laugardagur, janúar 21, 2006

Launamálaráðstefna sveitarfélaga var haldin í gær. Niðurstaðan var fyrst og fremst sú að sveitarfélögin þjöppuðu sér saman bak við Launanefndina og var hvergi veikur hlekkur í þeirri keðju. Það er mikið talað um að hækka lægstu launin. Það er ekki einfalt markmið. Ef þau eru hækkuð það mikið að þau séu ekki lengur þau lægstu þá eru einhverjir aðrir orðnir lægstir. Þeir verða þar með mjög óánægðir og kerfjast þess að lægstu launin verði hækkuð svo að þau séu ekki lengur lægst. Ef lægstu laun eru hækkuð svo að þau séu áfram lægst en bara rétt fyrir neðan næstlægstu launin þá verða þeir einnig óánægðir sem eru á næstlægstu laununum því munurinn á þeirra launum og þeim lægstu er svo sem ekki orðinn neinn. Kjarabarátta byggir nefnilega ætíð og eilíflega á samanburði.

Fórum í heimboð til Þórðar í gærkvöldi og sátum þar lengi vel við mat og drykk í góðu yfirlæti. Klukkan var farin að halla í fimm AM þegar ég kom heim. ég vaknaði rétt fyrir átta og var kominn út á gormana um 8.30. ekki veitti af. Fossvogurinn var glerháll. Þegar ég var kominn rétt út undir brekkuna upp úr Fossvoginum fór ég að heyra einhvern nið sem fór síhækkandi og varð þyngri og þyngri. Ég áttaði mig svo á að hann kom úr trjátoppunum þar sem gríaðrlegur fjöldi smáfugla og blaðraði á útopnu. Manni leið svolítið eins og leikara í Birds. Ég hitti Pétur og Halldór við brúna og við héldum sem leið lá út með flugvelli og snerum út á Gróttu við bílastæðið. Það var að mestu leyti autt á þessari leið. Tókum aukaslaufu út á Granda. Ég var lengi heim frá Laugum því ég hitti marga á leiðinni og um margt var að tala. Það eru margir að hugsa þessa dagana og undirbúningur fyrir hin ýmsu hlaup stendur yfir. Ég hitti Svan og hann er allur að hressast að sögn. Hann er ólseigur og verður vafalaust kominn á fullt fyrr en varir. Eina hættan er að hann fari of snemma að leggja að sér. Túrinn varð nær 30 km sem er það lengsta sem ég hef hlaupið frá Þingstaðahlaupi. Góður dagur.

Fór með Jóa niður í vinnu undir kvöldið. Hann var að kaupa sér trommu í uppboði á Ebay. Það vantaði eina og hálfa mínútu í að tíminn rynni út þegar við hófum að bjóða. Fengum mótboð en náðum gripnum þegar 50 sek voru eftir. Tromman kostar þarna svona 7.000 kr komin til landsins en hefði kostað hér um 25.000 kr.

Sá í bækling sem kom inn út dyrunum í dag að frambjóðandi í prófkjöri fyrir sveitarstjórn arkosningar í vor ætlar að bæta löggæslu í borginni og endurskipuleggja störf lögreglunnar. Bara svo að allt sé á hreinu þá er löggæsla á vegum ríkisins og sveitarfélögunum er bannað að taka þau verk að sér sem hinu stjórnsýslustiginu (ríkinu) eða öðrum aðilum er falið að sinna með lögum.

Sveinn fór í samhristingsferð austur fyrir fjall í dag. Hann ætlar að fara í framboð fyrir Vöku í HÍ. Einhvern tíma hefði maður lagt kollhúfur við tilhugsunina um slíkt en nú hvet ég hann með ráðum og dáð. Gott þegar fólk hefur skoðanir og fylgir þeim eftir.

Enn einn hryllingurinn birtist í ríkissjónvarpinu í kvöld. Spurningakeppni um Eurovision. Ég slökkti eftir nokkra stund. Þegar sjálfhverfan og egócentrískur hugsunarháttur ræður ferðinni og vankunnáttan í þáttastjórnun í sjónvarpi æpir framan í mann þá er bara ekki hægt að horfa á þetta. Þegar "þú veist, skilurðu" fólkið er farið að stjórna sjónvarpsáttum þá er ekki á góðu von. Hver ákveður eiginlega hvernig svona þættir eru settir upp þarna í Efstaleytinu?

Sá ágæta grein eftir Ólaf Sigurgeirsson í Mogganum í morgun. Hann er þar að fjalla um undarlegar áherslur í kjöri íþróttamanns ársins. Enda þótt við höfum átt sterkasta mann heims í átta ár þá hefur viðkomandi aldrei komið til tals í kjöri íþróttamanns ársins. Fittneskóngar og drottningar. Eru fremsta fólk landsins í þeim greinum lakari íþróttamenn en þokkalegir fótboltamenn? Fréttamat íþróttafréttamanna hef ég áður minnst á og er ekki par sáttur. Það gerist ekki bara si svona að það hlaupa tugir þusunda manna í stóru maraþonhlaupunum í Evrópu og USA. Það gerist ekki bara sio svona að það er ein milljón manna sem fylgist með Boston maraþoni. Það þróast vitaskuld svona vegna þess að fjölmiðlar gera þessum mikllu íþróttaviðburðum góð skil. íslenskir íþróttafréttamenn minnast varla á að Laugavegshlaupið eða Reykjavíkurmaraþon sé til. Það væri nefnilega hægt að gera mjög fínt og áhugavert sjónvarpsefni um þessa tvo viðburði sem myndi auka áhuga almennings á þeim.

Engin ummæli: