mánudagur, maí 16, 2005

Nú var ekkert hlaupið í gær, sunnudag, því hvítasunnudagurinn var haldinn heilagur með því að mála hér innan húss út í eitt. Störfum var lokið undir miðnætti og þá var slakað aðeins á með koníaksglasi og horft á Football Factory, mynd um breskar fótboltabullur. Það passaði að ná upp stemmingu (eða þannig) því í dag hefst knattspyrnuvertíðin. Víkingur spilar kl. 14.00 við Fjölni og hefst þá baráttan fyrir því að komast aftur í efstu deild. Það verður ekki auðvelt og minnast menn enn eftir jafnteflinu ónauðsynlega og klaufalega í Grindavík í fyrra sem sendi Víkinga niður en Fram hékk uppi eitt árið enn svo óverðskuldað.

Ég ætla að vera frekar rólegur í vikunni því á næstu helgi verður lokahnykkurinn tekinn. Þá er bandarískum þátttakendum (og öðrum sem eiga heimangengt) boðið upp á að hlaupa á tveimur dögum 60 - 80 km í WS brautinni til að taka lokaæfingu og kynnast brautinni.

Sá í Mogganum að Bryndís, Helga og Rannveig hlupu maraþon í Rúanda í gær. Það hefur verið mögnuð upplifun. Ég kannast min eiginmann konunnar sem var í forsvari fyrir þetta hérlendis og hann var búinn að segja mér af því hvað framundan væri. Hitti hann á Esjunni um daginn þar sem hann var að liðka sig upp.

Smá viðtal við mig birtist í Mbl í gær. Ég lét hafa eftir mér að enda þótt það virtist vera hálfgerð geggjun að hlaupa mikið, oft og lengi þá væri meiri geggjun að reykja. Ég held að ég hafi ekki gert skárri hlut fyrir sjálfan mig fyrir rúmum 20 árum en að hætta reykingum. Ég var þá farinn að hafa nokkrar áhyggjur af þessu og sá sjálfan mig um fimmtugt, gulan og hrukkóttan Camelkall eins og ég þekkti kallana fyrir vestar, vilja hætta að reykja en geta það ekki fyrir nokkurn mun. Úff.

Nú opna menn varla munninn nema að færa rök fyrir því að bora eigi jarðgöng. Samkvæmt fréttum í gær ætlar Vegagerðin að fara að rannsaka jarðgöng til Eyja enn frekar. Menn eru að gæla við 16 milljarða kostnað. Sú tala er eins mikil fölsun eins og hægt er að hugsa sér því samkvæmt fréttum í vetur þá var ekki innifalinn í henni kostnaðurinn við að ná grjótmulningnum út úr göngunum!! Ef Héðinsfjarðargöngin kosta 7 - 9 milljarða þá kosta Vestmannaeyjargöng 30 milljarða, að lágmarki. Vonandi verður aldrei af þessari vitleysu. Síðan kom fram í fréttum í gær að leiða eigi umferðina norður í land utar og norðar til að hún fari örugglega með fram öllum vegasjoppum þannig að ef maður ætlar til Akureyrar verði maður að fara gegnum Blönudós, nær því út að Skagaströnd, gegnum Sauðárkrók og Hofsós og gegnum jarðgöng (nema hvað) yfir í Svarfaðardal og gegnum Dalvík og svo til Akureyrar. Hvers á Hvammstangi að gjalda? Forsendan fyrir fyrir góðu samgöngu kerfi í landinu eru annars vegar greiðar og stuttar leiðir milli stærstu staða og síðan eru greiðar leiðir innanhéraðs. Þverárdalsvegurinn milli Sauðárkróks og Blönduóss er mjög góður fyrir héraðið en ég vona að han verði aldrei einn hlekkurinn í leiðinni milli landshluta. Það væri gaman að sjá mælingar á því á þessari leið hvert menn eru að fara, bæði sumar og vetur.

Engin ummæli: