þriðjudagur, júlí 03, 2007

Fekk email frá herra P.Tsiakiris í Grikklandi í morgun. Hann var að tilkynna mér að það er allt í fína með skráninguna og greiðslu gjaldsins vegna Spartathlon. Gögnin eru á leiðinni. Nú fer spennan að vaxa. Það eru þrír mánuðir til stefnu. Ég veit ekki annað en að það sé allt í góðum gír og undirstaðan sé í lagi. Svo er bara að byggja ofan á.

Spartathlon er mikið hlaup. Leiðin liggur á milli Spörtu og Aþenu. Það er 240 km langt og verður að ljúka því á minna en 36 tímum. Þetta eru rétt um sex maraþon og yfir fjall að fara á km 160 - 180.

Það lá reyndar við í gær að það kæmi babb í bátinn vegna aulaháttar. Það rann undan mér stigi þegar ég var að mála húsið. Þetta kom ekki að sök nema að tærnar eru aðeins aumar en maður slapp með skrekkinn. Það þarf ekki nema augnabliksóaðgæslu eins og þessa þá getur allt verið komið til andsk..... Trausti lenti í svona í Skálafells - Leggjarbrjótshringnum um daginn. Hann var að horfa á GPSinn uppi á Esjunní gáði ekki að sér og fór flatur í grjótið. Hann meiddi sig á hendinni og marði sig á fæti en að varð ekki að skaða sem betur fer. Skynsemin segir manni að það borgi sig að hlaupa heldur hægar en hraðar niður Esjuna. Það þarf ekki að reka nema eina tá í á óheppilegum stað og endapunkturinn er kominn.

Málfarið á Mogganum vekur enn athygli. Ætli sé búið að segja öllum prófarkalesurum upp á blaðinu? Í gær var cameldýr myrt í Svíþjóð, í dag sprakk upp hús í Danmörku sem var í mínútu fjarlægð frá einhverjum íslendingi. Er mínúta nú orðin lengdareining? Mér þætti gaman að sjá þann tommustokk. Maður segir í mínútu göngufæri, mínútu hjólafæri eða mínútu akstursfæri en ekki mínútu fjarlægð. Við hvað er miðað? Ljóshraðann? Þessi framsetning segir manni ekkert um hve fjarri nefndur íslendingur bjó frá húsinu sem sprakk í loft upp.

Sumum finns þetta kannski vera tittlingaskítur en ef ambögurnar fá að riðlast á málfarinu óáreittar þá verða þær viðteknar sem sanningdi innan skamms tíma. Oft sér maður og heyrir að það er verið að hræra saman orðtökum og málsháttum. Mogginn hafði þá sérstöðu lengi að þar var vandað til málfarsins. Það virðist hins vegar vera fokið í flest skjólin í Hádegismóunum eins og staðan er í dag alla vega.

Engin ummæli: