sunnudagur, maí 15, 2005

Esjuhlaup í kvöld (laugardagskvöld). Lagði af stað að heiman kl. 18.45 og hljóp upp í Kollafjörð. Gekk upp að Steini og skokkaði svo létt niður. Hitti fjóra stráka á menntaskólaaldri um 10 leytið sem voru á leið upp Esjuna. Esjuganga er ekki alveg sem maður sér fyrir að strákar á þessum aldri taki sér fyrir hendur á laugardagskvöldi. Fínt hjá þeim. Hljóp svo til baka heim og var kominn kl. 0.08 eða eftir tæpan 5 og hálfan tíma í allt. Fór frekar rólega en var léttur allan tímann og fann ekki fyrir þessu í fótunum. Í Grafarvogsbotni sá ég að ég hafði möguleika á að vera fljótari til baka en uppeftir og herti því nokkuð á mér og náði settu marki. Maður sá fyrir sér konuna sem var að berjast við að ná 30 tíma markinu í WS100 og kom í mark 52 sekúndur umfram tilskilinn lágmarkstíma. Hver vegalengdin er erfitt að segja um því Esjan er dálítið öðruvísi en flatlendishlaup. Til samanburðar má nefna að á Borgundarhólmi var ég 5.10 að hlaupa fyrstu 50 km svo þetta er eitthvað álíka í álagi mælt. Þetta var nákvæmlega það sem ég þurfti að taka nú eða 5 - 6 tíma hlaup og ekki skemmdi fyrir að hafa Esjuna innifalda. Ég ber það ekki saman hvað ég var léttari nú heldur en t.d. í fyrra þegar ég hljóp frá Króknum inn að Varmahlíð og tilbaka þrátt fyrir að Esjan væri innifalin. Það voru um 50 km og ég var þá rúma 5 klst á leiðinni.

Það hefur verið fínt á Hvannadalshnjúk í dag. Gaman hefði verið að vera með en það bíður betri tíma.

Engin ummæli: