föstudagur, maí 06, 2005

Tók Esjuna í kvöld. Þetta er búinn að vera fínn dagur. Veðurútlitið er heldur gott, líklega fer aðeins að hlýna. Hitti hollenskan strák við Esjurætur sem er áhugamaður um fjallamaraþon. Hann er að æfa fyrir fjallahlaup í Ítalíu. hann fór eitt 48 km langt í fyrra þar sem hækkunin var 4000 metrar og lækkunin 4000 metrar. Það er margt til.

Líklega hefur breski verkamannaflokkurinn sigur, en slakan þó samkvæmt fyrstu útgönguspám. Blair verður hálfgerður fangi í eigin flokki þar sem meirihlutinn er svo naumur að hann verður háður þeim hluta þingmanna sem er mjög andvígur honum. Líklega hættir hann bráðlega og Gordon Brown tekur við.

Nokkur numræða hefur átt sér stað um breska kosningakerfið. Það er með eindæmum vitlaust og ólýðræðislegt þar sem sá sem flest atkvæðin fær í hverju kjördæmi tekur allt. Þetta þætti ekki gáfulegt hérlendis ef það væri við lýði. Nóg er samt.

Það er alltaf gaman þegar fólk nær baráttumálum í höfn eða þó ekki sé nema hluta af þeim. Sá viðtal í Mogganum í morgun við manneskju sem var að kaupa í matinn í Stokkhólmi. Í viðtalinu var tvítekið fram að innkaupin ættu sér stað í dýrustu búð í Stokkhólmi. Hér áður fyrr barðist þessi manneskja fyrir bættum hag öreiganna (eða þannig). Það er allavega gott að hagur einhverra öreiga hefur batnað þótt ekki hafi fullur sigur unnist fyrir alla.

Engin ummæli: