fimmtudagur, desember 25, 2008

Á jólum reikar hugurinn oft til baka og maður rifjar upp fyrri tíma sem tengjast desember og jólunum. Desember var oft lengi að líða en þó birtist alltaf nokkur von í þvi að hann myndi líða eins og aðrir mánuðir þegar jólasveinadagatalið var komið á vegginn. Þá var niðurtalningin alla vega byrjuð. Mamma fór yfirleitt á Patreksfjörð í desember til að kaupa inn fyrir jólin. Þá var ekki skotist í búð ef eitthvað vantaði heldur var verslunarferð skipulögð með töluverðum fyrirvara. Bíll var ekki til á hverjum bæ heldur sameinaðist fólkið í þá bíla sem til voru. Stundum var færð og veður ekki eins og best var á kosið og þá þurfti að stíla ferðina á Patró upp á mokstursdag svo tryggt væri að menn kæmust fram og til baka samdægurs. Appelsínu- og eplalyktin barst um bæinn eftir að komið var úr kaupstaðnum og setti sitt mark á jólatilhlökkunina. Skata var aldrei borðuð heima á Þorláksmessu heldur voru reyktir bringukollar soðnir sérstaklega fyrir þennan dag. Þeir voru soðnir heilir og þóttu bestir ef þeir voru vel feitir. Manni fannst alltaf eins og jólastemmingin færðist endanlega yfir þegar byrjað var að lesa jólakveðjurnar í útvarpinu. Afi kom oft yfir frá Melanesi undir kvöld á Þorláksmessu með dálítinn poka sem var yfirleitt snarað inn í búr. Aðfangadagurinn var yfirleitt mjög lengi að líða eins og þekkt er fyrr og síðar. Það þurfti að sinna skepnunum þá daga eins og aðra þannig að það var yfirleitt eitthvað við að vera. Mamma fékk þó yfirleitt frí frá fjósinu um kvöldið því hún hafði nóg að snúast í bænum þennan dag sem og endranær. Það var reynt að gefa skepnunum heldur meiri og betri gjöf en endranær. Jólakortin voru alltaf opnuð eftir að komið var inn úr húsunum og búið að hafa fataskipti en áður en borðað var. Heitt hangikjöt var alltaf jólamaturinn. Jól eru fyrst og fremst lykt og hefðir. Því er hangikjötslykt alltaf hin dæmigerða jólalykt í mínum huga. Best þótti ef maður fékk nóg af bókum í jólagjöf. Það var alltaf þörf fyrir eitthvað nýtt að lesa. Ég man óglöggt eftir því að þegar ég var líklega fimm ára og Haukur bróðir sjö ára þá fengum við lungann af Nonnabókunum í jólagjöf. Það var mikill fjársjóður. Þær bækur sem á vantaði í safnið komu síðar. Þær eru allar varðveittar enn á góðum stað og hafa verið lesnar aftur og aftur enda eru þær sígildar. Krakkarnir mínir voru að tala um það á dögunum að það væri búið að gefa seríuna um Nonna og Manna út á disk sem nauðsynlegt væri að eiga hér á heimilinu.

Aldrei var farið í heimsóknir á nágrannabæi á jóladag heldur var hann haldinn hátíðlegur heima við, legið í bókum og hvílst. Á annan í jólum var alltaf farið inn að Melanesi í jólaboð til afa og ömmu. Þar fékk maður súkkulað en ekki kakó. Á næstu dögum heimsótti fólkið á Sandinum hvert annað á milli bæja, spjallaði saman, þáði góðgerðir og spilaði á spil. Ég held að ég geti fullyrt að það var aldrei haft vín um hönd í þessum jólaboðum. Rauðsendingar voru ekki vínmenn og það hefði þótt ósvinna að vera að pukrast með vín á jólunum á þessum árum. Í öðrum sveitum var það talinn vera hluti af jólahefðinni að fá sér í fótinn þegar farið var í kaupstaðinn fyrir jólin svo og að gefa út í bollann þegar fólk hittist á milli hátíðanna. Svona er þetta misjafnt. Ef vel viðraði var farið á jólatrésskemmtun út í Örlygshöfn þar sem félagsheimilið var. Síðan tók hversdagurinn við smám saman eins og gengur.

Jólin hafa sem betur fer haldið sínum sess í tilverunni gegnum áratugina og eru í nokkuð föstum skorðum þótt flest annað hafi breyst. Þar skiptir hlutverk fjölmiðla m.a. nokkru máli því þeir hafa veruleg áhrif á mótun samfélagsins. Ég man eftir því að mér fannst það ekkert sérstaklega viðkunnanlegt mín fyrstu jól í Svíþjóð að þá var glæpamynd í sjónvarpinu um kl. 21.00 á aðfangadagskvöld. Þetta passaði einhvern veginn ekki.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég skil vel að þér hafi fundist óviðeigandi að hafa glæpamynd á sjálfu aðfangadagskvöldi í Svíþjóð - en þeir eru nú svo sérstakir, þessir Svíar, hehe!

Þú manst að það er jólahlaup í fyrramálið, sami staður, sami tími en nú er það jólasveinahúfan sem gildir. En fyrst og fremst þó nærvera þín, kære ven!

Bryndís (og Úlfar)