föstudagur, desember 08, 2006

Fyrir rúmum aldarfjórðungi var byggt dálítið af útihúsum á Rauðasandinum, fjós og votheysgeymslur. Bændur höfðu oft verið í dálitlum vandræðum með að fá nógu gott efni til að mála innan haughúsin og votheysgryfjurnar til að verja steypuna. Á þessum árum var hins vegar komið nýtt efni til sögunnar. Það var svört málning með góða viðloðun og hrinti öllu frá sér þannig að vegirnir voru því sem næst eins og þvegnir eftir. Bændur þóttust himin höndum hafa tekið með að fá þessa öflugu málningu. Að vísu bar á því að þeim þótti vera svolítið erfitt að anda að sér gufunum ef það var verið að mála í lokuðu eða illa loftræstu rými. Ég man eftir því eitt sinn að lærlingur sem hafði verið að mála haughús að innan sem var eiginlega ekkert loftræst var hálf ruglaður þegar hann kom út að anda en svo rjátlaðist það af honum. Það var hins vegar ekki spökulerað mikið í þessu. Efnið var gott til síns brúks. Þessi ágæta málning hét Epoxy lakk. Haustið 1980 flutti ég til Svíþjóðar. Þar las maður blöðin um landsins gagn og nauðsynjar til að setja sig inn í samfélagið og læra málið. Það var meðal annars tvennt sem var nýtt af nálinni fyrir mann í almennri samfélagsumræðu. Annars vegar var umræða um kynferðislega misnotkun barna sem þá var algert tabú í umræðunni á Íslandi. Hitt var umræða um vinnuvernd og hættuleg efni. Hún var einnig framandi. Þar fór hæst umræða um asbest og lífræn leysiefni. Þar þekkti ég aftur hið ágæta Epoxy lakk sem hafði notið mikilla vinsælda meðal bænda fyrir vestan. Samkvæmt sænskri vinnuvernd var það hið versta af öllum vondum lökkum. Stórhættulegt og algerlega bannað. Sama máli gegndi um asbestið. Þegar vinnandi menn voru að hreinsa asbest úr húsum eða annarsstaðar þar sem það hafið verið notað voru þeir í einskonar tunglfaragöllum. Þetta var alveg nýtt fyrir vestfirðinginn.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sé fréttir af því í Blaðinu að það eigi að fara að nota Epoxy lakk til að mála að innan einhver stálrör austur við Kárahnjúka. Ég hélt satt að segja að maður væri kominn á siðaðra manna slóðir hvað varðar notkun slíkra efna. Eðlilega er kurr meðal þeirra starfsmanna sem eiga að fara með lakkið. Það var annað mál þegar menn sem ekki vissu betur voru að nota þetta hér á árum áður. Nú er engin afsökun fyrir því að það skorti þekkingu á málunum. Það er ágætis mælikvarði á svona efni að láta menn svara því hvort þeir vildu láta börnin sín vinna með þau við þær aðstæður sem venjulegu starfsfólki er ætlað að gera.
Í haust dó rúmlega sextugur maður sem ég kannast við úr lungnakrabba. Það leið um hálft ár frá því að meinsemdin uppgötvaðist þar til hann dó. Um 1980 vann hann töluvert við að rífa asbestplötur innan úr húsnæði og klæða það á nýjan leik. Ég veit að þar voru engir geimfarabúningar notaðir, verkamönnunum til hlífðar.

Engin ummæli: