná vopnum sínum samkvæmt skoðanakönnunum. Ekki að ég ætli að hann geri einhver kraftaverk en ég held að Alþingi hafi gott af því að fá svona andstöðuflokk inn á þingið. Umræðan verður öðruvísi og ekki sama elskuvinasamfélagið eins og hefur verið á margan hátt. Skoðanakannanir þær sem framkvæmdar eru þessa dagana eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Það virðist oft á tíðum að þeir sem geri skoðanakannanir hafi enga hugmynd um hvaða lágmarkskröfur eigi að kera til framkvæmdar á svona könnunum til að nið'urstaðan segi eitthvað af viti. Oft sér maður því haldið fram að því stærra úrtakið sé því marktækari séu niðurstöðurnar en svarhlutfallið skipti ekki öllu máli. Þessu er akkúrat öfugt farið. Svarhlutfallið skiptir öllu máli um hve marktækar niðurstöðurnar eru. Einnig varðar miklu hvaða aðferðafræði er notuð. Kannanir þar sem hringt er í ákveðinn símanúmerafjölda og þeir spurðir sem svara eru verstar. Kannanir á að gera þannig að úrtak úr þjóðskrá er gert eftir ákveðnum aðferðum og síðan er reynt að ná í sem hæst hlutfall þeirra sem lenda í úrtakinu. Ef svarhlutfallið er yfir 80% er niðurstaðan skotheld. Ef niðurstaðan er á milli 60 og 80% gefur hún ákveðnar vísbendingar og því sterkaris em þær liggja nær 80%. Ef svarhlutfallið er undir 60% þá er varla hægt að lesa mikið úr niðurstöðunum því þá eru 30-40% heildarinnar sem maður veit ekkert um. Hérlendis hefur maður séð dæmi um að það er verið að túlka niðurstöður úr skoðanakönnunum þar sem svarhlutfallið hefur verið undir 50%. Allir sem hafa eitthvað lært í úrtaksfræðum vita að það er hreint bull sem út úr því kemur. Framkvæmd skoðanakannana og túlkun niðurstaðna skiptir máli því niðurstöðurnar eru skoðanamyndandi. Sá sem kemur illa út í skoðanakönnunum á minni möguleika á að rífa sig upp því það er búið að stimpla hann sem tapara. Síðan ætti að banna skoðanakannanir a.m.k. í eina viku fyrir kjördag.

Engin ummæli: