mánudagur, desember 04, 2006

Fór út í gærmorgun í góðu veðri. Hljóp frekar stutt eða um 15 km. Hitti Guðmann á leiðinni. Hann er farinn að spekúlera í Mont Blanc hlaupinu. Megi gott á vita.

Í fyrirsögn í Mogganum á sunnudaginn var fyrirsögn frá flokksráðsfundi Samfylkingarinnar. „Kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum.“ Þarna voru kjósendur gerðir ábyrgir fyrir því að flokkurinn hafi minna fylgi í skoðanakönnunum en hann telur að hann eigi innistæðu fyrir. Rétta nálgunin samkvæmt minni málvitund ætti að vera: „Þingflokkurinn ekki trúverðugur í augum kjósenda.“ Ef flokkur fær minna fylgi en hann langar til, hvort sem er í skoðanakönnunum eða kosningum þá eiga menn að líta í eigin barm en ekki skella skuldinni á aðra.

Sá grein í Mogganum á laugardaginn. Þar er frambjóðandi í prófkjöri helgarinnar að skrifa um náttúruverndarmál. Vitnað er í aldraða konu á Suðurlandi sem hefur lifað við að horfa á Heklu, Eyjafjallajökul, Tindfjallajökul, Bása, Einhyrning og ýmsar fleiri náttúruperlur við Þjórsá. Greinarhöfundur sagði að nú ætti þessi aldraða kona það undir Samfylkingarmönnum í Hafnarfirði hvort hún gæti séð þessa vini sína áfram. Það var ekki annað að skilja á greininni en að það ætti að sökkva öllu Suðurlandi ef álverið í Hafnarfirði yrði stækkað. Það má vera að einhverjum finnist þetta vera ábyrgt tal en mér finnst það ekki.

Það var hringt í mig frá Gallup á lauardaginn með einhvern spurningavagn. Svona spurningar eru yfirleitt leiðinlegar og ganga út á það hvort maður þekki hina eða þessa vöruna og hafi horft á þennan eða hinn sjónvarpsþáttinn. Svo kom að spurt var hvort ég hefði horft á afhendingu Eddu verðlaunanna. Ég sagðist hafa horft frekar lítið á það því mér hefði þótt þetta frekar óinteressant, vægast sagt. „Já það segirðu satt, þetta var alveg hræðilegt“ sagði konan, „þvílík hörmung“ og svo töluðum við dálitla stund um hvað þessi útsending væri misheppnuð á flesta kanta. Það er ekki oft sem maður nær sambandi við svona atvinnuspurningafólk.

Það var útgáfusamsæti hjá Nýherja á föstudagskvöldið. Félag áhugaljósmyndara var að gefa út ljósmyndabók, Ljósár. Þetta er dálítið skemmtilegt verkefni. Maður er einhver nóboddý úti í bæ sem hefur gaman af því að taka myndir. Svo kemst maður í samband við samfélag fólks með sömu áhugamál á netinu. Þar kom upp hugmynd í fyrra að gefa út bók og nú var leikurinn endurtekinn. Maður sendir inn myndir í verkefnið og smápening tl að kosta það. Svo taka einhverjir við myndunum og fara með þær í gegnum umbrotsferilinn og alla þá handavinnu sem fylgir bókaútgáfu. Síðan er boðað til samsætis, bókin er til. Magnað.

Fór austur á Egilstaði á laugardaginn á námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn á Austurlandi. Það gekk vel, austfirðingar voru hressir og fróðleiksfúsir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það væri snilld að fá Guðmann með í MB hlaupið, hann myndi velgja þessum frakkaskröttum vel undir uggunum enda á hann hvergi betur heima en í svona hlaupum.