mánudagur, maí 09, 2005

Fór 16 km í kvöld. Vaknaði snemma í morgun og var að hugsa um að fara út að hlaupa en bæði nennti ég því varla og síðan er ýmsu að sinna hér heima þar sem nú líður að útskrift. Það þekkja allir sem gengið hafa í gegnum að þá leggst eitt og annað til heima fyrir. Í dag var málað.

Fékk Marathon & Beyond í gær. Þar er frásögn frá 100 M hlaupi í Virgin. Kevin Polin gefur eftirfarandi ráð til 100 m hlaupara:
1.Venja sig við næturhlaup.
2. Gott er að hafa meðhjálpara í næturhlaupum.
3. Nauðsynlegt er að sinna fótunum vel. Skipta skal um sokka og skó áður en vandamálin koma í ljós.
4. Hafa skrifaðan tjekklista í töskunum á drykkjarstöðvunum þannig að maður gleymi engu sem nauðsynlegt er að gera.
5. Vera eins sjálfbjarga og mögulegt er. Treysta fyrst og fremst á sjálfan sig.
6. Rétt er að búast við að vandamál komi upp.
7. Hafa eins réttan útbúnað og mögulegt er, meðal annars hlifar til að fari ekki steinar í skóna.
8. Borða eins mikið og hægt er á drykkjarstöðvum. Saltpillur eru einnig nauðsynlegar, tvær á hverja 15 km.
9. Byrja rólega til að hafa nægt úthald á seinni hluta hlaupsins.

Félagar í UMFR36 verða á ferðinni í Danmörku á næstunni. Pétur Reimarsson hefur skráð sig í Kaupmannahafnarmaraþon þann 22. maí, hans fjórða maraþon á tveimur og hálfum mánuði. Daginn áður, þann 21. maí, mun Halldór Guðmundsson takast á við 100 kílómetra hlaup í Odense. Þar verða hlaupnir tíu 10 km hringir í bænum. Ég er ekki í neinum vafa um að honum gengur vel. Halldór er mjög rútíneraður hlaupari og hefur æft af kostgæfni í vetur. Þingvallavatnshlaupið var lokahnykkurinn í æfingaprógramminu þannig að nú er niðurtalningin hafin. Halldór ætlaði að taka þátt í del Passatore í fyrra með Pétri og Svan en meiddist á miðjum vetri og var nokkra mánuði að jafna sig. Nú er hann kominn á fulla ferð aftur, reynslunni ríkari og fær í flestan sjó. Það er ánægjulegt þegar fjölgar í 100 km félaginu. Þar er fámennt en góðmennt.

Engin ummæli: