fimmtudagur, desember 28, 2006

Það var heldur snöggur endir á hinni formlegu jólahátíð á annan dag jóla því María litla fékk botnlangakast þá um daginn. Hún hefur aldrei fundið fyrir slíku áður en svona gerist þetta. Hún fór upp á Barnaspítala um kvöldið og við vissum ekki annað en að hún yrði skorin um morguninn eftir. Þá hafði henni hins vegar skánað það mikið að hún var send heim með sinn botnlanga. Maður sér vel þegar komið er inn á spítala við þessar hve umbúnaður og aðstæður eru frábærar. Botnlangaskurður er afar lítil aðgerð en miðað við það sem er til staðar í kringum hann hvað er þá með það sem stærra er og vandasamara. Ég man vel þegar botnlanginn var tekinn úr mér fimmtán ára gömlum. Þá var sjúkdómsgreiningin mjög einföld, ýtt á magann nokkrum sinnum og niðurstaðan lá fyrir. Aðgerðin var hins vegar meiri þá en nú, ég lá á spítala í viku og léttist um ófá kíló og mátti reyndar ekki við því. Nú er í mesta lagi verið inni eina nótt ef allt er eins og það á að vera.

Um jólin horfir maður dálítið á sjónvarp eins og gefur að skilja. Ég lenti í undarlegum viðskiptum við Stöð 2 en mér hafði verið boðinn snemma í desember tveggja vikna pakki yfir hátíðarnar sem ég keypti. Pakkinn reyndist svo ekki hafa verið til sölu þegar til kastanna kom þannig að ríkissjónvarpið þurfti að duga. Dagskrá þess fannst mér ekki vera merkileg. Phantom of the Opera. Það er löng, klettþung og dramatísk bíómynd en ekki þess eðlis að maður sitji við hana nema maður hafi ekkert annað við tímann að gera. Í gærkvöldi var sýnd létt bíómynd; "Fjögur brúðkaup og jarðarför". Hún byrjaði ekki fyrr en um 23.30 og gekk langt framá nótt því á undan þurfti að sýna auglýsingamynd um gerð íslenskrar bíómyndar. Næst síðasti þátturinn úr dönsku seríunni Kr¢niken dúkkaði upp eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Ég hef ekki orðið var við að serían hafi yfir höfuð verið sýnd á undanförnum vikum. Verst af öllu fannst mér þó þegar boðið upp á þátt úr heimavídeósafni þjóðleikshússstjóra að kvöldi annars dags jóla. Þjóðleikshússtjóri og fleiri foreldrar höfðu farið með stúlknakór til Ítalíu fyrir tveimur árum. Ég efa ekki að stelpurnar hafi staðið sig vel og ferðin verið skemmtileg en hvaða erindi á svona lagað fyrir almenningssjónir og það í jóladagskrá sjónvarpsins. Það er ekkert fréttnæmt við að farið sé í svona ferðir. Þessi samantekt hefði verið fín til að sýna á foreldrafundi hjá kórunum eftir að heim var komið. Gaman væri að vita hvað þjóðleikhússtjóri hafi fengið borgað frá RÚV vegna hinnar svokölluðu dagskrárgerðar. Annað álíka dæmi var sýnt rétt fyrir hátíðarnar. Fjórir miðaldra karlmenn höfðu látið verða af gömlum draum um að fara til Bandaríkjanna til að taka upp plötu. Einhver hafði verið með vídeóvélina með og látið hana ganga á meðan. Þetta var svo sýnt í sjónvarpinu og virkaði sem hálftíma auglýsing fyrir plötuna sem ekki er neitt varið í að því mér finnst.

Það var svolítið hlaupið yfir hátíðarnar en vafalaust ekki nógu mikið. Hins vegar hélt sætindabindindið 100% og það er svo komið að mig langar ekki vitund í konfekt eða annað sælgæti þrátt fyrir að það sé til staðar á hverju borði. Sama má segja um kökurnar. Þær eru bara ekki á dagskránni lengur, sama þótt maður sé í jólaboði. Það er bara svoleiðis.

Engin ummæli: