sunnudagur, desember 07, 2008

Silfur Egils var gott í dag sem endranær. Of langt yrði að telja allt upp sem athyglisvert var sagt þar. Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur kom inn á að íslenskir stjórnmálamenn skildu ekki hvað siðfræði og ábyrgð í stjórnmálum þýddi. Bankakerfið hrynur og ráðherra bankamála segist ekkert hafa komið nálægt neinu sem skipti máli. Hann telur sér til málsbóta að hafa ekki verið með í ráðum þegar Glitnir var yfirtekinn af ríkinu. Það er ekki haft samband við ráðherra bankamála þegar banki fer á hausinn og er þjóðnýttur. Ég fær ekki séð annað en að hlutaðeigandi hafi talið að það skipti ekki máli hvort hann var viðstaddur eða ekki. hann segist ekki hafa rætt við Seðlabankastjóra nema einu sinni sl. ár. Í fyrra voru bankarnir komnir með skuldatryggingarálag yfir 1000 punkta. Erlendir fjölmiðlar og erlendar greiningardeildir sögðu að þetta þýddi að þeir væru sama sem gjaldþrota. Þetta vissu allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum. Engu að síður tala seðlabankastjóri og ráðherra bankamála ekki saman nema einu sinni á árinu. Hvað eiga óbreyttir menn eiginlega að halda?

Jón Daníelsson hafði litla trú á þeirri styrkingu sem hefur orðið á krónunni sl. tvo daga. Hann sagði að í raun væri þessi styrking alfarið heimatilbúin af seðlabankanum. Hún er ekki raunveruleg. Gríðarleg hætta er á að það sé verið að nota lánið frá AGS í eitthvað svarthol sem ekki sér fyrir endann á. Jón Steinsson hafði áhyggjur af því að það væri ekki næg fagmennska í þeim þrönga hópi sem fer með málin fyrir hönd íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar. Af hverju eru ekki til þessa verkefnis kallaðir þeir einstaklingar sem við höfum öflugasta og sett upp eitthvað "Task force" sem er stjórnvöldum til ráðgjafar. Ég hef ekki voðalega mikla trú á þröngum hóp íslenskra embættismanna sem horfði á brennuvargana leika lausum hala án þess að aðhafast nokkuð og síðan pensioneruðum finna. Það virkar ekki afskaplega trúverðugt. Þarna er um svo gríðarlega hagsmuni að ræða að það verður að beita öllu tiltæku til að halda uppi hagsmunum landsins. Mæli þeð því að þeir sem ekki náðu að horfa á Silfrið í dag horfi á það á netinu. Það er vel þess virði.

Jón sagði einnig að þær aðstæður sem eru til staðar á Íslandi í dag væru kjöraðstæður fyrir spillingu að öllu tagi. Hver gætir hagsmuna almennings? Bankastjóri Glitnis er ekki trúverðugur eftir þau tæknilegu mistök sem urðu þegar hún keypti í Spron fyrir 180 milljónir og gleymdi að gá að því hvort kaupin hefðu gengið í gegn eða ekki. Bankastjóri Landsbankans nýja var hægri hönd Sigurjóns Árnasonar á sínum tíma. Hún var því gerandi í öllu heila klabbinu. Er það eðlilegt að ráða bankastjóra úr þessum hópi á miklu hærri launum en forsætisráðherra og forseti Íslands? Spyr sá sem ekki veit?

Byr, Spron og SPKEF ætla að sameinast. Tveir þeir síðarnefndu eru allt að þvi gjaldþrota. Ég heyrði í fréttum að ríkið ætlaði að tryggja stöðu sparisjóðanna. Gott ef það var ekki haft eftir ráðherra bankamála. Hvað fær ríkið (almenningur) í staðinn? Fær það hlutafé í hinum sameinaða sparisjóð?

Það var flottur leikurinn milli FH og Hauka í dag. Gaman að sjá ungu strákana í FH hvernig þeir eru að springa út. Þeir eru jafnaldrar strákahópsins í 2. fl. Víkings sem hefur haldið hópinn síðan þeir voru ca 10 ára guttar. Sama má segja um FH strákana. Þar eru mörg kunnugleg andlit. FH var alltaf heldur betri en Víkingarnir en þó tókst Víkingum að vinna þá af og til. Það var alltaf mjög gaman. Síðustu árin hafa FH stákarnir sýnt meiri framfarir en okkar strákar og sumir þeirra sprungið út sem fullþroska leikmenn. Einu sinni voru þessi lið að keppa og foreldrarnir tóku virkan þátt í leiknum. Einn pabbinn í FH hópnum hafði sig mikið i frammi og hvatti sína stráka óspart. Eitt sinn greip hitinn hann ofurliði og hann kallaði inn á völlinn: "Berjiði almennilega á þeim strákar." Ég er svona svipaður og hann og á erfitt með að sitja rólegur undir spennandi leikjum. Þarna greip mig einnig snöggur hiti og ég hreytti í hann: "Ertu að segja strákunum að fara að berja hina?" Meira var það ekki en eftir leikinn kom hann brosandi til mín og baðst afsökunar og sagði síðan: "Þekkirðu mig ekki?" Ég þekkti manninn alls ekki. Þá minnti hann mig á að við vorum saman á Hvanneyri einn vetur fyrir ca nær 30 árum. Þá rifjaðist allt upp fyrir mér. Einn veturinn sem ég var á Hvanneyri voru þar einnig tveir kátir strákar úr Hafnarfirði. Þeir voru fínir og eftirminnilegir félagar. Þarna var annar þeirra kominn. Við höfðum ekki sést frá Hvanneyrarárunum þangað til þarna á vellinum. Síðan þá höfum við hist oft við þessar aðstæður og njótum þess að horfa á strákana spila, eflast og þroskast. Yfirleitt hrósar hann og hans strákar sigri en það er sama. Það er alltaf gaman að horfa á skemmtilega leiki með góðum liðum.
Þetta var faðir Ólafs Guðmundssonar sem er að springa út í vetur með FH liðinu sem afburða leikmaður, 19 ára að aldri.

Fór út í morgun kl. 8.30, tók Poweratehringinn, svo niður í Laugar þar sem ég hitti Vini Gullu. Við fótum inn í Elliðaárdal og út að Nauthól. Þaðan fór ég niður í Laugar og síðan heim. 30 km lágu. Það lengsta síðan í Grikklandi. Fínn dagur.

Engin ummæli: