föstudagur, nóvember 10, 2006

Gærkvöldið bauð upp á ýmislegt. Það var Poweratehlaup, Jón Kr. frá Bíldudal var með tónleika í FÍH salnum í Rauðagerðinu til styrktar Melódíum minninganna, safninu sem hann hefur komið upp á Bíldudal og síðan var kjördæmisþing framsóknarmanna í Rvk suður. Auðvitað tók maður þann kostinn þar sem skyldumæting var og mætti á kjördæmisþing. Það hafði gengið ýmislegt á í aðdraganda þess eins og gengur en niðurstaðan var skynsamleg. Samþykkt var að viðhafa uppstillingu eins og þeir í norður hafa samþykkt og síðan var samþykkt mótatkvæðalaust að leita samkomulags við þá norðanmenn um að sameina kjördæmasamböndin. Öðruvísi mér áður brá. Að mínu mati er þetta ruglingslega fyrirkomulag félagskerfis flokksins í Reykjavík að ganga frá starfinu þar. Reykjavík er eitt sveitarfélag, einn pólitískur vettvangur og þar eiga menn að ráða ráðum sínum varðandi það pólitíska starf sem varðar kjördæmið allt á sameinuðum fundi eins og allir aðrir flokkar gera. Um þetta hafa staðið harðar deilur á undanförnum misserum og margir hafa ekki mátt heyra á það minnst að ræða þessa hluti einu sinni, hvað þá að fara að gera eitthvað í þeim. Ég og fleiri lögðum fram tillögu á landsþingi fyrir tæpum tveimur árum um að opna fyrir heimild í lögum flokksins um að í Reykjavík megi starfa eitt kjördæmisráð. Um þessa sakleysislegu tillögu urðu mikil átök og við atkvæðagreiðslu greiddu ótrúlegustu menn atkvæði gegn henni. Við mörðum 2/3 hluta atkvæða með litlum mun. Sú niðurstaða hefur í för með sér að nú er heimild til að fara að ræða hlutina en allir hugsandi menn sjá að núverandi fyrirkomulag er flokknum stórskaðlegt og hefur kynt undir flokkadrætti og klofning í honum. Má hann þó varla við slíku. Maður fór sáttari af fundi en þegar á hann var komið.

Fer á ljósmyndanámskeið hjá Cristopher Lund á morgun þar sem mest verður farið í gegnum RAW tæknina. Það er gaman að takast á við nýja hluti og læra eitthvað nýtt í þessum efnum. Ég er að verða allvel tækjaður og sé vel hvað það munar miklu að hafa þokkalegar linsur miðað við það sem maður hefur notast við.

Engin ummæli: