þriðjudagur, desember 09, 2008

Maður veit varla hvaðan á sig stendur veðrið. Vafalaust hef ég sagt þetta áður en þá er það bara svoleiðis. Forstöðumaður fjármálaeftirlitsins segir að bankinn hafi verið dæmdur fyrir að rjúfa bankaleynd í sviksamlegum tilgangi en ekki þeir starfsmenn bankans sem voru sakfelldir fyrir það persónulega. Því sé allt í lagi að skipa þessa sömu menn í skilanefndir bankanna sem eru í greiðslustöðvun. Þessu er haldið blákalt fram eins og það sé verið að tala við fífl. Ég ætla forstöðumanninum ekki að tala af vanþekkingu, það getur ekki verið. Hvað liggur þá á bak við svona talsmáta og svona fullyrðingar? Það væri gaman að fá það dregið fram í dagsljósið.

Á sama hátt er það undarlegt að bankamálaráðherrann skuli ekki hafa vitað af því fyrr en í gær að endurskoðunarfyrirtækið sem á að kryfja framgang mála varðandi bankahrunið til hlýtar var einnig bæði endurskoðandi bankanna og virkur ráðgjafi þeirra. Það fólst meðal annars í því að annast stofnun fjölda fyrirtækja með undarleg nöfn. Ég´hélt reyndar að eftir Enron hneykslið í Bandaríkjunum hefðu öll virt endurskoðunarfyrirtæki farið í gegnum vinnuferla til að gæta sín á að svona lagað kæmi ekki fyrir. Þar er trúverðugleiki endurskoðunarfyrirtækjanna að veði.

Það er í hæsta máta undarlegt að þetta skuli fyrst vera ráðherranum ljóst tveim mánuðum eftir að þessi skipan átti sér stað. Ég var búinn að sjá umræðu um þetta fyrir löngu á netinu og var þessi skipan mála tekin sem dæmi um eitthvað sem væri öðruvísi en það ætti að vera. Það er nú ekki hægt að bjóða manni hvað sem er. Mér fannst stjórnarþingmaðurinn sem kom fram í kastljósinu í kvöld endurtaka undarlega oft að það væri eðlilegur hlutur að menn gerðu mistök og þau jafnvel mörg þegar menn vinna undir álagi. Af hverju er það eðlilegur hlutur? Þá reynir fyrst á menn þegar álagið er mikið. Þá skal kalla til færustu sérfræðinga til að takast á við vandasöm störf og vera þeim til ráðgjafar sem taka afdrifamiklar ákvarðanir.

Forstjóri endurskoðunarfyrirtækisins telur ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki hans endurskoði vinnulag og ákvarðanir fyrirtæki sem sonur hans veitir forstöðu. Fólk sem fer erlendis í nám og kemur heim aftur hefur vafalaust innbyrt mikla fagþekkingu. En það kemur heim með meira. Margir hverjir hafa einnig kynnt sér og fræðst um hvernig stjórnsýsla nálægra landa er uppbyggð og eftir hvaða siðareglum stjórnvöld vinna í nálægum löndum. Slík þekking er afar verðmæt á tímum eins og þeim sem við lifum í dag. Því lætur fólk ekki segja sér hvað sem er lengur.

Ég er ekki allt of kátur með nýja útvarpsskattinn. Eftir þvís em ég veit best munum við hér í Rauðagerði 36 borga um 90 þúsund kall á ári til RÚV í stað ca 30 þúsunda í dag. Það er af því þeta er nefskattur og allir lögaðilar gagnvart skattinum fá sendan gíróseðil hvort sem þeir hafa tekjur eða ekki. Það má vel vera að RÚV hafi gengið of langt á auglýsingamarkaði. Manni finnst t.d. ekki sjálfsagt að ríkisfjölmiðill sé að troða auglýsingum inn í miðja þætti eins og forhert PAYTV. Nefskattur er hins vegar mjög umdeilanlegur því í honum er engin jöfnun innifalin. Tekjulaust fólk greiðir hann jafnt og hátekjufólk.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp þess efnis að laun þingmanna og ráðherra skuli lækkuð um 5 - 15%. Fyrst að farið er að hugsa á þessum nótum þá hefði ég byrjað á því að afnema núverandi dagpeningafyrirkomulag hjá ríkinu. Það væri ómaksins vert hjá fjölmiðlum að kanna hve mikill hluti dagpeninga eru beinar tekjur við ferðir erlendis. Það ég þekki til á öðrum norðurlandanna þá er útlagður kostnaður alltaf greiddur við ferðalög erlendis. Sett eru ákveðin mörk á hvað útlagður kostnaður má vera hár. Ísland er eina landið af norðurlöndunum sem hefur þetta dagpeningafyrirkomulag. Ég þekki það mikið til að ég veit að í mörgum tilvikum hafa dagpeningar verið veruleg launauppbót hjá þeim sem fara mikið erlendis, skattlaus launauppbót ofan í kaupið.

Engin ummæli: