föstudagur, desember 12, 2008

Ég fékk athyglisvert bréf í gær. Það var frá Íslenska lífeyrissjóðnum sem hafði fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að varðveita séreignalífeyrissparnað minn. Ég hafði á sínum tíma valið varfærnustu ávöxtunarleið sjóðsins. Því hafði ég talið að þessi sjóður væri all vel tryggur enda þótt hann hefði ekki borið neina ofurávöxtun á liðnum árum.

Það er ýmislegt í þessu bréfi sem vekur hjá mér tortryggni. Í fyrsta lagi er alltaf talað um nafnávöxtun. Það er fallegri tala á pappír þegar ávöxtun er lág en verðbólga er allnokkur eða mikil. Enda þótt nafnávöxtun sé nokkur þá geta peningarnir rýrnað ef verðbólgan er hærri. Því er þarna í besta falli verið að segja hálfsannleik sem getur slegið ryki í augun á einhverjum sem eru ekki að hugsa um nafnvexti og raunvexti upp á hvern dag. Mér finnst ávöxtunin vera harla léleg þar hún er ekki meiri en ca 5% nafnáavöxtun sl. 5 ár. Það er lægri ávöxtun en ef maður hefði lagt peningana inn á verðtryggðan bankareikning. Ég veit ekki hvað þetta lið er að gera í vinnunni ef þetta er niðurstaðan. Síðan er það hláleg niðurstaða að varfærnasti sjóðurinn rýrnaði mest þegar bankarnir fóru á hausinn eftir því sem formaður og framkvæmdastjóri segja. Þessi sjóður hafði fjárfest í skuldabréfum bankanna í stórum stíl og var það talin örugg fjárfesting "enda benti ekkert annað en ríkisvaldið myndi styðja við bankakerfið ef nauðsyn krefði". Halda þessir menn að almenningur sé fífl? Bankarnir voru komnir með skuldatryggingarálag fyrir rúmu ári síðan sem sagði manni að markaðurinn teldi þá vera sama sem gjaldþrota. Vissu þeir ekki að efnahagsreikningur bankanna var um 12 sinnum stærri en efnahagur ríkisins. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans var mjög takmarkaður. Um þessa stöðu snerust fréttirnar vikum og mánuðum saman. Svo segja menn að ekkert hafi bent til annars en að ríkið gæti stutt við bankakerfið ef nauðsyn krefði. Á hvaða lyfjum eru þeir sem tala svona? Rúm 20% af sjóðnum fuku þann 6. október að nafnvirði. Þá er eftir verðbólgutapið. Það verður fundur um málið á þriðjudgskvöldið kemur á Grand Hotel. Ætli maður reyni ekki að mæta?

Af hverju maður geti ekki lagt séreignalífeyrissparnað inn á bundinn reikning sem maður má ekki hreyfa fyrr en eftir sextugt frekar en að láta svona jólasveina sjá um þessa aura, líklega á fantalaunum.

Það var spennandi að fylgjast með ritaranum í Útsvari í kvöld. Hann fór vel af stað með liði sínu en svo fataðist honum flugið og mátti þakka fyrir að landa sigri. Spurnig er hvort hann hafi orðið ringlaður af því að hafa þessar blómarósir sitt á hvora hönd og ekki náð að fókusera. Á því hefur maður fullan skilning.

Ég skrapp á kaffi Catalínu í Hamraborginni í Kópavogi í fyrrakvöld. Þar var Vestfirska forlagið að kynna jólabækurnar. Það var gaman að heyra í Jóni Kr. frá Bíldudal taka gamla standarda. Aldrei fór ég á ball með Facon hér í gamla daga. þeir hættu rétt um það bil sem ég komst á aldur að fara á böll. Jón hefur hins vegar skapað sér verðugan sess í íslenskri tónlistarsögu. Finnbogi Hermannsson fyrrverandi fréttamaður las einnig upp skemmtisögur að vestan. Þar sem hann hefur hvurs manns kjaft þá var eins og sögupersónurnar væru mættar þegar Finnbogi fór með sögurnar.

Engin ummæli: