sunnudagur, ágúst 24, 2008

Ég vaknaði upp úr kl. 3 á aðfaranótt laugardagsins og fór að gera mig kláran fyrir daginn. Var kominn niður í Lækjargötu á fimmta tímanum. Þar voru borgarstarfsmenn að gera markið klárt og löggan að elta einhverja vitleysinga. Það getur varla hafa verið sérstaklega skemmtilegt vinnuumhverfi fyrir þá sem voru að setja upp markið að hafa lögguna hlaupandi á eftir einhverju liði í kringum sig. Ég lagði upp kl. 4.30. Markmiðið var að hlaupa tvö maraþon og vera búinn að því eftir rúma átta tíma. Mér leist ekki meir en svo á veðrið því það voru pollar um allt og greinilega búið að rigna mikið. En heppnin var með manni þennan daginn. Það kom ein smá skúr á sjötta tímanum og síðan var þurrt þar til vestur á Eiðistorgi á seinni hringnum. Ég rúllaði maraþonleiðina í rólegheitum eins og hún var merkt og leið bara vel. Undir morgun fóru starfsmenn hlaupsins að sjást á brautinni við að gera klárt. Ég komst ekki í gegnum hafnarsvæðið við Sundahöfn en fór upp fyrir það og yfir á brautina í brekkunni. Ég stillti tímann þannig að ég kom í Lækjargötuna í hælana á síðustu mönnum því ég vildi ekki stoppa og stirðna upp heldur halda beint áfram. Ég fann ekkert fyrir fyrri hringnum og einbeitti mér því að því að draga fólk uppi og fara fram úr eins mörgum á seinni hringnum og skynsamlegt var. Bætti á mig nestisbirgðum út við Hringbraut í bílnum og hélt svo áfram sem leið lá. Hitti ýmsa á leiðinni en það er alltaf gaman að taka sólarhæðina á ýmsum málum á svona degi. Meiri vindur var seinni partinn og fór hann að taka í því maður var kannski ekki eins sprækur undir það síðasta eins og á fyrri hringnum. Ég gekk upp þessar brekkur sem eru á leiðinni og þá fóru margir fram úr mér en ég var fljótur að ná þeim þegar á sléttuna var komið. Ég vissi að maður þreytist meir á því að hlaupa upp svona brekkur eins og upp af höfninni heldur en maður flýtir fyrir sér eftir svona langt hlaup. Maginn var aðeins að stríða mér og komu klósettin í góðar þarfir. Ég er ekki vanur að verða var við slíkt í hlaupum. Kannski var kosturinn kvöldið áður ekki sérstaklega hlaupavænn en ég var í veislu og borðaði dálítið mikið af af krydduðum mat. Ég kom í mark á rúmum 4.10 og var bara sáttur við það. Alls hafði ég verið um 8.20 að hlaupa þessa 85 km sem ég lagði undir fót. Ef ég hefði haldið áfram 15 km til viðbótar hefði ég náð að fara 100 km nokkuð undir 10 klst ef það hefði verið markmið dagsins. Fann ekki fyrir stirðleika í fótum né eymslum eða blöðrum. Ég drakk hálfan líter af Herbalifeblöndu á um tveggja tíma fresti og það gerði mjög góða hluti. Líklega hef ég þó vanrækt að taka nóg af steinefnum því þegar ég var búinn að labba út í bíl og skipta um föt ætlaði ég að sveifla mér upp í bílinn. Við átakið þá söng og hvein sinadrátturinn í löppinni þannig að ég þurfti að standa úti á götu meðan hann leið hjá. Á leiðinni austur Miklubraut kom hann aftur og það er vont að vera með sinadrátt í kálfanum þegar maður þarf að stöðva bílinn á ljósum. Mæli ekki með því. Heima var ekki til setunnar boðið heldur farið í sturtu og síðan keyrt sem leið lá norður á Sauðárkrók. María var að keppa þar á meistaramóti 15 - 21 ára unglinga. Við náðum í endann á mótinu á laugardeginum og sáum hana meðal annars stökkva upp í þriðja sæti í sínum aldursflokki í langstökki.

Ég var fínn í fótunum eftir hlaupið. Fann ekki til í lærunum. Helst að ég væri aumur í kálfunum eftir átökin við sinadráttinn. Mér fannst framkvæmd hlaupsins vera góð í öllu því sem máli skipti. Á einni eða tveimur drykkjarstöðvum var of fáliðað en þeir sem voru þar gerðu allt hvað þeir gátu til að sinna þörfum þyrstra hlaupara. Umferðarmálin eru til fyrirmyndar. Umgjörðin í markinu eins góð og getur verið miðað við aðstæður. Ég trúi að þeir sem voru á seinni skipunum í maraþoninu hafi verið orðnir dálítið hraktir. Þá þarf að vera hægt að kippa fólki inn og gefa því heitt að drekka.

Það var einnig gaman að koma í höllina á föstudagskvöldið og sjá hvernig staðið er að öllu þar. Maður getur ekki verið annað en stoltur af þeim framförum sem umgjörðin í kringum hlaupið hefur tekið á síðustu árum. Amatörhátturinn sem einkenndi þetta nokkuð þegar ég hljóp mín fyrstu maraþon er horfinn en fagmennska og metnaður kominn í staðinn. Ég náði því miður einungis að heyra fyrirlestur Evu um kvöldið en hann var mjög góður og einlægur eins og hennar er von og vísa.

Þetta er skrifað á sunnudagskvöldi og ég verð að segja að það er frekar pirrandi að sjá hvernig blöðin sinna Reykavíkurmaraþoninu. Ein mynd á útsíðu, nokkrar línur og málið er dautt. Mogginn og Fréttablaðið eru á sömu sandölunum í þessu efni. Ég hlustaði á útvarpið á meðan ég var að hlaupa og hlustaði meðal annars á Bylgjuna sem var með mann á staðnum. Hann var uppteknastur af því að ná árangri fyrstu manna og allt gott um það. Þeir eiga mikinn sóma skilið. En það var eins og honum dytti ekki í hug að tala við eitthvað af því venjulega fólki sem tekur þátt í þessari árshátíð hlaupara og gerir það að verkum að hún er eins glæsileg og raun ber vitni. Alla vega heyrði ég það ekki. Það taka nær 11.000 manns þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta er fjölmennasti íþróttaviðburður landsins. Ef eitthvað er fréttaefni sem er lesið þá er það umfjöllun um svona hluti. Ég man eftir því þegar ég tók þátt í Londonmaraþoninu að þá var í fyrsta lagi tími allra birtur í blöðunum daginn eftir og í annan stað var fjöldi viðtala við hið venjulega fólk sem var að hlaupa maraþon frá fjórum tímum upp í fimm tíma og þrjátíu mínútur. Það er þetta fólk sem gerir London maraþon eitt af stærstu hlaupum í heimi en ekki tíu manna elítan sem er að berjast um fyrsta sætið. Þessu þyrftu besservisserarnir á blöðunum að áttta sig á. Það verður gaman að sjá hvort fær lengri tíma í íþróttaannálnum á gamlársdag, Reykjavíkurmaraþonið eða Íslandsmótið í strandblaki.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svei mér þá Gunnlaugur... Þvílíkt form sem þú ert búinn að koma þér í! Afreksmaður og ekkert annað!

Sammála þér með umfjöllunina um RM. Held eiginlega að "litlu persónulegu afrekin" séu aðal afrekin og um þau ætti að fjalla til að sýna hvers venjulegt fólk er megnugt.

Bestu kveðjur
Halla Þorvaldsd

Nafnlaus sagði...

Flott hlaup hjá þér, alltaf vel skipulagður og agaður, það hefur verið fyndið að sjá þí þarna á ljósunum, að berjast við að botna bílinn og bremsa um leið:)

Nafnlaus sagði...

Ætlaði ekki að vera nafnlaus, sorry.
kv Jón Kr.

Steinn Jóhannsson sagði...

Þetta var flott æfing hjá þér Gunnlaugur og góður undirbúningur fyrir átökin framundan. Annars tek ég undir þér með RM. Það mætti færa það inn í Laugardal þar sem nóg pláss er til staðar.
Ennfremur mættu fjölmiðlar fjalla meira um hlaupið og beina sjónum sínum að almenningi, hvers vegna er fólk að taka þátt og hvað fær óreynda hlaupara til að taka þátt í heilu maraþoni.

Unknown sagði...

Sæll Gunnlaugur,

gaman að lesa um afrek þín og alveg ótrúlegt hvað þú getur hlaupið langt.
Tek undir með þér að þessi merki viðburður mætti fá mun meiri athygli í fjölmiðlum. Ég væri ekki hissa á því að maraþonhlaupið sé fjölmennasta maraþonhlaup í heimi m.v. höfðatölu :-)
Reyndar stal handboltinn dálítið senunni að þessu sinni, en það breytir ekki því að einu fréttirnar af hlaupinu voru fréttatilkynningar frá Glitni og ÍBR. Reyndar fylgdist ég ekki nógu vel með íþróttafréttatímum til að geta fullyrt þetta, en þetta er tilfinningin.

Framundan hjá þér er Jónshlaupið góða. Ég er bróðurdóttir Jóns heitins og hefði svo sannarlega viljað taka þátt í þessu skemmtilega hlaupi. En dagurinn sem þú valdir er ansi erfiður fyrir okkur Úthlíðinga og reyndar fleir Tungnamanna því þetta er Tungnaréttadagurinn og þá höfum við mörgum skyldum að gegna.
Verðum við því illa fjarri góðu gamni að þessu sinni, en óskum öllum þeim sem taka þátt í hlaupinu góðs gengis. Vonandi verður hlaupið endurtekið á næsta ári og þá máttu hafa það í huga að velja einhvern annan laugardag.
:-)



P.s. Best væri ef þú gætir fært hlaupið, en það er sjálfsagt meira en að segja það að skipuleggja og halda hlaup hér í borginni.

Nafnlaus sagði...

Sæl Hjördís og takk fyrir skrifin. Ég verð nú bara að játa það að mér bara datt ekki í hug að athuga með skipan gangnadaga þegar við völdum dagsetninguna fyrir Jónshlaupið. Við höfum tekið mið að því að hafa það svona mitt á milli RM og haustmaraþonsins. Það er í þriðja sinn í ár sem hlaup af þessum toga er haldið (þriggja og sex tíma) og það er ljóst að það er komið til að vera. Ég þori varla að breyta dagsetningunni í þetta sinn með svo skömmum fyrirvara því dagsetningin er auglýst fyrir löngu og ýmsir hafa sett kross við daginn á dagatalinu sem erfitt er að breyta. Á hinn bóginn er það skylda okkar að skipa málum þannig að Jónshlaupið stangist ekki á við einn helsta hátíðisdag ársins hjá Tungnamönnum. Því skal ég svo sannarlega taka mið af því á næsta ári við dagsetningu hlaupsins þannig að þeir Tungnamenn sem hefðu áhuga á að slást í hópinn og heiðra þannig minningu sveitunga síns væru ekki uppteknir við réttarstörf með tilheyrandi fjöldasöng.
Bestu kveðjur
Gunnlaugur