þriðjudagur, janúar 10, 2006

Eins og dagurinn hófst á venjulegan hátt þá varð hann fljótt slæmur og fór síðan versnandi. Þegar ég renndi yfir Fréttablaðið í morgun sá ég í því auglýsingu af DV dagsins þar sem við blasti mynd af manni sem ég kannast ágætlega við að fornu og nýju að vestan þar sem hann var sakaður um óhæfuverk gagnvart ungum drengjum. Manni hnykkti við. Það hefur lengi verið aðferð DV að slengja svokölluðum fréttum fram í þessum dúr með það að skálkaskjóli að þeir hafi skyldum að gegna gagnvart almenningi hvað varðar upplýsingaskyldu um það sem er að gerast í samfélaginu. Það gera þeir iðulega án þess að dómur sé fallinn eða niðurstaða máls fengin á til þess bæran hátt. Þessi vinnubrögð DV manna hafa vakið umræðu trekk í trekk í samfélaginu og vakið skömm flestra sem á málið minnast. Annað er að skýra frá málum þar sem niðurstaða er fengin eftir til þess gerðum leiðum. Ekki ætla ég mér að segja til um sök eða sýknu í þessu tiltekna máli og til þess mun aldrei koma að úr því verði skorið. Þegar ég heyrði kvöldfréttir í NFS kl. 18.30 var sagt frá því að þessi umræddi maður hefði framið sjálfsmorð í dag. Manni fallast eiginlega hendur og veit ekki hvað maður á að hugsa. Í fréttaskýringaþættinum Ísland í dag kom fram að ritstjórar DV hefðu sagt að þeim kæmi þessi atburður ekki við. Mönnum sem svona hugsa og tala er greinilega fátt heilagt.

Ég held að ég fjalli ekki mikið meir um þetta en eitt get ég fullyrt, ég hef lesið DV í síðasta sinn.

Á áttunda og níunda áratugnum var starfandi blaðamaður í Þýskalandi sem skrifaði athyglisverðar bækur. Hann dulbjó sig sem Tyrkja og vann sem slíkur í eitt ár í einhverju stáliðjuveri og skrifaði síðan bók um aðbúnað Tyrkja í Þýskalandi. Einnig komst hann sem blaðamaður inn á Bild Zeitung sem er viðmiðunarblað Gulu pressunnar í óþverraskap og upplognum fréttum. Hann skrifaði einnig bók um dvöl sína á blaðinu. Það er nokkum um liðið frá því ég las þessar bækur en man þó það úr bókinni sem hann skrifaði um dvöl sína á Bild Zeitung að á blaðinu var sími sem fólk í þunglyndisástandi og þaðan af verra ásigkomulagi gat hringt í. Fyrir kom að fólk í sjálfsmorðshugleiðingum sem var komið út á svalabrún hringdi í blaðið sem síðasta úrræði. Þá var maður settur í að tala við viðkomandi á meðan ljósmyndari og blaðamaður voru sendir á staðinn. Þegar tryggt var að pressan var mætt á staðinn þá sagði starfsmaður blaðsins sem var í símanum og talaði við þann sem stóð á svalabrúninni sem svo: "Þetta er greinilega vonlaust, þú verður bara að stökkva og það sem fyrst!!" Með þessum aðferðum var búið að tryggja það að Bild Zeitung væri fyrst með fréttirnar og gat þannig sinnt "upplýsingaskyldu" sinni gagnvart almenningi.

Maður er hryggur.

Engin ummæli: