mánudagur, janúar 16, 2006

Það varð lítið um hlaup á sunnudagsmorguninn því um kl. 9.00 var lagt á stað austur í Þorlákshöfn því María og stöllur hennar hjá Víkingi áttu að keppa í innanhúsfótbolta. Það var vetrarveður á leiðinni, smáskafrenningur og frost. Maður hefur varla séð svona veður síðan við fluttum að norðan fyrir um 6 árum síðan. Fótboltinn gekk svona og svona en það er eins og gengur, það safnast bara í reynslukistuna.

Dagurinn fór í eitt og annað eins og gengur en um kl. 21.30 í gærkvöldi setti ég á mig gormana og tók hringinn vestur á Eiðistorg. Færið var misjafnt, sumstaðar ómokað en annarsstaðar fínt. Veðrið var fínt. Góður kvöldtúr í rúma tvo klukkutíma og planið heldur.

Sá nýlega í einhverju blaðinu grein þar sem fyrirsögnin var "Minnst menntaða þjóð í Evrópu" og þar var átt við íslensku þjóðina. Maður spyr sig stundum í hvaða hugarheimi það fólks er sem skrifar svona greinar. Hefur það ekki komið út fyrir landssteinana eða er það að höfða til þess hluta fólks sem nærist á því að vera óánægt með allt og alla?

Engin ummæli: