fimmtudagur, desember 18, 2008

Ég fékk bréf frá Neil í gær. Hann er brattur og er að ná sér. Hann er farinn að æfa en er enn þreyttur. Þetta er svo gríðarlegt álag að það tekur tíma fyrir skrokkinn að jafna sig. Önnur hásinin er eitthvað að plaga hann og svo þarf hann að fara í einhevrja smá aðgerð sem ég er ekki alveg klár hvar er á skrokknum. Ég er ekki svo góður í enskri anatomíu að ég viti alveg hvar hvað er. Hann segist ætla að fara aftur eftir tvö ár og reyna að bæta sig um svona sólarhring eða eitthvað í þá áttina. Hér er ekki verið að tala um sekúndur eða mínútur. Neil vinnur hjá Straumi og gerir ráð fyrir að koma hingað upp innan tíðar. Hann er að planera að taka Claire sína niður til Suður Afríku á næsta ári og hlaupa Comerades. Fyrst hann er kominn þangað á annað borð ætlar hann að hlaupa fram og til baka. Hann var mjög glaður yfir að heyra að við hefðum verið spennt að fylgjast með honum hér uppi og látum hann ekki gjalda Gordons Brown.

Þegar einhver kaupir eitthvað á helming þess sem annar hefur hefur keypt hlutinn á og selur hann síðan aftur á tvöföldu kaupverðinu og græðir helling af peningum þá er eitthvað öðruvísi en það á að vera. Hverra hagsmuna voru vörslumenn GIFT fjárins að gæta? Það hlýtur að flokkast undir umboðssvik þegar einhver ráðstafar eignum annarra á þennan hátt. Ég átti ekkert inni í GIFT en pabbi og mamma áttu kannski svona 100.000 kall þarna inni eins og svo margir. Þetta er ekki þúfan sem veltir stóra hlassinu fyrir þau en þetta er principmál. Það getur ekki verið að það verði látið óátalið hvernig farið var með þessa fjármuni. Fimmtíu milljarðar farnir til andskotans. Almenningur hefur verið rippoffaður aftan og framan á undanförnum árum af þessu liði.

Ég fór í Salinn í kvöld á tónleika með Megasi og Senuþjófunum. Kallinn stóð sig með sóma nema að hann tók bara tvö uppklappslög. Salurinn klappaði í einar fimm mínútur eftir fleiri lögum en kallinn stóð bara og brosti. Svalur.

1 ummæli:

Gisli sagði...

Hvernig lýsir Neil þessum kvilla sínum? Sendu mér þennan bút úr bréfinu og við leysum þessa ráðgátu fyrir jól.
Aðalritarinn