laugardagur, nóvember 18, 2006

Fór á Mýrina í gærkvöldi. Hvernig var hún? Auðvitað er einfaldast að segja að hún væri frábær og stórkostleg en ég keypti hana ekki alveg á þeim nótum. Það næst ekki þessi raunveruleikastemming sem þarf að vera í bíómyndum þegar manni finnst eins og leikendur lesi setningarnar upp af blaði. Manni fannst það vera svoleiðis á stundum. Ingvar fittaði ekki alveg inn í hlutverk Erlendar eins og manni fannst hann vera eftir bókinni. Annars vegar á hann að vera þurrpumpulegur og hálfgerður tuddi en svo dettur hann niður í sentimental stemmingar þar á milli. Hann reynir að vera eins og fjandinn við dóttur sína fyrst þegar hún leitar til hans í vandræðum án þess að vera þó trúverðugur en undir það síðasta er hann orðinn mjúkur ljóðalesari. Djöflaeyjan og Englar alheimsins náðu þessari stemmingu sem ég vil hafa í bíómyndum, raunveruleikastemmingu. Þeir tveir sem ég keypti fullu verði voru drullusokkarnir tveir, Elliði og Holberg. Það er náttúrulega hneyksli að Theódór Júlíusson skuli ekki einu sinni vera tilnefndur í Edduna svokölluðu í hlutverk sem aukaleikari. Hann kaupir maður á staðnum. Hann er holdgerfingur svona týpisks drullusokks og minnir mann á Hannibal Lecter. Hann er raunverulegur en líklega er menningarelítan ekki sammála manni um þetta. Allt um þetta, það var vel þess virði að fara á bíó.

Prófkjörahrina hefur gengið yfir og sýnist sitt hverjum um niðurstöðuna. Að margra mati er þetta hámark lýðræðisins en aðrir eru efins. Fjárausturinn er gengdarlaus og aðferðirnar tvíbentar. Maður spyr sig hvort þetta sé gangverk lýðræðisins þegar flokksbundnir eiga að velja á listann. Þá er gengið um með tvo undirskriftalista þar sem annars vegar einstaklingar geta skráð sig í flokkinn og síðan er annar listi við hliðina þar sem hinir sömu geta skráð sig úr flokknum. Dagsetnigin á þeim lista er svona tveim vikum seinni en á hnum fyrri. Mér finnst danska fyrirkomulagið vera gott. Þar geta kjósendur annað hvort krossað við lista á kjördag eða einstakling á einhverjum listanum. Þei einstaklingar sem fá flesta krossa eru kjörnir þingmenn. Þannig eru kosningar um leið vinsældakosning innan flokka. Þegar ég hef fylgst með dönskum þingkosningum þá veit maður að lokum kjördags hvað hver flokkur hefur fengið marga þingmenn en maður veitt ekki fyrr en eftir tvo til þrjá daga hvaða einstaklingar hafa verið kosnir á þing. Þetta fyrirkomulag er þannig að einstaklingar þurfa ekki að berjast við hvern annan í dýru prófkjöri þar sem sá ríkasti vinnur yfirleitt og á hinn kantinn þá geta flokksapparötin ekki troðið einstaklingum upp á kjósendur sem ómögulegt er að losna við. Þetta er lýðræðið í praxis.

Fór út kl. 8.00 í morgun. Frostið var 13 stig en logn. Hitti Pétur R. og Jóa í Fossvognum. Pétur hljóp með okkur vestur á bóginn og heim en við Jói tókum 20 km. hring. Fínn túr.

María keppti á Silfurmóti ÍR í Laugardalnum í dag. Henni gekk vel, vann til verðlauna og setti persónuleg met. Enda þótt mér þyki ekki sjálfgefið að kvennalandsliðið og karlalandsliðið í fótbolta eigi að fá sömu greiðslur (kem kannski að því síðar) þá finnst mér að strákar og stelpur eigi að fá sömu aðstöðu. Svo merkilegt sem það er í þessari fínu frjálsíþróttahöll sem er ein hin besta á Norðurlöndum, þá eru ekki fyrir hendi hæðartölutöflur við bæði hástökkssvæðin. Náttúrulega var taflan hjá strákunum. Svolítið pirrandi og óþarfi að láta svona smáhluti vanta.

Engin ummæli: