sunnudagur, maí 01, 2005

Var að ljúka við að klára statistikkina fyrir apríl. Hann lagði sig með 507 km sem er það mesta sem ég hef hlaupið í einum mánuði til þessa. Síðustu þrjár vikur voru 130 km, 133 km og 145 km. Í janúar hljóp ég að jafnaði um 65 km á viku, í febrúar tæpa 80 km á viku, í mars rúma 100 km á viku og í apríl nálægt 130 km á viku. Samtals er heildarmagnið frá áramótum rétt yfir 1500 km eða sem svarar hring í kringum landið. Þetta er allt eftir bókinni og hefur allt gengið upp til þessa sem ætlað var og getur maður ekki verið annað en ánægður með það. Ég geri ráð fyrir að maí verði svipaður að magni til og apríl en uppleggið verður dálítið annað. Nú verður meiri áhersla lögð á Esjuna og brekkuátök, bæði upp og niður. Það segja allir sem til þekkja að lykillinn að því að frjósa ekki fastur á miðri leið í WS 100 er að hafa sinnt brekkuhlaupunum af kostgæfni. Ég held að uppleggið frá byrjun hafi verið nokkuð skynsamlegt með því að fara frekar rólega af stað en þyngja síðan stöðugt á. Það sem leynist síðan bak við janúar og febrúar er að ég tók þá alltaf löng hlaup á laugardögum og sunnudögum (25 - 35 km) en var þá aftur á móti frekar rólegur í miðri viku. Það hefur örugglega nýst mjög vel að taka þessi hamborgarahlaup eins og þau eru kölluð því þau byggja örugglega betur upp styrkinn en að hlaupa löng hlaup með óreglulegum hætti. Get ekki sagt að ég finni fyrir gærdeginum enda var ekki um átakahlaup að ræða heldur skemmti- og félagshlaup.

Engin ummæli: