sunnudagur, maí 22, 2005

Rútuhlaupið í gær. Töluverð hreyfing á trjátoppunum fyrir utan eldhúsgluggann um morguninn benti til að það væri nokkur gola á leiðinni en sem betur fer yrði hún líklega í bakið. Skokkaðið niður í Laugardal fyrir níu og hitti Magga Sig. glaðbeittann. Hann bjóst við góðum fjölda og það reyndist rétt, um 70 manns tóku þátt í hlaupinu og var farið á tveimum rútum. Vindurinn var yfirleitt sæmilega vel í bakið nem avið rauðavatnið en þá lá han á mólti. Hélt sjó með Bigga, Magga og Val lengst af. Hittum mann við Árbæjarlaugina sem var að koma hlaupandi frá Þingvöllum (Grafningsafleggjaranum). Hann hljóp leiðina með Þórði, Kötu og einum til sem ég veit ekki hver var. Þau voru rétt á undan rútuhlaupsförum og voru ánægð með túrinn. Síðan fréttist af tveimur úr Fjölni sem hlupu Þingvallavatnshringinn. Það var mikið hlaupið þennan daginn. Við komum niður í Laugardal tíu mín. fyrir kl. 13.00 og var ekki undir 20 mín skemmri tími en þegar ég hljóp rútuhlaupið síðast fyrir þremur árum. Skokkaði svo heim svo dagurinn gerði 36 km.

Klukkan rúmlega 16.00 hringdi síminn. Það var Halldór Guðmundsson, nýkominn í mark ín Odense eftir að vera búinn að verka tíu 10 km hringi í bænum. Hann lauk hlaupinu á rúmum 11 klst. Hann var alsæll með að allt hefði gengið vel. Það hefði verið dálítið erfitt eftir 50 km, sagði hann, en versnaði ekkert eftir það. Þetta er frábært, ekki síst eftir að Halldór heltist úr lestinni á síðasta ári við undirbúninginn fyrir del Passatore sökum meiðsla en nú gekk allt eins og í sögu.

Vorhátíð hlaupahópa um kvöldið. Pétrarnir Helgason og Franzson sá um allt af miklum myndarskap.

Niðurstaða fékkst í Eurovision. Grikkirnir voru með ágætt lag sem átti vafalaust skilið að vinna. Samkvæmt frásögn lögreglunnar voru menn fullir og vitlausir út um alla borg í nótt í eurovisionveislum, líklega með sært þjóðarstolt. Menn verða bara að átta sig á því að það var farið af stað með slakt lag sem sungið var af meðalpoppstelpu sem var klædd í afkáraleg föt. Við hverju er að búast með svona samsuðu. Þótt ég ætti að vinna mér það til lífs þá man ég ekki eina línu úr þessu lagi sem búið er þó að hljóma vikum saman í útvarpinu.

Þjóðarrembingurinn er dálítið afkáralegur í þessu sambandi. Verst fannst mér þó að sjá í blöðum að það væri svo sem skiljanlegt að Selma hefði fallið út því "austur evrópskur sveitaskríll hefði ekki haft vit á að meta svona gott lag" Nú er best að stoppa við. Þegar maður kemur til austur Evrópskra borga fellur manni oft allur ketill í eld út af þeim aldagamla menningararfi sem maður sér þar. Byggingarlist, myndlist og tónlist svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir hundrað árum bjuggu íslendingar í moldarkofum, voru ein fátækasta og aumasta þjóð Evrópu og þéttu þökin á húsum sínum með kúaskít. Langspil og rímnasöngur hefur ekki fengið sérstaklega mikið flug í nútímanum sem menningararfur. Síðan hefur margt gerst og íslenskt þjóðfélag þróast með ógnarhraða inn í nútímann. Velmegun er mikil hér og óvíða meiri. Það gefur okkur hins vegar ekki stöðu til að fara fram með hroka og bjálfahætti gagnvart öðrum þjóðum eins og er því miður oft einkennandi fyrir nýríkar þjóðir og einstaklinga.

Fór frekar snemma heim í gærkvöldi því verkefni beið í morgun. Lagði af stað upp úr kl. 8.00 og keyrði upp í Mosfellssveit. Hljóp þaðan sem leið lá austur Mosfellsheiði. Við afleggjarann við Skálafell er minningarkross um Gumma Gísla, þann góða dreng og mikla hlaupara. Ég hafði ekki séð krossinn áður enda ekki farið yfir heiðina á síðasta ári. Á honum hangir hlaupahúfan hans og mynd er af Gumma á krossinum. Maður fær kökk í hálsinn yfir að hugsa um ranglæti forlaganna. Fór síðan sem leið lá upp að möstrum á Skálafelli. Ég hringdi í Halldór af hábungunni. Hann stóð þá við markið í Kaupmannahafnarmaraþoni og var nýbúinn að taka á móti Haraldi Júl sem lauk hlaupinu á ca 3.30. Hann átti von á Pétri og Eyjólfi þá rétt á eftir. Hann lét vel af sér en sagðist þó ekki vera til mikilla verka í að labba niður tröppur.

Ég skokkaði svo til baka. Á austurleiðinni var stífur mótvindur alla leið en nú var vindurinn í bakið svo allt var léttara en uppeftir. Kom niður í Mosfellsbæ eftir fjóra og hálfan tíma. Samkvæmt mælingu Péturs er þetta 22 km hvora leið eða 44 km samtals. Gott að þetta er búið.

Engin ummæli: