fimmtudagur, janúar 19, 2006

Fór góðan hring í gærkvöldi. Sleppti að vísu broddunum svo nokkuð var hált í spori en sama er, fínn sprettur. Maður finnur vel hvað þetta er orðið léttara eftir að hlaupin eru orðin reglubundin í stað þess að fara óreglulega út. Þá er bara málið að byggja ofan á með stigvaxandi álagi eftir því sem tíminn líður. Ég ætla hins vegar að vera frekar rólegur út febrúar eða á meðan veður og færð eru í vetrarhamnum.

Nú vilja allir Lilju kveðið hafa. Þjórsárver eru í umræðunni sem aldrei fyrr. Ég hef ekki komið þangað en heyrt látið mikið af því hve gaman er að ganga um svæðið. Það er á stefnuskránni en líklega verður Kringilsárranasvæðið látið ganga fyrir næsta sumar. Þeir sem hafa alla tíð verið á móti því að tekin væri nokkur áhætta íasmbandi við Þjórsárverin kætast eðlilega en aðrir reyna að hoppa á vinsældavagninn og vonast til að enginn muni eftir fyrri stuðningi þeirra við virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar á þessu svæði.

Í umræðu um náttúruverndarmál koma mörg sjónarmið fram og afstaða tekin út frá ólíkum sjónarhornum. Þeir allra hörðustu vilja ekki sjá velt við steini. Öll röskun náttúrunnar er af hinu verra. Fanatíkin er ekki skemmtileg viðfangs frekar en svo margið aðrir öfgar. Aðrir setja ákveðin mörk um hve langt skuli ganga í framkvæmdum. Hingað en ekki lengra. Vitakuld eiga stjórnvöld og almenningur að setja ákveðin mörk um hve langt skuli ganga í nýtinu fallvatna. Margir eru á þeirri skoðun að það hafi verið farið yfir þessi mörk við framkvæmdir við Kárahnjúka. Aðrir ekki. Langisjór hefur komið inn í þessa umræðu. Maður hefur heyrt haft eftir fólki sem ber hag náttúriunnar sérstakælega fyrir brjósti að það geti sætt sig við ýmislegt en ef eigi að hrófla við Langasjó þá grípi það til vopna. Síðan heyrir maður aftur hitt sjónarmiðið að ef Skaftá væri veitt í gegnum Langasjó þá myndi vera stöðvuð gríðarleg landeyðing af völdum Skaftár niðri í byggðinni þar sem hún breiðir sandinn yfir hraunið þannig að ýmsir eru hlynntir því að breyta rennsli árinnar, enda rann hún í gegnum Langasjó her áður fyrr. Því eru þeir sem eru búsettir þar eystra mjög tvíátta í þessari umræðu. Þessi umræða er þannig aldrei einföld. Mismunandi sjónarmið íbúanna komu berlega í ljós í fréttum sjónvarpsins í gærkvöldi þegar talað var við fólk austur í hreppum vegna hugmynda um Núpavirkjun (sem ég kann að nefna) neðar í sveitinni ef Norðlingaölduvirkjun verður slegin af. Það fólk sem rætt var við var algerlega á móti þeim hugmyndum en var svo sem fjandans sama um Þjórsárverin. Þau voru bara fúamýrar að þeirra sögn sem voru ekki á nokkurn hátt merkilegar. Í útvarpinu var á hinn kantinn rætt við konu sem var mjög ánægð með að virkjunaráform Landsvirkjunar á svæðinu skyldu slegin af.
Það er margt sinnið sem skinnið.

Nú skal trommað sem aldrei fyrr. Jói keypti sér nýtt (svolítið notað) trommusett í gær, handmade frá Japan. Það kostar kvartmilljón nýtt en var selt með góðum afslætti. Hann er svo að stússa í að selja sitt fyrra sem hann keypti fyrir um tveimur árum og þótti mikið framfaraskref á þeim tíma. Hann er peningamaður og kom snemma auga á kosti þess að vera fjárhagslega sjálfstæður. Ef menn eru það er hægt að kaupa sér gott trommusett án þess að vera öðrum háðir um fjárhagslegan stuðning.

Engin ummæli: