miðvikudagur, desember 06, 2006

Ég hlusta oft á útvarpið þegar ég kem til norðurlandanna og gerði mjög mikið af því þegar ég bjó í Svíþjóð og síðar Danmörku. Í útvarps- og sjónvarpsfréttum í þessum ágætu löndum koma fréttir af og til þegar eitthvað mikið er til umræðu í lögþinginu en annars ekki. Hér á landi er því öðruvísi farið. Maður gæti haldið að þeim fréttamönnum sem sitja niðri á Alþingi sé skipað að koma með a.m.k. fimm mínútna innslag daglega á meðan þingið starfar, að lágmarki. Ef það er lengra er það ágætt. Sama hvað það er. Ég tala nú ekki um þegar einhver segir eitthvað nógu groddalegt og ruddalegt þá er nú aldeilis stungin tólg. Þá er það spilað aftur og aftur í fréttatímum og viðkomandi tekinn viðtal í Kastljós, Ísland í dag, Silfur Egils og ég veit ekki hvað.

Í gær var einn svona dagur. Umræða hófst í þinginu um ræðu formanns Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og svo kom hver silkihúfan á fætur annari. Ræðumenn fimbulfömbuðu hver um annan þveran um eitthvað út og suður um ekki neitt og síðan hló þingheimur hinum versta dósahlátri með ákveðnu millibili. Látum nú vera að þingmenn hafi ekkert annað að gera en að eyða tímanum í svona lagað. Mér er sama um það innan vissra marka. en að fara að varpa þessu yfir landsmenn eins og að um stórpólitísk tíðindi væri að ræða, það er dálítið annað mál. Þetta var spilað í útvarpinu á Rás 2 upp úr kl. 17.00, í kvöldfréttum, í fréttum á Stöð 2, í kvöldfréttum sjónvarps og síðan las maður um þetta í blöðunum í morgun. Mér finnst að virðing Alþingis setji ofan við svona lagað, kannski er það líka meiningin.

Í þessari umræðu talaði einn kvenræðumaðurinn um „ungkallana í Sjálfstæðisflokknum sem hefðu aldrei haft neitt til málanna að legggja er varðaði hina pólitísku umræðu.“ Með þessum orðum var ræðumaður greinilega að gera lítið úr viðkomandi einstaklingum. Þetta þykir sjálfsagt orðaval og enginn sér neitt athugavert við það. Hvað ætli hefði verið sagt ef einhver kallþingmaður hefði talað um „smástelpurnar eða gömlu kellingarnar í xxxflokki sem aldrei hefðu haft neitt að leggja til málanna í hinni pólitísku umræðu“? Ég er hræddur um að sá hinn sami hefði ekki þyrft að kemba hærurnar í þingmannsstarfinu. Þá hefði Kastsljós, Ísland í dag, Silfur Egils og allri aðrir álíka þættir tekið viðkomandi pólitískt af lífi. Talskona Feministafélagsins hefði örugglega fengið rúmt pláss í fréttatímum til að bíta út úr sér fordæmingar á svona málflutningi o.s.frv. o.s.frv.

Í fréttum Rúv í gær var sagt frá niðurstöðum í einhverri rannsókn, ég held meir að segja að það sé doktorsverkefni, þar sem niðurstöðurnar eru þær að erlent fólk læri ekki íslensku og einangrist hérlendis vegna þess að íslendingar vilji bara tala ensku við það. Spilað var innslag þar sem erlend stúlka hafði tekið upp samtal við strætóbílstjóra þar sem hún var að spyrja til vegar á vægast sagt slæmri íslensku og hann svaraði á ensku. Þetta var sönnun glæpsins. Þegar ég flutti út á sínum tíma hafði maður um tvennt að velja í þessu sambandi, berjast í gegnum það strögl sem fylgdi því að læra mál innfæddra og fjárfesta þannig til framtíðar eða velja léttari veginn, tala ensku og ýta þannig viðfangsefninu á undan sér. Vandinn við þetta var sá að flestir þeirra innfæddu vildu tala ensku við mann til að byrja með. Kannski var það eðlilegt vegna þes að maður talaði bjagað mál. Ég þekkti námsmenn sem fluttu milli blokka á stúdentagörðunum í algerlega nýtt umhverfi og sögðust alls ekki tala ensku á nýja staðnum til að hafa möguleika á að læra sænskuna. Á gamla staðnum vildu allir tala ensku. Að heyra fólk sem tilheyrir fræðimennsku og vísindum halda því fram að þetta sé eitthvað séríslenskt fyrirbrigði að innfæddir tali ensku við fólk sem er illa talandi á íslenska tungu og komi þannig í veg fyrir að það læri íslensku og aðlagist samfélaginu er dapurlegt og eiginlega heldur vitlaust.

Engin ummæli: