miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Mér sýnist veðrið ætla að verða bærilegt á laugardaginn. Það verður hlýtt en smáskúrir gætu fallið. Vindur verður hægur. Það gæti verið miklu verra. Maraþonið á að byrja kl. 8.40. Það er í sjálfu sér ágætt og engin sérstök ástæða til að bíða lengur fram á dag með að hefja hlaup. Það er bara að vona að búið verði að hreinsa draslið úr miðbænum og drykkjulýðurinn verði farinn heim. Ég man nefnilega eftir því að þegar hlaupið var sunnudaginn eftir svokallaða menningarnótt fyrir allnokkrum árum þá var draslið út um allt og eitthvað af fólki dautt áfengisdauða í skotum í miðbænum þegar hlauparar mættu til upphitunar. Það var ekki sérstök landkynning. Annars hef ég lengi verið á þeirri skoðun að það eigi að flytja markið úr miðbænum inn í Laugardal. Sú skoðun hefur styrkst eftir að það fjölgaði mjög í hlaupinu. Það er varla pláss lengur fyrir alla þessara hlaupara í miðbænum og engin aðstaða eftir hlaup nema malbikið. Með auknum fjölda útlendinga í hlaupinu styrkjast enn rökin fyrir því að færa markið. Kostirnir við að hafa hlaupið í Laugardalnum eru margir s.s.:

Nægt rými, bæði fyrir fólk og bíla.
Afhending gagna, pastaveisla og upphaf og lok hlaups á sama stað. Mjög hentugt fyrir ókunnuga.
Stutt í sundlaug.
Hægt að hafa fólk innandyra að hlaupi loknu ef veður er mjög vont.
Nægt pláss fyrir geymslu á fötum í Laugardalshöllinni.
Hægt að tvinna saman hlaupið, aðdráttarafl fyrir börn og húsdýragarðinn til að fá áhorfendur á svæðið.
Hægt að hafa mjög skemmtileg hlaupalok með því að hlaupa síðustu 300 metrana á frjálsíþróttavellinum.
Truflanir á götum yrðu minni í miðbænum.

Fleira mætti vafalaust tína til en ég sé miklu fleiri kosti við að flytja markið en að hafa það áfram í Lækjargötunni. Það verður sífellt að leggja mat hvernig best sé að útfæra á hlutina ef grunnforsendur breytast. Þær hafa svo sannarlega breyst í RM með mikilli fjölgun hlaupara.

Nú fer að styttast í Grikklandshlaupið og einnig í að maður fari að trappa niður hlaupamagnið. Ef allt fer sem horfir ætla ég að hafa síðustu þrjár vikurnar án langra hlaupa en taka Esjuna, gufu og styttri hlaup áður síðustu tvær vikurnar áður en ég fer út.

Ég geri alla vega ráð fyrir tveimur löngum helgum áður en rólegheitin hefjast. Í fyrsta lagi ætla ég að hlaupa tvöfalt maraþon í RM. Byrja uppúr kl. 4 um nóttina niðri í Lækjargötu og hlaupa sem leið liggur maraþonbrautina og vera mættur aftur í miðbæinn um það bil sem ræst er kl. 8.40 og klára seinni hringinn ásamt hópnum sem hleypur maraþon. Þessi hugmynd kviknaði í spjalli með öðrum stráknum mínum og mér þótti sjálfsagt að kýla á þetta.

Í öðru lagi stendur enn planið um að fara vestur á firði um síðustu helgi í ágúst og hlaupa milli Flókalundar og Bjarkalundar á tveimur dögum. Það eru um 140 km með miðju nokkuð nálægt Kletti í Kollafirði (fyrir austan Klettsháls). Það verður farið vestur að því tilskyldu að veðrið verði sæmilegt og betra. Helst ekki rigning og rok. Þetta var í upphafi lítil hugmynd sem fæddist í einmana hugarflugi um mögulega æfingaleggi fyrir Spartathlon. Hlaupið átti bara að vera einmenningshlaup með aðstoðarmanni en Ingólfur Sveinsson 100 km hlaupari hefur heldur betur hrokkið í gírinn eftir að hann las um þetta á sínum tíma. Hann auglýsir nú hlaupið og gerir hvað hann getur til að fá aðra hlaupara með vestur til að taka þátt í hlaupinu að öllu leyti eða að hluta til. Það væri virkilega gaman ef þarna gæti þróast upp enn eitt ultrahlaupið. Einfalt, erfitt en ánægjulegt. Sjáum hvað setur en þetta er spennandi möguleiki. Veðurspáin liggur fyrir í stórum dráttum á mánudaginn og skýrist eftir því sem nær dregur.

Um miðjan ágúst var ég búinn að hlaupa meira en allt árið í fyrra sem var þó lengsta árið þangað til. Mér finnst allt vera í besta ásigkomulagi nokkru sinni, bæði líkami og sál. Ég er viss um að skipulegt og skynsamlegt mataræði er ekki síst lykillinn að því að maður þoli meira álag og geti þannig geti lagt á sig meiri æfingar. Það sem er einnig mjög ánægjulegt að maður verður aldrei leiður á þessu.

6 ummæli:

Kransi sagði...

Sæll frændi

Ég lít hérna reglulega við til að lesa um ævintýri og svaðilfarir þínar. Það er alltaf ánægjulegt. Datt svona í hug að láta vita af mér.

Kv.
Davíð Rósenkrans

Nafnlaus sagði...

Sæll Davíð og takk fyrir innlitið. Gaman að heyra frá þér. Þú þarft að fara að koma í heimsókn við tækifæri.
Mbk
Gulli

Kransi sagði...

Já maður þyrfti að gera það. Langt síðan síðast.

Biggi sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Biggi sagði...

Algjörlega sammála þér með að flytja markið í Laugardalinn. Eiginlega furðulegt hvernig hægt er að bjóða upp á hlaup þar sem nánast engin aðstaða er fyrir og eftir hlaup. Væri stórsnjallt að enda á leikvanginum og nýta alla aðstöðu sem er fyrir hendi í Laugardalnum en skortir í Miðbænum.

Ég hef nú samt alltaf furðað mig mest á því hversu erfitt er að loka götum í Reykjavík, rétt á meðan á hlaupi stendur. Verð alltaf jafn pirraður þegar tómir strætisvagnar þurfa að komast leiðar sinnar innan um alla hlauparana....

Nafnlaus sagði...

Fyrirstaðan fyrir því að flytja markið er m.a. komin til vegna þess að það er alltaf til fólk sem óttast breytingar. Síðan gæti ég trúað því án þess að ég viti það að vallarverðinum á Laugardalsvellinum þætti grasinu á vellinum óvirðing gerð ef þreyttir hlauparar sætu á því eina ögurstund.
Gunnl.