sunnudagur, ágúst 10, 2008

Fór út upp úr klukkan átta. Hluti fjölskyldunnar vakti í nótt við að horfa á landsleikinn við Rússa og hafði erindi sem erfiði, glæsilegur sigur var unninn á rússneska birninum. Ég fór hins vegar að sofa á normal tíma því maður verður stundum að forgangsraða. Veðrið var eins og best var hægt að hugsa sér, sólskin, logn og hlýtt. Fann ekki fyrir gærdeginum. Fór vestur á Eiðistorg og síðan í Laugar. Þar var enginn mættur svo ég tók dálitla slaufu og sneri svo til baka. Nokkrir góðvinir Gullu voru nú mættir svo við héldum inn í Elliðaárdal og svo út Fossvog. Ég ætlaði að hætta við brúna en það var bara ekki hægt svo ég hélt áfram í Nauthól, síðan niður í Laugar og svo heim.

Klukkan var orðin 9.30 þegar ég fór í gegnum miðbæinn. Ég verð að segja að ég hef sjaldan séð aðra eins andskotans forsmán eins og miðbærinn leit út í morgun og töluvert langt upp á Laugaveg. Drasl, matarleifar, umbúðir, glerbrot, flöskur og ég veit ekki hvað lá um allar götur. Rónahópur var röflandi og æpandi við 10 - 11 í Austurstræti (ég nenni ekki að tala um sjúkdóm í þessu sambandi). Innan um þetta allt saman var slangur af vandræðalegum ferðamönnum sem voru að glugga í kort. Líklega til að sjá hvaða leiðir lægju út úr þessum ófögnuði. Þetta er ekkert annað en til háborinnar skammar að hafa miðborgina eins og andskotann þegar komið er langt fram á morgun. Mér er nokk sama þótt hún hafi verið full af fólki í gærkvöldi og nótt. Við slíkar kringumstæður verður að leggja höfuðáherslu á að hreinsa óþverrann snarlega svo bærinn sé sæmilega útlítandi þegar venjulegt fólk vogar sér í miðbæinn þegar fer að morgna.

Eiður ætlar að koma með til Grikklands í lok september. Hann er vafalaust farinn að hugsa sitt og langar að kynna sér aðstæður. Það verður frábært að hafa hann með. Það voru einnig góðar fréttir sem maður fékk frá Dofra´Þórðarsyni rétt fyrir mánaðamótin. Hann tók þátt í 100 km fjallahlaupi í Þýskalandi og lauk hlaupinu á 13 klst 53 mín og varð áttundi en um 30 manns luku hlaupinu. Þar bætist enn einn góður félagi í 100 km félagið.

Slóðin á hlaupið er hér http://www.chiemgauer100.de/English/EChiemgauer_100_home.htm

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur!

Verð að taka undir hneykslunina varðandi miðbæinn! Fór sjálf af stað hlaupandi kl. rúmlega 8, úr Hlíðum, vestur á Nes og í gegnum miðbæinn aftur heim í Hlíðar eftir góðan viðbótarkrók. Ég hljóp fram á þrjá áfengisdauða menn og óð draslið í ökkla allan miðbæinn. Var að hugsa um að tala við sjálfa mig á útlensku þegar ég hljóp framhjá hverjum hópnum af ferðamönnum á fætur öðrum, bara til að reyna að dempa skömmina yfir því að vera Reykvíkingur! Hvar enda þessi ósköp - nú gekk algerlega fram af mér!

Ætlaði annars að bjóða þér í kaffi í hérumbil næsta tjald á ULM og fá hlaupasögur í staðinn... Það verður bara næst.

Bestu kveðjur
Halla Þorvaldsd (sem þú bjargaðir í mark í RM í fyrra)

Nafnlaus sagði...

Já frábær árangur hjá Dofra.

Flott að Eiður ætli með til Aþenu ég hugsa að ég sleppi því þetta árið.

Varðandi ruslið, var ekki ein aðal kosningaauglýsingin hjá Villa fv. borgarstjóra um allt ruslið sem hann ætlaði að hreinsa.........

Hljóp í gegnum miðbæ Akureyrar um Verslunarmannahelgina, á sama tíma eða um 9:00, þá var búið að þrífa bæinn með tannbursta. Fannst það vel að verki staðið en það munar miklu að hreinsa strax eftir skemmtanir enda árisulir þá komnir á stjá og eiga að sjálfsögðu ekki að vaða ruslið upp að hnjám eftir næturdýrin.