sunnudagur, desember 24, 2006

Aðfangadagur og lífið gengur sinn gang.
Fór í gærmorgun fyrir birtingu suður að Sandgerði að taka myndir af skipinu sem strandað var í fjörunni rétt austan þorpsins. Þarna hefur eitthvað skrítið verið á ferðinni því það hefur keyrt á fullri ferð beint upp í fjöru. Fór svo út að Garðaskagavita en ég hef ekki komið þangað fyrr. Það va rfarið að lægja en vitlaust verður var um nóttina sagði bóndinn á Básenda mér sem ég hitti á
förnum vegi.

Í gærkvöldi var skötuveisla hjá Önnu systur eins og hefð er fyrir. Þar vorum við öll systkinin ásamt mömmu og pabba. Það er ekki svo mjög algengt að það náist því oft er eitthvað sem truflar eins og gengur.

Lukum við að skreyta jólatréð í gærkvöldi við síðustu lög Baggalúts.

Um jól og áramót vill maður renna huganum aftur í tímann. Þrátt fyrir allsnægtir nútímans þá finnst manni alltaf eins og það náist ekki sami hátíðleiki á jólunum eins og var í sveitinni hér áður. Það er kannski svo að þegar hátíðastundirnar voru færri þá voru þær líka meira virði. Bækur voru bestu jólagjafirnar því þá gat maður legið heila nótt og sogað í sig ókunna og framandi ævintýraheima. Enid Blyton var einn mesti gleðigjafi ungra drengja á þessum árum.

Tvenn jól og áramót eru sérstaklega eftirminnileg eftir að ég komst á fullorðinsár. Jólin 1979 og jólin 1995. Jólin 1979 var ég á Kúbu í minni annarri utanlandsferð. Það var mikil ævintýraferð sem gleymist seint. Nær 200 ungmenni frá Norðurlöndunum dvöldu þarna í mánuð til að styðja við byltingu Kastrós!!! Viva la revolution. Á aðfangadag var unnið eins og vanalega og um kvöldið var setið úti , spjallað saman og dreypt hóglega á Havana Club, 7 ára.
Jólin 1995 var ég aftur á móti í Kamchatka í Rússlandi, 12 tímaskeið fra Íslandi. Við höfðum haft með okkur mat frá Íslandi, svínakjöt og tilbehör. Við sömdum við nálægt veitingahús um að fá að elda matinn hjá þeim og borða þar saman um kvöldið. Það var mjög gaman og hátíðlegt en ósköp fanns manni mikið vanta að vera ekki heima með krökkunum. Rússar héldu ekki upp á jólin sem neinu nam en það var sameiginlegt með Kúbu og Rússlandi að áramótin voru þeim mun veglegri.

Óska öllum sem slæðast inn á þessa síðu gleðilegra jóla.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól, Gunnlaugur minn og takk fyrir kortið
:)
Bibba

Nafnlaus sagði...

Heill og sæll frændi,
Óska þér og fjölskyldunni gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.
Sammála þér varaðandi jólin í den...sennilega er skýringin sú að það var ekki eins mikil áreitni hversdags að umstangið fyrir jólin gerði sinn hátíðarblæ og tilbreytingu í lífinu........og eplalyktin maður....úr kössunum frá Ívar frænda ;-).
Kveðja,
Sólveig frænka.