þriðjudagur, maí 10, 2005

Fór snemma út í morgun (mád) og tók 12 km áður en ég fór í vinnuna. Mætti Svan á leiðinni þar sem hann hjæólaði í vinnuna. Hann lét vel af sér en hann fór í aðra aðgerð í vetur með hnéð. Þá var skafið heldur meira innan úr því en gert var í janúar. Nú siktar hann á að byrja að skokka þann 1. júní og ætlar að taka það rólega til að ofgera sér ekki og ná upp fyrri styrk. Hann er magnaður, nýlega orðinn sextugur. Einhver væri sestur í helgan stein hvað hlaupin varðar og farinn að stunda golf eða eitthvað rólegra.

Fór á Esjuna seint í kvöld og var kominn heim rétt um miðnættið. Það gekk á með skúrum í dag svo maður var heppinn að sleppa milli skúra. Það var orðið frekar dimmt á niðurleiðinni svo maður fór varlega. Það þarf ekki nema að hrasa einu sinni og allt er fyrir bí.

Seint minnkar snjórinn í Squaw. Hann er enn verulega yfir meðaltali. Það gæti orðið þungt undir færi fyrstu 20 - 30 M í sumar ef ekki gerist eitthvað drastiskt í þessu.

Sá athyglisverða grein í Mbl í morgun sem fjallaði um kynjabundið ofbeldi. Þar var vitnað í rannsókn sem gerð var á þessum málum í USA og Canada en í henni kom fram að konur væru ekki síður ofbeldisfullar á heimilum en karlar. Á hinn bóginn eru karlar sterkari þannig að þeir valda oftar meiri áverkum. Hérlendis er umræðan um þessi mál á skakk og skjön eins og svo oft áður. Hún einskorðast algerlega við að allt ofbeldi á heimilum sé unnið af körlum. Það er sama feministaofstækið í þessu eins og svo mörgu öðru. Allt of fáir þora að ganga fram fyrir skjöldu og ræða málið frá báðum hliðum. Nú er ég alls ekki að mæla ofbeldi bót eða gera lítið úr því sem er. Það eru hins vegar sjaldnast ein hlið á málinu og nauðsynlegt að ræða málið eins og það er en ekki bara þá hliðina sem þægilegri er. Ég held að það sé starfandi opinber nefnd sem eigi að berjast gegn kynjabundnu ofbeldi á heimilum, les: ofbeldi karla gegn konum. Hvað með rest?

Engin ummæli: